Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 13:17:33 (888)

     Flm. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að segja að mér finnst mjög miður að ræða þessa þáltill. að forsrh. fjarstöddum. Hann mun fara héðan innan tíu mínútna ef ég hef skilið forseta rétt. Því er erfitt að knýja fram einhver svör frá honum. Þá sakna ég þess líka að ekki er nokkur annar ráðherra í salnum. Ég held að það væri nú ekki goðgá þó þeir, a.m.k. fulltrúar stjórnarflokkanna í ríkisstjórninni, hlustuðu á þá umræðu sem hér á eftir að fara fram. ( Forseti: Forseti skal gera ráðstafanir til þess að kanna hvort hæstv. utanrrh. eða aðrir ráðherrar hæstv. ríkisstjórnar geti verið viðstaddir.) Ég þakka forseta fyrir.
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér á þskj. 32 till. til þál. um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Meðflutningsmenn mínir eru Steingrímur Hermannsson, Ólafur Ragnar Grímsson, Kristín Einarsdóttir, Páll Pétursson og Ragnar Arnalds.
    Tillagan hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu skuli borin undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar áður en Alþingi tekur afstöðu til fyrirliggjandi frumvarps til laga um Evrópska efnahagssvæðið.
    Alþingi kjósi sjö manna nefnd sem taki ákvörðun um tilhögun og framkvæmd atkvæðagreiðslunnar. Að öðru leyti fari atkvæðagreiðslan fram samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á.``
    Eins og margsinnis hefur verið bent á í umræðum undangenginna daga og vikna hér á Alþingi þá stendur Alþingi Íslendinga andspænis afdrifaríkum ákvörðunum sem varða framtíðarþóun íslensks samfélags og mun snerta daglegt líf okkar allra með einum eða öðrum hætti. Við Íslendingar stöndum því tvímælalaust á tímamótum og bæði meðal þings og þjóðar eru mjög skiptar skoðanir um það hvert skuli halda. Skoðanakannanir sýna að í öllum stjórnmálaflokkum á aðild að Evrópska efnahagssvæðinu sér bæði formælendur og andmælendur. Þó er hópur hinna óákveðnu hlutfallslega stærstur.
    Þó að fylgjendur og andstæðingar vegi misþungt í flokkunum þá hafa flokkslínur greinilega ekki afgerandi áhrif á afstöðu manna. Þá liggur fyrir að ekkert verður ráðið af síðustu alþingiskosningum um afstöðu þjóðarinnar til aðildarinnar að hinu Evrópska efnahagssvæði.
    Og ég vil bæta því við hér að mikil er trú hv. 3. þm. Reykv. Björns Bjarnasonar á mátt Framsfl. ef hann telur að sá flokkur hafi ráðið því um hvað kosningarnar fyrir ári snerust. Framsfl. setti þá á dagskrá ,,X-B ekki EB``. Sú spurning hlýtur að vakna, fyrst Björn Bjarnason heldur því fram að þetta hafi verið kosningamálið: Hvað kusu þeir sem fylgja inngöngu eða aðild að Efnahagsbandalaginu? Hvaða kost áttu þeir í þeim kosningum hafi þær snúist um það mál?
    Ég fullyrði hins vegar að það var ekki kosið um þau mál í síðustu kosningum enda lá endanleg afstaða stjórnmálaflokkanna til samningsins ekki fyrir á þeim tíma. Ríkisstjórnarflokkarnir geta því ekki með nokkru móti vitað hvort þeir hafi stuðning þjóðarinnar til inngöngu inn á hið Evrópska efnahagssvæði eða hvort þeir eru að teyma hana þangað nauðuga.
    Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eru Íslendingar að tengjast samrunaþróuninni í Evrópu með afgerandi hætti. Það er bæði óeðlilegt og ólýðræðislegt að taka slíka ákvörðun með einföldum meiri hluta á Alþingi, jafnvel mjög tæpum meiri hluta án þess að nokkuð sé vitað um vilja þjóðarinnar. Það hlýtur bæði að vera pólitískur og siðferðilegur styrkur fyrir þingmenn að vita hver afstaða umbjóðenda þeirra er í þessu máli og það styrkir íslenskt stjórnarfar ef ákvarðanir eru teknar í samræmi við þjóðarvilja.
    Með því að flytja tillögu um að bera aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu undir kjósendur í almennri atkvæðagreiðslu er í raun ekki verið að gera annað en að svara mjög ákveðnum kröfum sem um þetta eru gerðar meðal þjóðarinnar. Og vegna orða sem féllu í umræðu um síðasta mál hjá hv. 5. þm. Norðurl. e., Tómasi Inga Olrich, þá hlýtur maður að spyrja hvort þessar kröfur séu óréttmætar. Eru þær kröfur sem settar eru fram í fjölmennustu samtökum launafólks í landinu óréttmætar? Er þetta fólk að reyna að gera málið tortryggilegt? Þingmaðurinn taldi að ósk um þjóðaratkvæðagreiðslu þjónaði yfirleitt þeim tilgangi að gera mál tortryggilegt.
    ASÍ samþykkti kröfuna um þjóðaratkvæði á sambandsstjórnarfundi í nóvember á síðasta ári. Þar var þeim tilmælum beint til Alþingis að afgreiða ekki samninginn án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu. Svipaða samþykkt gerði stjórn BSRB nýverið. Hún ætti að vera þingmönnum kunn eftir að hafa verið kynnt rækilega í fjölmiðlum að undanförnu. Það er með öðrum orðum vilji fjölmennustu heildarsamtaka launafólks í landinu að þjóðin fái að láta í ljós vilja sinn í þessu máli og sömu skoðunar og ASÍ og BSRB eru líka Neytendasamtökin, BHMR, Kennarafélag Íslands og mörg önnur fjölmenn almannasamtök í landinu.
