Lagaákvæði er varða samgöngumál

22. fundur
Miðvikudaginn 16. september 1992, kl. 14:49:31 (826)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga sem er að því leyti mjög sérstætt að það veit enginn um hvað frv. fjallar vegna þess að efnisatriði þess eru ekki til staðar. Þó þarf sérhver íslenskur þegn að kynna sér lög sem fram eru sett og getur ekki afsakað sig frammi fyrir dómstóli með því að honum hafi ekki verið kunnugt að þetta eða hitt væri í lögum. Ég er sammála þeirri túlkun hæstv. ráðherra að trúlega mundi marga syfja í salnum ef hann tæki sig til og læsi í síbylju reglurnar um járnbrautalestirnar. Það yrði vafalaust svæfandi lesning.
    Það merkilega við það sem hér fer fram er að við höfum mátt búa við það á þessu hausti að ekki væru aðeins gerðar athugasemdir við að menn væru að vitna í stjórnarskrár heldur er því einnig fram haldið af einum hv. þm., 3. þm. Reykv., að stjórnarskrárnar væru yfirleitt þeim mun verri sem þær væru ítarlegri og best væri nánast að hafa enga stjórnarskrá. Ég tel það alveg óhjákvæmilegt að víkja ögn að sögu þessara mála og ætla að leyfa mér að vitna í Stjórnskipun Íslands, 2. útg. Höfundur er Ólafur Jóhannesson en Gunnar G. Schram annaðist útgáfuna. Þar segir svo á bls. 21, með leyfi forseta:
    ,,Sérstakar stjórnarskrár eiga fyrst og fremst rætur að rekja til stjórnarskrár Bandaríkjanna frá 1787 og til mannréttindayfirlýsingar þeirrar og stjórnarskrár, er Frakkar settu sér eftir stjórnarbyltinguna 1789. Að dæmi þessara þjóða tóku önnur ríki, sem stjórnfrelsi fengu, að setja sér stjórnarskrá. Hafa stjórnarskrár ríkja orðið algengar á 19. og 20. öld. Stjórnarskrám þessum er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að lögbinda æðstu stjórn ríkisins, tryggja stjórnfrelsi, stuðla að réttaröryggi og skapa vörn gegn hugsanlegu ofríki af hálfu handhafa ríkisvaldsins. Eru þær því nú víðast hvar taldar sjálfsagðar í menningarríkjum, enda þótt þær séu ekki, fremur en önnur mannanna verk, einhlítar til þessara hluta.``
    Þeir ætla sér stóra hluti sem líta svo á að eigi ekki að lögbinda æðstu stjórn ríkisins, eigi ekki að tryggja stjórnfrelsi, eigi ekki að stuðla að réttaröryggi og eigi ekki að skapa vörn gegn hugsanlegu ofríki af hálfu handhafa ríkisvaldsins. Þeir ætla sér stóra hluti sem telja að þetta sé óþarfi.

    Bretar búa við það að hafa ekki stjórnrskrá. Þeir hafa stjórnskipunarlög og það er ekki áskilið þess vegna að kosningarréttur sé skylda í Bretlandi á þann hátt sem hann er á Íslandi. Þegar fyrrv. forsætisráðherra Breta ákvað að leggja á nefskattinn þá var það innifalið að þeir auðnuleysingjar, sem ekki væru færir um að greiða þennan skatt, skyldu ekki hafa kosningarrétt í Bretlandi. Svo mjög reiddust Bretar þessu tiltæki að ráðherrann varð að hrökklast frá völdum vegna aðgangs eigin flokkssystkina. Það voru breskir íhaldsmenn, það má ekki gleymast, sem settu Thatcher af vegna ofríkis í hugsunarhætti. Þegnarnir, sem höfðu haft þær skyldur að þurfa að verja Stóra-Bretland ef á þá var ráðist með vopnum og falla fyrir þetta land, áttu ekki, ef þeir ekki greiddu nefskattinn, að þurfa að hafa rétt til að greiða atkvæði.
    Ég held að það þurfi að seilast nokkuð langt ef menn vilja halda því fram að stjórnarskrár hafi ekkert gildi fyrir lýðræðið, þær séu nánast mistök og betra sé betra að hafa þær sem ómerkilegastar.
