Stjórnarskipunarlög

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 11:02:03 (861)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við erum að ræða 30. mál þingsins um frv. til stjórnskipunarlaga en eins og fram kom í máli hv. þm. Ragnars Arnalds framsögumanns, þá eru öll þau mál tengd sem flutt eru af hálfu stjórnarandstöðunnar, þ.e. mál nr. 29, 30 og 31.
    Við leggjum áherslu á að þessi mál eru nátengd ekki síst með því að sömu flutningsmenn eru að öllum tillögunum. Ætti því öllum að vera ljóst að þar er samhengi á milli. Þó er auðvitað hægt að samþykkja eitt af því þó að nauðsynlegt sé að okkar mati að samþykkja þau öll á þessu þingi.
    Frv. til stjórnskipunarlaga er tvíþætt eins og fram hefur komið. Í fyrsta lagi er um að ræða þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem meiri hluti atkvæða á að ráða úrslitum, þ.e. í sérstökum málum sem hafa verið samþykkt á Alþingi, eftir 2. málsl. 21. gr. svo breyttri eins og gert er ráð fyrir í 29. máli sem ég ætla ekki að fjalla frekar um. Ég hef gert það áður og mun ekki taka það sérstaklega fyrir en það er öllum alþingismönnum kunnugt. Einnig er gert ráð fyrir ráðgefandi atkvæðagreiðslu í öðrum málum.
    Við Íslendingar búum við lýðræðislegt stjórnarfar eins og flestar aðrar vestrænar þjóðir. Í lýðræðishugtakinu felst að æðsta valdið er hjá þjóðinni og allur almenningur eigi að velja um þá kosti sem fyrir liggja um skipan og þróun þjóðfélagsins. Við kvennalistakonur höfum ætíð lagt mikla áherslu á virkt lýðræði og teljum mikilvægt að almenningur hafi tækifæri til að segja álit sitt á mikilvægum málum oftar en á fjögurra ára fresti. Í samræmi við þetta höfum við lagt fram tillögur og minni ég hv. þm. á að á 109. löggjafarþingi flutti María Jóhanna Lárusdóttir, sem þá var varaþingkona Kvennalistans, ásamt Guðrúnu Agnarsdóttur og Kristínu Halldórsdóttur þáv. þm., till. til þál. um þjóðaratkvæði. Með leyfi forseta langar mig að að lesa þá tillögu en hún hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að stefnt skuli að því að tíundi hluti kosningabærra manna eða þriðjungur þingmanna geti farið fram á ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál. Komi fram slík krafa um mál sem er til meðferðar á þingi skal fresta endanlegri afgreiðslu þess þar til þjóðaratkvæðagreiðslan hefur farið fram. Kjósendum skal gefinn eðlilegur tími til að kynna sér það mál er kjósa á um en niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar skal þó liggja fyrir eigi síðar en tólf vikum eftir að hennar var óskað.``
    Þessi tillaga vakti þó nokkra athygli á sínum tíma og nokkuð góðar undirtektir margra en því miður var hún ekki samþykkt og hefðum við kannski verið komin eilítið lengra í lýðræðisþróun ef við hefðum borið gæfu til að taka á þessu máli. En ég vil þó taka fram að þetta er engan veginn í fyrsta skipti sem slíkar tillögur komu fram. Fleiri hafa vakið máls á þessu og vildi ég geta þess hér.
    Eins og ég sagði áðan þá er kosið um fjölmörg mál í almennum kosningum og ekki víst að allur almenningur geri sér grein fyrir hvað muni gerast á næstu fjórum árum eftir kosningar og alls ekki hægt að vænta þess að þingmenn viti um afstöðu umbjóðenda sinna í öllum málum sem upp koma á kjörtímabilinu. Það má taka það fram að í síðustu kosningum var alls ekki kosið um það að Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Það mál var mjög óljóst í síðustu kosningum og þess vegna mjög eðlilegt að sú krafa komi upp núna að málið fari til þjóðarinnar.
