Stjórnarskipunarlög

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 13:00:47 (879)

     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Auðvitað var það eðlilegt, jafnvel þó að váboðar og hættumerki væru komin á sjónarsviðið og það væri komið í ljós að eitthvað af fyrirvörum þeim sem við settum fram í upphafi og voru grundvöllur þess því að við á annað borð gengumst undir þessar viðræður, að það yrði torvelt að efna þær. T.d. þetta með fríverslunina með fiskinn og dómstólaþáttinn sem reyndar hefur versnað mjög mikið frá þeirri forskrift sem lá fyrir í ársbyrjun 1991. Það var eðlilegt að reyna þetta til þrautar. Það lá alltaf fyrir að við yrðum að taka afstöðu til lokapakkans þegar hann lægi fyrir en gerðum okkur ekki fyrir fram ábyrga fyrir því að taka hvaða niðurstöður sem út úr þessum samningum kæmu. Það er óskynsamlegt að ganga að samningum með þeim fororðum að menn fallist á niðurstöðuna hver sem hún verður. En þegar nógu margir mínusar safnast saman fylla þeir á endanum mælinn. Það hefur gerst í þessu tilfelli.
    Hæstv. forsrh. er tiltölulega nýr í landsmálapólitíkinni en ef hann fer yfir stöðu málsins, eins og hún var þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar fór frá, eða þegar kosið var síðast sem er kannski eðlilegri viðmiðun, mun hann komast að raun um að þessir samningar munu hafa breyst í grundvallaratriðum og þá var ekki inni aðgangur að fiskimiðum fyrir tollaívilnanir.
    Varðandi þetta með óbreyttu stjórnmálamennina ætla ég að leyfa mér að vona að það sé torveldara að finna tvo þriðju óprúttna hér en einfaldan meiri hluta.