    Það er rétt að Weimar-lýðveldið hafði mjög fullkomna stjórnarskrá. En í einni grein þeirrar stjórnarskrár var alvarleg meinloka. Hún var sú að framkvæmdarvaldinu var heimilt að taka til sín allt vald ef það mat það svo að um sérstakt hættuástand fyrir ríkið væri að ræða og í skjóli þessarar meinsemdar í þessari stjórnarskrá gátu menn á löglegan hátt tekið sér vald sem engin siðmenntuð þjóð teldi réttlætanlegt. Þetta er stundum notað af gárungum til þess að undirstrika að fullkomnar stjórnarskrár séu einskis virði og betra að hafa lélega stjórnarskrá og stutta.
    Nú er það svo með löggjafarvaldið sem á að vera í höndum Alþingis og forseta að það má nokkuð um það deila hversu mjög er heimilt að framselja það til framkvæmdarvaldsins. Það hafa fallið dómar á Íslandi, tveir hæstaréttardómar sem ég man eftir, þar sem löggjafarvaldið hefur verið ávítað fyrir að framselja of mikið vald til framkvæmdarvaldsins. Í öðru tilfellinu varð íslenska ríkið að greiða verulegar bætur vegna þessa. Ég kem að því síðar en ætla, með leyfi forseta, að vekja athygli á því sem segir um verkefni löggjafarþingsins og textinn er á bls. 284 í sömu bók um Stjórnskipun Íslands:
    ,,Í 2. gr. stjórnarskrárinnar er að vísu gengið út frá efnislegu lagahugtaki, þ.e. að viss fyrirmæli séu þess eðlis, að þau verði aðeins gefin í lögum, en þar skortir þó alla skilgreiningu á því, hvers kyns fyrirmæli þetta séu. Hér er í rauninni um tvær spurningar að ræða. Annars vegar hver fyrirmæli sé hægt að setja í lögum og hins vegar hver fyrirmæli verði aðeins sett í lögum en ekki á annan hátt. Í fyrra tilfellinu er um að ræða valdmörk löggjafans, og má segja, að í þessu sambandi sé það aðalspurningin. Í hinu tilfellinu er um að tefla einkaveldi löggjafans. Skulu nú hvortveggju þessi atriði athuguð nokkru nánar.``
    Mér sýnist að seinna tilfellið hljóti að vera það tilfelli sem menn verða að velta fyrir sér nú, þ.e. einveldi löggjafans, takmörkun löggjafans á því að hann hafi ekki heimildir til að framselja það vald sem honum er ætlað að hafa. Þar segir svo í stjórnskipun Íslands á bls. 286 við seinni spurningunni, með leyfi forseta:
    ,,Hinni spurningunni, hver fyrirmæli verði aðeins sett með lögum, þannig að óheimilt sé að setja þau með öðrum hætti, er vandsvarað. Þegar úr henni á að leysa, er fyrst athugandi, hverja leiðbeiningu sé að fá um það atriði í stjórnarskránni. Þess er áður getið, að í mörgum stjórnarskrárákvæðum sé sagt, að eitthvað skuli gert með lögum eða að eitthvað megi gera með lögum. Þegar heimilað er að breyta tilteknum stjórnarskrárákvæðum með lögum, sbr. 35., 62. og 64. gr. stjórnarskrárinnar eða talað er um, að eitthvað sé eða skuli ákveðið með lögum eða verði ekki gert nema með lögum, sbr. 5., 9., 14., 33., 40., 58., 59., 67., 69. og 76. gr. stjórnarskrárinnar, þá er alveg ljóst, að þeim efnum verður ekki skipað nema af löggjafanum. En á sömu lund verður einnig að skilja önnur stjórnarskrárákvæði, sem gera ráð fyrir lögum, enda þótt þau séu öðruvísi orðuð, sbr. 20., 27., 31. og 75. gr. stjórnarskrárinnar. Málefnum þeim, sem stjórnarskráin sjálf felur löggjafanum, verður því aðeins skipað með lögum, og löggjafanum er óheimilt að framselja framkvæmdarvaldshafa ákvörðunarvald um þau efni.``
    Ég vona að hv. þm. hafi veitt því athygli að fullyrt er að það sé óheimilt að framselja framkvæmdarvaldshafa ákvörðun um þau efni. Það eru sem sagt fullyrðingar sem staðfesta það að löggjafarvaldið hefur ekki frjálsan framsalsrétt á hverju sem er handa framkvæmdarvaldinu. Jafnvel þó að þinginu detti í hug að samþykkja það, þá stenst það ekki dóma Hæstaréttar. Svo einfalt er það mál. Enda væri það skrýtið ef Alþingi Íslendinga hefði heimild til þess að afhenda á einu bretti rétt sinn til að setja lög og fela framkvæmdarvaldinu að ráðskast með það eins og því sýndist. Með leyfi forseta, vil ég halda áfram lestrinum:
    ,,Önnur mikilsverð leiðbeining er fólgin í því, að löggjafinn einn getur breytt þeim ákvæðum, sem hann sjálfur hefur sett, nema heimild til breytingar með öðrum hætti sé í lögunum sjálfum eða leiði af öðrum heimildum, sbr. 30. gr. stjórnarskrárinnar um undanþágur frá lögum. Á regla þessi að sjálfsögðu einnig við um eldri lagafyrirmæli, þótt þau séu sett með öðrum hætti en nú gildir um lagasetning. En þar ber þess að gæta, að um einstök fyrirmæli, sem einvaldskonungar gáfu út, kann að orka tvímælis, hvort fremur beri að líta á þau sem lagaboð eða fyrirmæli framkvæmdarvaldshafa. Við úrlausn þess atriðis verður einkum að hafa hliðsjón af því, hvort birting hefur farið fram með þeim hætti, sem áskilið var um lög. Verði litið á slíkt konungsboð sem lagaákvæði, verður því auðvitað ekki breytt né það afnumið nema með lögum.
