Lagaákvæði er varða samgöngumál

22. fundur
Miðvikudaginn 16. september 1992, kl. 15:28:30 (829)


     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Vegna ummæla hv. þm. um þær reglugerðir sem nauðsynlegt var að setja vegna samgönguþáttar samningsins um Evrópskt efnahagssvæði vil ég taka fram að eins og frv. liggur fyrir er tekið skýrt fram að heimild ráðherra sé takmörkuð vegna þeirrar nauðsynjar sem leiðir af skuldbindingum í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Fyrir þessu þingi liggur raunar frv. til laga um staðfestingu á þeim samningi. Auðvitað nær umboð ráðherra að þessu leyti ekki lengra en gagvart almennum lögum eins og alkunna er í þinginu. Hitt er aftur nýlunda að hér í tveim bókum liggja fyrir nákvæmlega hver eru efnisatriði viðkomandi reglugerða svo hv. þm. getur sett sig inn í það og þannig glöggvað sig á því hvað hér er haft í huga. Hitt er alkunna að það er ekki talið nauðsynlegt, og allra síst í tæknilegum málefnum, að lögfesta hvað eina sem lýtur að samgönguþættinum enda yrði slíkt til trafala og hefur oft orðið þegar lög í þessum málaflokki hafa verið of ítarleg.
    Ég vil nefna sem dæmi lög um leigubílstjóra sem nú liggja fyrir og er nauðsynlegt að breyta þótt ekki sé nema til að gefa ákveðið svigrúm svo að þau séu í samræmi við breytta ferðahætti og þörf fyrir aðra þjónustu en gert var ráð fyrir því þegar þau lög voru sett.