Lagaákvæði er varða samgöngumál

22. fundur
Miðvikudaginn 16. september 1992, kl. 15:30:27 (830)


     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Í frv. til laga um EES er vakin athygli á því að beint eða óbeint þurfi að binda í lög. Þegar talað er um að binda eitthvað óbeint er átt við reglugerðir. Hæstv. ráðherra hefur lagt hér til að alfarið verði farin reglugerðarleiðin og rökin fyrir því eru íslensku lögin um leigubíla. Vafalaust eru þau ekki fullkomin frekar en önnur mannanna verk. Hins vegar veita þau þó nokkrar upplýsingar um það hvernig þar ber að standa að málum. Það þýðir ekkert að veifa tveimur hvítum bókum og segja að menn geti kynnt sér innihald þeirra. Það er nú svo með lagafrv. að ætlast er til þess að í þeim komi fram það efni sem um er að ræða. Það er grundvallaratriði laga. Grundvallaratriði laga er sú réttarkrafa að einstaklingurinn eigi

í stuttu og aðgengilegu máli að geta komist að því við hvaða lög hann býr. Það er sú grundvallarkrafa sem gerð er til löggjafans og á móti er einstaklingurinn skyldugur til að kynna sér lögin. Honum er ekki réttarvörn í því að segja: Ég hef ekki lesið lögin. Þess vegna er það gersamlega út í hött að halda því fram að þinginu sé heimilt að samþykkja lög þar sem ekki kemur fram hver skyldan er en segja svo bara: Þið getið farið að lesa þessar bækur, þetta er þar að finna.