    Það getur verið beint eða óbeint ákveðið í almennum lögum, að tilteknum málefnum verði aðeins

skipað með löggjöf. Slík lagafyrirmæli eru bindandi fyrir framkvæmdarvaldshafa, enda þótt þar kunni að vera um að ræða efni, sem eðli sínu samkvæmt yrðu talin til stjórnarmálefna. Þessi regla veitir auðvitað enga leiðbeining, þegar um er að tefla efni, sem almannavaldið hefur ekki áður látið til sín taka.
    Þegar framangreindum stjórnarskrárákvæðum og almennum lögum sleppir, eru ekki fyrir hendi skýrar reglur um þetta efni. Þá verður að styðjast við valdgreiningu 2. gr. stjórnarskrárinnar, eða með öðrum orðum, miða við hið efnislega lagahugtak. Samkvæmt því þarf löggjafar við, þegar setja skal almennar réttarreglur, hvort sem þær mæla fyrir um háttsemi manna eða leggja viðurlög við, ef út af er brugðið, og hvort sem þær lúta að lögskipun á sviði einkaréttar eða allsherjarréttar. Einkanlega er það viðurkennd grundvallarregla í íslenzkum rétti, að skerðing á eignum eða frjálsræði einstakra aðila geti aðeins átt sér stað samkvæmt lögum eða heimild í lögum. Annars er regla þessi um nauðsyn löggjafar, ef setja skal almennar réttarreglur nokkuð teygjanleg, svo sem áður er að vikið. Þrátt fyrir hana hefur framkvæmdarvaldshöfum innan vissra takmarka verið talið heimilt, ýmist fyrir framsal af hálfu löggjafaraðilans eða samkvæmt venju eða eðli máls, að setja almenn fyrirmæli. Þegar stjórnarskráin sjálf kveður eigi á um það, að tilteknum málum skuli ráðstafað með lögum, má segja, að löggjafanum sé leyfilegt að heimila framkvæmdarvaldshöfum að setja almennar réttarreglur um tiltekin efni eftir því sem nánar er ákveðið í lögum, einkanlega ef slíkt framsal styðst við venju. Getur verið hallkvæmt að fela framkvæmdarvaldshöfum að setja fyllri og ýtarlegri ákvæði um málefni heldur en lögin sjálf geyma. Eigi að síður er mikið álitamál, hversu langt löggjafinn má eða á að ganga í þessu. Verður það nánar rætt síðar, er fjallað verður um reglugerðir og önnur almenn fyrirmæli framkvæmdarvaldshafa. Og þegar stjórnarskráin sjálf býður, að eitthvað skuli gert með lögum, er almenna löggjafanum, eins og áður er sagt, almennt óheimilt að fela framkvæmdarvaldshöfum ákvörðun um þau efni. Er spurning, hvort þessa hefur ætíð verið nægilega gætt. Því hefur t.d. verið hreyft, að með hliðsjón af 40. gr. stjórnarskrárinnar væri hæpið, að heimilt væri að fela ríkisstjórninni ákvörðunarvald um það, hvort hún innheimti tiltekna skatta eða ekki, svo sem mjög hefur þó tíðkast. Sennilega er þó ákvæði 40. gr. fullnægt með því, að skattar séu heimilaðir í lögum. Og hvað sem um það er, þá myndi þessi háttur sjálfsagt nú orðið talinn helgaður af langri og athugasemdalausri venju.
