Stjórnarskipunarlög

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 11:30:41 (863)

     Flm. (Ragnar Arnalds) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér fannst það ekki sterkur málflutningur hjá hæstv. forsrh. að dvelja lengi við þau aukaatriði hvort tillögur okkar stjórnarandstæðinga um breytingar á stjórnarskránni kæmu fram í einu eða tveimur frv. Auðvitað er það fyrirkomulagsatriði og þar sem þrír flokkar standa að þessum málatilbúnaði þá þótti við hæfi að um væri að ræða þrjú þingmál sem flokkarnir mæla fyrir í þrennu lagi. Mér fannst hins vegar öllu lakara að hæstv. forsrh. skuli í engu svara því sem ég benti á í ræðu minni að hann og hæstv. utanrrh. eru nokkuð einir um það að halda því fram að ekkert valdaafsal sé hér á ferðinni. Og málflutningur þeirra, hvað þetta varðar, gengur þvert á álitsgerðir hinna lögfróðustu manna í báðum þeim fylkingum sem um málið hafa fjallað. Hann vék ekki einu einasta orði að þessu atriði.
    Auðvitað er það alveg rétt hjá hæstv. forsrh. að með tillögu okkar um breytingu á stjórnarskránni sem flutt er á þskj. 30 er verið að opna fyrir framsal ríkisvalds til fjölþjóðlegrar stofnunar þannig að ekki þurfi að breyta stjórnarskránni heldur gerð krafa um aukinn meiri hluta í slíku tilviki. En ég vænti þess að hæstv. forsrh. geri sér grein fyrir því að það hlýtur þó að vera töluvert miklu traustara og betra en hitt að ætla sér að koma fram framsali ríkisvalds án þess að nokkuð af þessu komi til, án þess að nokkur aukinn meiri hluti sé fyrir hendi og án þess að málið sé borið undir þjóðardóm. Hann hlýtur að gera sér fulla grein fyrir því að sú aðferð sem við erum að leggja til og er í anda norsku stjórnarskrárinnar er að sjálfsögðu miklu traustari málsmeðferð en hitt að gera hvorugt, hvorki að hafa aukinn meiri hluta né að vísa málinu undir þjóðardóm.