Lagaákvæði er varða samgöngumál

22. fundur
Miðvikudaginn 16. september 1992, kl. 15:32:55 (831)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 2. þm. Vestf. fyrir mjög athyglisverða ræðu um hlutverk löggjafarsamkundunnar og rétt hennar og skyldur. Ég held að full þörf sé á því að menn fari oftar yfir þau atriði sem er að finna í stjórnarskrá um hlutverk löggjafarþingsins og ekki hvað síst í ljósi þess stjórnarfars sem við búum við og höfum átt við að búa undanfarið eitt og hálft ár þar sem gætt hefur ríkari tilhneigingar en ég hef áður séð dæmi um af hálfu framkvæmdarvaldsins að draga til sín valdið úr höndum þingsins og líta á sína stuðningsmenn í þingflokkum stjórnarinnar sem vinnuhjú í vinnu hjá húsbændunum sem eru ráðherrar.
    Þetta makalausa frv. sem hér er til umræðu kallar vissulega á það að menn velti þessum atriðum fyrir sér. Það er ekki svo að menn séu varnarlausir í að leita að rökstuðningi fyrir þeim sjónarmiðum sem m.a. hv. 2. þm. Vestf. bar hér fram. Hann vitnaði til bókar eða rits eftir mann sem oft er vitnað til og m.a. grípa sumir hæstv. ráðherrar til að vitna í það rit þegar mikið liggur við að réttlæta gerðir sínar. Það álit hlýtur því að vega mjög þungt sem kom fram í upplestri við mat á því hvort þinglega sé að málum staðið og hvort togstreitan um valdið milli þings og framkvæmdarvalds sé farin að taka á sig þá mynd að framkvæmdarvaldið hafi þar tögl og hagldir og togi til sín meira en verið hefur og eðlilegt getur talist.
    Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar að gegnum tíðina hafi framkvæmdarvaldið verið of sterkt. Það hefur haft óeðlilega sterka stöðu gagnvart löggjafarsamkundunni og dregið til sín meira vald en að mínu mati er ásættanlegt. Þetta hefur ágerst mjög í tíð núv. ríkisstjórnar.
    Hvað varðar frv. þá er það, eins og vakin hefur verið athygli á, þannig upp byggt að að efni til er það einfalt: ,,Ráðherra er heimilt . . .  `` En það er ekki bara svo að ráðherra sé heimilt að setja reglugerðir vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið heldur er heimildin víðtækari en að setja reglugerðir á grundvelli þess sem fyrir liggur. Það segir í þessum allflestum lagagreinunum að heimildin nái til reglugerða sem eru nauðsynlegar vegna skuldbindinga er leiða af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða með öðrum orðum nær heimildin líka til þess sem koma skal, ekki bara til þess sem nú er í samningnum heldur þess sem menn kunna að koma sér saman um síðar og breyta. Ef þær breytingar kalla að mati ráðherra á breytingar hér innan lands er búið að afgreiða það í eitt skipti fyrir öll að hann hefur reglugerðarvald til að breyta í samræmi við það eins og honum finnst sjálfum að það eigi að vera.
    Valdaframsalið, sem er óumdeilanlegt í frv., bætist við það sem fram kemur í sjálfu frv. um Evrópska efnahagssvæðið því í 4. gr. þess hefur ráðherra einnig mjög víðtækt vald, ef þetta frv. nær fram að ganga. Þar segir að ráðherra sem í hlut á geti, ef sérstök nauðsyn krefur, sett reglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd EES-samningsins. Með öðrum orðum getur hver ráðherra sett reglur um framkvæmd samningsins, eins og hann lystir, á málasviði sem heyrir undir hann og þar með talið á þetta við um hæstv. samgrh. Þetta nægir ekki hæstv. samgrh. Hann vill fá meira.
    Ég vil vekja athygli á ákvæði í stjórnrskrá lýðveldisins sem nokkuð hefur borið á góma á þessu sumri. Þar segir í 69. gr., með leyfi forseta:
    ,,Engin bönd má leggja á atvinnufrelsi manna nema almenningsheill krefji, enda þarf lagaboð til.`` Eigi með öðrum orðum að setja reglur sem takmarki með einum eða öðrum hætti atvinnufrelsi manna verður það eigi gert nema með lögum, ekki með reglugerðum. Í þessu frv., sem hæstv. samgrh. hefur hér mælt fyrir, eru ýmis atriði sem lúta að þessu og falla að mínu mati undir 69. gr. stjórnarskrárinnar. Ég tel því ótvírætt að reglugerðarheimildir geti þingið ekki veitt ráðherra í þessu tilviki.
    Ég vil líka vekja athygli á því að í þingsköpum er mælt fyrir um það hvernig eigi að meðhöndla frv. Þar segir í 42. gr. þingskapalaga, fyrri málsgrein, með leyfi forseta:
    ,,Lagafrumvarpi, er felur í sér tillögu um breytingu á stjórnarskránni eða viðauka við hana, skal vísa til sérnefndar skv. 32. gr. Í fyrirsögn skal það nefnt frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Hafi það eigi þá fyrirsögn vísar forseti því frá.``
    Með örðum orðum ef frv. sem lýtur að stjórnarskránni er ekki rétt útbúið ber að vísa því frá. Þetta ákvæði þingskapa felur þá skyldu á herðar forseta að gæta að því hvort frumvörp sem lögð eru fram séu þess efnis að þau lúti að breytingu á stjórnarskrá. Það er meira tilefni en venjulega fyrir hæstv. forseta að líta til þessarar skyldu sinnar þegar menn eru með sem aðalmál þingsins samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Ég vil því spyrja hvort farið hafi fram af hálfu forseta athugun á því hvort þetta frv. hæstv. samgrh. falli undir fyrri mgr. 42. gr. þingskapalaga og jafnframt bæta því við hvort það hafi verið athugað af hálfu forseta hvort frv. sjálft, meginfrumvarpið um hið Evrópska efnahagssvæði, brjóti í bága við þetta

ákvæði eða öllu heldur hvort það sé þess eðlis að það kalli á breytingar á stjórnarskrá. Þetta ber forseta að athuga, sérstaklega þegar álitaefni eru uppi og skoðanir hafa verið settar fram um að svo kunni að vera, þ.e. að hér séu menn að ganga á svig við stjórnarskrána. Ég vil því óska eftir því að forseti upplýsi þingheim um hvaða athugun hefur farið fram á þessu af hálfu forseta því svo verður að vera til að forseti geti ákvarðað hvort frumvarp sé rétt fram borið eins og tilgreint er í 42. gr. þingskapalaga. Ef það er svo að þetta frv., sem hér er til umræðu, 28. mál á þskj. 29, brjóti í bága við 69. gr. stjórnarskrárinnar, eins og er mitt mat, þá ber því að hafa allt annað heiti en það hefur. Þar sem það hefur ekki það heiti ber forseta að vísa því frá.
    Virðulegi forseti. Af því að mér er það ljóst að sá sem nú situr á forsetastóli er ekki aðalforseti og er kannski ekki tilbúinn að svara spurningum mínum umhendis, þá vil ég fara fram á það við forseta að hann kanni þetta og svari héðan úr forsetastóli spurningum mínum um það hvort þessi frumvörp sem ég tilgreindi séu rétt fram borin hér á Alþingi.