    Af framansögðu má ráða, að hið efnislega lagahugtak er engan veginn fastskorðað. Þegar eigi er við annað að styðjast, fer það nokkuð eftir ríkjandi réttarhugmyndum og almennri réttarvitund á hverjum tíma, hvenær löggjöf er talin óhjákvæmileg, þannig að framkvæmdarvaldshafa sé án hennar óheimilt að láta málefni til sín taka.``
    Hér er látið að því liggja að skv. 40. gr. sé hugsanlegt að athugasemdalaus venja hafi fært framkvæmdarvaldinu rétt til þess að innheimta skatta sé það heimilt á þann hátt að framkvæmdarvaldið geti breytt upphæð skattsins og þannig í reynd ráðið því hver skattheimtan er.
    Nú vill svo til að tveir af núv. þm. Sjálfstfl., hv. 1. þm. Vestf. og hv. 2. þm. Norðurl. v., hafa báðir hlotið dóma í Hæstrétti fyrir það að þeir beittu reglugerðarákvæðum sem heimiluðu þeim að ákveða skatt. Í öðru tilfellinu var um þungaskatt að ræða hjá hv. 1. þm. Vestf. þegar hann var samgönguráðherra. Í hinu tilfellinu var um fóðurbætisskatt að ræða þegar hv. 2. þm. Norðurl. v. var landbúnaðarráðherra. Í báðum tilfellum féllu dómar á þann veg að Alþingi hefði verið óheimilt að framselja jafnmikið vald og það hafði gert. Það er þess vegna undirstrikað með þessum dómum að sú athugasemd sem hér stendur í Stjórnskipun Íslands og hljóðar svo ef ég les hana aftur á bls. 288: ,,Og hvað sem um það er, þá myndi þessi háttur sjálfsagt nú orðið talinn helgaður af langri og athugasemdalausri venju.`` Hæstiréttur staðfesti að svo er ekki. Það er spurning hvort virðisaukaskatturinn eins og hann er í dag felur ekki í sér í reynd of mikið framsal til framkvæmdarvaldsins um það hvaða hlutir eigi að bera virðisaukaskatt og hverjir skuli undanskildir. ( Samgrh.: Mig minnir að þm. hafi . . .  ) Það hefur hreinlega ekki á að reynt. Nú kemur í ljós að hæstv. landbrh. hefur gott minni eins og allir vissu og sá sem hér stendur hefur greitt atkvæði með ýmsum sköttum, m.a. greiddi hann atkvæði með virðisaukaskattinum en hefur jafnframt hugleitt það hvort hann hafi veitt ráðherrum meiri heimildir en Alþingi getur veitt framkvæmdarvaldinu.
    Þó að ég hafi hér nefnt tvo hv. alþm. sem hafa hlotið dóma er ég ekki með því að kasta rýrð á þessa menn sem einstaklinga eða sem þingmenn. Þeir voru einfaldlega í stólum framkvæmdarvaldsins að framkvæma hluti sem löggjafarvaldið hafði heimilað og þeir töldu á sínum tíma að þeir stæðu í fullum rétti við að framkvæma það á þann veg sem þeir gerðu. En Hæstiréttur Íslands staðfesti það að löggjafarvaldið hafði ekki haft heimildir til að framselja þetta vald.
    Hér sagði hæstv. samgrh. í þeirri framsöguræðu sem hann flutti að það skapaði hvorki réttaróvissu né að um framsal valds til ráðherra væri að ræða. Nú er það svo að ef ekki er um framsal valds til ráðherra að ræða í því lagafrv. sem hér er, þá er ráðherrann að segja að framsalið sé úr landi, svo einfalt er það mál. Þá er ráðherrann að lýsa því yfir að framsalið sé úr landi. Það er staðreynd að ekkert ákvæði í þessu frv. er á þann veg að ef þeim lögum verður breytt frá því sem nú er í gildi hjá EB um þessa hluti þurfi á nýjan veg að koma til Alþingis Íslendinga og óska eftir heimild til að setja reglugerð. Það er aftur á móti gert ráð fyrir því að ef slíkar breytingar verði sé ráðherrann bundinn af þeim samningi sem gert er ráð fyrir að verði staðfestur og hann hafi heimild í lögunum til að breyta og þess vegna

sé hann í reynd skyldugur til að framkvæma þá breytingu.
