Stjórnarskipunarlög

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 13:07:52 (882)

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur að sjálfsögðu ekki fylgst með umræðum á Norðurl. e. sem eðlilegt er. Ég get hins vegar upplýst hann um það að í þeim umræðum var vitnað mjög ákveðið í ákveðna lagasetningu, einkum og sér í lagi í lög sem sett höfðu verið um heimildir útlendinga til þess að fjárfesta í íslensku atvinnulífi og þar var það sagt að í þeim lögum væru tryggð forréttindi Íslendinga

til þess að eignast hér jarðir umfram erlenda menn. Það kom einnig mjög skýrt fram í svargrein Steingríms Hermannssonar við athugasemdum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að hann taldi EES-samninginn vera í þeim farvegi að hann væri algerlega tryggur.
    Ég vil einnig geta þess að varaformaður Framsfl. virðist ekki hafa tekið mikinn þátt í því að smíða þetta slagorðasafn vegna þess að hann lýsti því yfir eftir kosningarnar að þessi barátta hefði verið á misskilningi byggð.