    Það hefur lengi tíðkast meðal lýðræðisríkja að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um ákveðin mál. Kjósendur eru spurðir um afstöðu til einstakra mála. Það er ýmist að það sé að ósk íbúanna sjálfra, að ósk þingmanna eða hvorra tveggja. Minna má á að t.d. í Sviss er þjóðaratkvæðagreiðsla lifandi þáttur í stjórnarfarinu og hluti af því og búa þeir við mjög langa hefð í þessum efnum. Á Norðurlöndum og reyndar víðar í Evrópu hefur það færst í vöxt að ákveðin mál séu boðin undir þjóðaratkvæði. Má í því sambandi minna á að Frakkar hafa ákveðið að kjósa um Maastricht-samkomulagið og verður það gert núna um helgina. Danir eru nýbúnir að kjósa um það og þjóðaratkvæðagreiðslur voru bæði í Noregi og Danmörku á sínum tíma þegar kosið var um inngöngu landanna í Evrópubandalagið. Eins og menn muna þá felldu Norðmenn það en Danir samþykktu. Mjög víða erlendis eru hefðir í þessu sambandi en hér á landi hefur ekki skapast sú hefð að þjóðin sé spurð í mikilvægum málum og hefur engin þjóðaratkvæðagreiðsla farið fram hér eftir 1944.
    Tillaga Kvennalistans gerði ráð fyrir að tíundi hluti kjósenda gæti krafist atkvæðagreiðslu í ákveðnum málum. Það hefur áður komið fram tillaga um það og ég minni á að í stjórnlagafrumvarpi sem Gunnar Thoroddsen lagði fram á Alþingi vorið 1983 var talað um þetta atriði, þ.e. að kjósendur gætu haft einhvern rétt. Ég tel fyllilega koma til greina að ákvæði um það væri í stjórnarskránni þó að þetta frv. geri eingöngu ráð fyrir að þriðjungur alþingismanna geti krafist þess hefði mér alveg fundist koma til greina að bæta þarna við: Að hluti kjósenda, t.d. að tíundi hluti mundi geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu eins og gert hefur verið ráð fyrir í mörgum tillögum sem komið hafa fram í þessum málum.
    Ég ætla ekki að gera að umtalsefni tilefni þess að þessi mál eru lögð fram sérstaklega. Síðar á þessum fundi munum við ræða tillögu um að EES-málið verði lagt fyrir þjóðina í almennri atkvæðagreiðslu og mun ég ekki ræða það sérstaklega nú en það hlýtur að vera mjög mikill styrkur fyrir þingmenn að vita hver afstaða umbjóðenda sinna er í einstökum málum og það mun einnig styrkja íslenskt stjórnarfar ef

ákvarðanir eru teknar í samræmi við þjóðarvilja. Þetta vil ég leggja sérstaka áherslu á í tengslum við frv. Og þó að ég leggi sérstaka áherslu á að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði verði borinn undir þjóðina þá tel ég mikilvægt að þetta ákvæði sé inni í íslenskri stjórnarskrá þannig að þjóðin geti verið spurð um álit í fleiri málum og það sé ekki eingöngu á fjögurra ára fresti sem hún fær að láta vilja sinn í ljós og framselja vald sitt til alþingismanna þar sem stórmál eins og t.d. samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði geta komið upp.
    Ég vísa því á bug að Íslendingar séu svo skyni skroppnir að þeir geti ekki tekið afstöðu í stórum málum. Það hefur komið fram hér úr þessum ræðustól m.a. af hálfu hæstv. utanrrh. að hann telji þjóðina vita svo lítið og gaf það nánast í skyn að það væri ómögulegt að fræða hana t.d. í máli eins og samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þessu vísa ég algerlega á bug og tel að Íslendingar geti vel aflað sér þekkingar bæði á þessu máli sem og á öðrum og vonast ég því til, virðulegi forseti, að þessi mál öll þrjú verði afgreidd frá Alþingi á þessu þingi.