    Ég veit það að í öllum ráðuneytum Íslands, hverju einasta ráðuneyti, er það talin einfaldasta leiðin til að sleppa við að útvega lagafrumvörp og leggja í þau þá vinnu sem þarf að ganga þannig frá málum að þau séu fyrst fremst heimildarlög. Ein frægasta löggjöf sem sett hefur verið á Íslandi um heimildarlög, og ég talaði mjög hart gegn í þinginu, var um stjórn fiskveiða. Þar byrjuðu margar greinar á ,,Ráðherra er heimilt . . .  `` og mér fannst að það væri nógt að segja að lögin hljóðuðu svo: ,,Ráðherra er heimilt að stjórna fiskveiðum við Ísland eins og hann hefur áhuga á.`` Svo þyrfti bara gildistökuákvæði að koma þar fyrir aftan. Þetta var Alþingi ekki ásátt með og hafði þrátt fyrir allt inni í lögunum ýmiss fyrirmæli um það hvernig ráðherrann ætti að starfa. Sem sagt, aðalreglan hefur allt til þessa verið sú að fyrst setti Alþingi lög þar sem allt aðalefni kæmi fram. Til viðbótar væri ráðherra heimilt að setja reglugerð til nánari útlistunar. Þetta hefur verið höfuðvenjan í þessum efnum.
    Hér er þessum hlutum aftur á móti snúið við. Það er þess vegna í fullu gildi sem stendur í þessari bók Um stjórnskipun Íslands á bls. 287 og ég hafði áður lesið upp:
    ,,Þegar stjórnarskráin sjálf kveður eigi á um það, að tilteknum málum skuli ráðstafað með lögum, má segja, að löggjafanum sé leyfilegt að heimila framkvæmdarvaldshöfum að setja almennar réttarreglur um tiltekin efni eftir því sem nánar er ákveðið í lögum, einkanlega ef slíkt framsal styðst við venju.`` Þ.e. ef það styðst við venju. Ef það hefur verið gegnumgangandi að það sé í samræmi við þau lög sem áður hafa verið sett í landinu sem eru á þann veg að fyrst eru aðalatriði efnisins sett í lagatexta og síðan er framkvæmdarvaldinu heimilað að setja fyllri ákvæði í reglugerð.
    Þær hugmyndir sem hér eru settar fram um lagasetningu helgast ekki af þessu. Hér er hlutunum gersamlega snúið við. Það eru engar upplýsingar í þessum texta um það hvað þetta þýðir gagnvart járnbrautastarfseminni eða skuldbindingar þar um þrátt fyrir að það fjalli um það mál. Ég er ekki að álasa hæstv. ráðherra prívat eða persónulega fyrir frv. á nokkurn hátt, alls ekki. Ég lít svo á að hann hafi tekið við frv. sem embættismenn framkvæmdarvaldsins hafa samið og talið að væri einfaldasta leiðin fyrir þá til að komast létt frá því verki að setja í lög ákvæði sem væru á þann veg að Ísland væri búið að lögbinda sig til að fara eftir því sem það hefði ákveðið ef Íslendingar samþykktu EES-samninginn. Hitt er svo aftur á móti spurning: Stenst þetta? Hefur það eitthvert gildi, jafnvel þó að hæstv. ráðherra fengi þetta samþykkt á Alþingi? Er einhver íslenskur þegn bundinn af þessu? Ég efa stórkostlega að svo sé.
    Hæstiréttur Íslands hefur fellt tvo dóma yfir tveimur starfandi þingmönnum landsins. Ætlar Alþingi Íslendinga undir slíkum kringumstæðum að halda áfram á þeirri braut að framselja svo mikið vald til ráðherra, til framkvæmdarvaldsins, í formi heimilda til útgáfu reglugerða að það sé komið inn á hin gráu svæði um hvað sé heimilt og hvað sé ekki heimilt? Ég tel persónulega að með frv. sé Alþingi komið það langt að það mætti segja sem svo að ekkert sé eftir sem Alþingi getur ekki framselt til löggjafarvaldsins nema það sem beinlínis er bannað, nákvæmlega bannað samkvæmt stjórnarskránni. Það breytir engu þótt fulltrúar framkvæmdarvaldsins skrifi niður skýringar og athugasemdir og afhendi sínum ráðherra og segi: Þetta er heimilt, vegna þess að þegar kemur að dómum þá er aðeins einn aðili dæmdur. Það eru ekki þeir sem skrifa textann og leiðbeiningarnar. Það er sá sem ber ábyrgð á framkvæmdinni. Svo einfalt er það mál. Það gildir nefnilega sú merkilega réttarregla í þessu sem gilti um Húsavíkur-Jón í því góða kvæði. Hann sat frammi fyrir því að hann einn sæti uppi með dóminn á efsta degi.
