Stjórnarskipunarlög

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 12:01:08 (873)

     Björn Bjarnason (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að gera lítið úr hlut hv. 3. þm. Norðurl. v. varðandi tillögur hans um breytingar á stjórnarskránni um þjóðaratkvæðagreiðslur á árunum 1963--1967 og viðurkenni að mér yfirsást að fara ofan í hans frumvörp varðandi það.
    En það er þó minna mál í þessu en það sem gerðist á vordögum 1991 þegar kosningarnar fóru fram. Ég held ég þurfi ekki að eyða löngum tíma í að deila við hv. þm. um það að afstaðan til EES var að sjálfsögðu eitt af höfuðmálum þeirrar kosningabaráttu og menn gátu þar alveg gert upp á milli flokkanna varðandi afstöðu þeirra til EES. Einn flokkurinn, Kvennalistinn, lýsti alveg greinilegri andstöðu sinni og Framsfl. gekk fram undir þeim merkjum að til að kjósa hann væru þeir að stuðla að framgangi EES og á móti aðild Íslands að Evrópubandalaginu. Ég held við þurfum ekki að eyða löngum tíma í að ræða þetta og mér finnst fráleitt að sitja undir því að þetta mál hafi ekki verið kynnt fyrir kosningarnar. Skýrslur á Alþingi lágu fyrir og blaðagreinar, umræður og ræður manna í þingkosningunum snerust að verulegu leyti um þetta og á lokastigi kom til harðra deilna milli utanrrh. og sjútvrh. í þáverandi stjórn um einstaka þætti í þeim samningaviðræðum öllum.