    Ég verð að segja eins og er að það er ábyggilega leit að frv. sem hefst svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerðir . . .  `` Í 2. gr.: ,,Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerðir . . .  `` 3. gr. hefur undirkafla og þess vegna er textinn í undirkafla 3. gr.: ,,Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerðir . . .  `` 4. gr.: ,,Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerðir . . .  ``.
    Í 5. gr. ber svo við að ákvæðið um rétt ráðherrans til að setja reglugerðir er komið í lok greinarinnar, það er ekki í upphafi og að þessu sinni samkvæmt íslenskri hefð, þ.e. nú er það til að setja nánari ákvæði. Svo kemur aftur 6. gr.: ,,Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerðir . . .  `` 7.gr.: ,,Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerðir . . .  `` Í 8. gr. er aftur gamla kerfið. Fyrst kemur lagatexti og í lokin kemur heimild til regugerðar samkvæmt nánari ákvæðum.
    Ég geri mér grein fyrir því að þær athugasemdir sem ég hef flutt hér falla í mjög grýttan jarðveg. Ég efa það að almennt sé nægilega ljóst fyrir Alþingi að ákvarðanir um það hvað sé raunverulega hægt að setja í lög og hvað sé ekki hægt að setja í lög eigi ekki að fara eftir því hvort menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Finnar einir hafa það kerfi hjá sér að áður en frv. verður að lögum er hægt að senda það til --- ég held að það sé dómstóll frekar en nefnd sem fer yfir það og metur hvort það standist þau ákvæði að geta orðið að lögum m.a. vegna stjórnarskrárinnar. Ég tel mikla nauðsyn á því að Alþingi Íslendinga hafi undir sinni stjórn aðgang að ráðgjöf svo það geti fengið skýr svör í þessum efnum áður en menn samþykkja lög. Það kalla ég ekki raunverulega ráðgjöf að senda þetta til umsagnar einhverra í stjórnsýslunni.
    Ég vil heldur ekki fallast á að það sé eðlilegt að það geti verið lausn undir þeim kringumstæðum að senda frv. til aðila sem að meira og minna leyti eru í aukavinnu hjá ríkinu með ómældar fjárhæðir í greiðslur fyrir slík störf og eiga þess vegna á hættu að verða einfaldlega teknir þar af launaskrá ef þeir verða til að móðga handhafa framkvæmdarvaldsins. Ég tel slíka aðila ekki hlutlausa og ekki hæfa til þessara hluta. Mér finnst þess vegna að það sé tímabært að þeir, sem nú keyra hratt og vilja að þau ákvæði verði sett í lög sem tryggi það að Íslendingar virði EES-samninginn verði hann samþykktur, geri sér grein fyrir því að ef Hæstiréttur Íslands mundi kveða upp hliðstæðan dóm og hann kvað upp í þeim tveimur málum, sem ég hef gert hér að umtalsefni, hefði Alþingi Íslendinga ekki leyst það verkefni sem stjórnvöld nú eru að fara fram á. Þá hefði Alþingi einfaldlega sett í lög ákvæði sem ekki standast að lögum. Ég tel að Alþingi sé engu bættara þó að hæstv. samgrh. verði einhvern tíma seinna meir dæmdur fyrir það að hafa beitt slíkum lögum. Ég sé ekki að það sé neitt markmið eða tilgangur í slíku. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að það sé fyrst og fremst skömm þingsins en ekki framkvæmdarvaldsins. Það er eðli alls valds að reyna að seilast eftir meira valdi. Hitt sem er aftur á móti það alvarlega í þessu er að Alþingi, sem er samkvæmt stjórnskipuninni falið ákveðið vald, tekur sig til og dreifir því út um hvippinn og hvappinn. Í þessu tilfelli er það trúlega að afhenda það vald út til Brussel. Ég hef ekki ástæðu til að rengja það sem hæstv. ráðherra segir að það sé sáralítið afsal á valdi til ráðherrans með þessu móti. Afsalið er úr landi eins og mér finnst það blasa við.