    Andstæðingar þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn hafa gjarnan fært fram þau rök að samningurinn sé of flókinn til að þjóðin geti tekið afstöðu til hans. Þá sýni skoðanakannanir að þjóðin viti allt of lítið um málið. Slík rök endurspegla mikið vanmat á þjóðinni sem er þó treyst til að kjósa í almennum kosningum. Í þjóðaratkvæðagreiðslu mundi þjóðin taka afstöðu til grundvallarþátta samningsins rétt eins og hún gerir í almennum kosningum. Þá tekur hún afstöðu til grundvallaratriða í stefnu einstakra flokka. Það mundi hún líka gera í þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópskt efnahagssvæði. En hún mundi ekki taka afstöðu til einstakra atriða sem í honum eru. Hún væri í raun að velja sér framtíðarþróun. Ef hún er ekki fær um það þá er hún ekki fær um að vera þjóð.
    Það vefst ekki fyrir Svisslendingum að greiða atkvæði um EES-samninginn þann 6. des. nk. Og það er varla með nokkurri sanngirni hægt að segja að þeir séu almennt upplýstari þjóð en Íslendingar. Þá má benda á að EES-samningurinn er síst fóknari en Maastricht-samningurinn sem þegar hefur verið borinn undir Dani og Íra og verður borinn undir Frakka nk. sunnudag. Þá má geta þess að háværar umræður eru uppi um það í Bretlandi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um Maastricht-samninginn. 65% bresku þjóðarinnar eru því fylgjandi og mjög ákveðnar kröfur hafa verið settar fram um það bæði af stjórnmálamönnum í Íhaldsflokknum, í Verkamannaflokknum og af leiðarahöfundum í The Times og The Sunday Times. Í öllum þeim löndum þar sem þjóðaratkvæðagreiðsla hefur farið fram, ekki síst í Danmörku og Frakklandi hefur þjóðaratkvæðagreiðsluumræðan ýtt mjög undir pólitíska þátttöku og pólitíska umræðu sem kemur m.a. fram í því að ýmsar útgáfur af Maastricht-samningnum eru nú á metsölulista í Frakklandi þrátt fyrir að stjórnvöld hafi dreift honum ókeypis í milljóna upplagi. Og á hverju kvöldi fyllast fundarsalir af fólki sem er komið í þeim tilgangi einum að ræða framtíðarþróun Frakklands og Evrópu.
    Íslenskt þjóðfélag og íslenskir stjórnmálamenn þyrftu sannarlega á slíkri vakningu að halda. Ég er sannfærð um að sú umræða sem yrði undanfari þjóðaratkvæðagreiðslu hér á landi mundi ein og sér skila gífurlegum árangri óháð niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Hún mundi skila upplýstari þjóð sem gerði sér betur grein fyrir og væri tilbúnari til að takast á við margvíslegan vanda sem við er að etja í íslensku samfélagi. Ef niðurstaða atkvæðagreiðslunnar yrði sú að þjóðin kysi aðild að Evrópsku efnahagssvæði væri hún mun betur í stakk búin til að takast á við hætturnar sem eru því samfara og nýta sér kostina.
    Eins og málum er háttað í dag er þjóðin engan veginn tilbúin að fara að vinna eftir þeim reglum sem gilda innan Evrópubandalagsins. Góð ögrun hvetur flesta menn til dáða og þjóðaratkvæðagreiðsla er þess háttar ögrun bæði fyrir einstaklinga og samtök.
    Þau rök hafa jafnframt heyrst gegn þjóðaratkvæðagreiðslu að engin hefð sé fyrir notkun hins beina lýðræðis á Íslandi enda hafi þjóðin kjörið sér fulltrúa til þess að ráða málum sínum. Þessi rök fannst mér ég heyra m.a. hjá hv. þm. Tómasi Inga Olrich áðan. Þeim sem þetta segja flökrar þó sjálfsagt ekkert við því á hátíðastundum að tala um forna lýðræðishefð Íslendinga. Sú hefð á rætur sínar á þjóðveldisöld þegar menn ástunduðu hið beina lýðræði og réðu málum sínum á opnum fundum heima í héraði. Þeirri hefð hefur ekki verið mikill sómi sýndur frá því að Íslendingar fóru að ráða málum sínum sjálfir. Þá tóku þeir að óttast lýðræðið og afstöðu þjóðarinnar. Á fyrri hluta þessarar aldar fór sex sinnum fram þjóðaratkvæðagreiðsla hér á landi en það hefur aldrei verið leitað til þjóðarinnar með einstakt mál eftir lýðveldisstofnun. Það er því löngu tímabært að hin forna lýðræðishefð verði endurvakin hér á landi.
    Virðulegi forseti. Það er kominn miður september og aðeins hálfur fjórði mánuður þangað til hið Evrópska efnahagssvæði á að verða að veruleika ef mál skipast eins og ráðamenn í Evrópu ætlast til. Tíminn er fugl sem flýgur hratt og því skiptir miklu að Alþingi taki afstöðu til þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir hið allra fyrsta. Tíminn er hins vegar ekki floginn frá okkur en ég veit að einhverjir þingmenn hér inni gæla eflaust við þá hugsun. Ég minni á að það var ekki fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Danmörku 2. júní sl. sem Mitterrand Frakklandsforseti gaf út yfirlýsingu um þjóðaratkvæði í Frakklandi. Frönsk milljónaþjóð ætlaði sér aðeins rúma þrjá mánuði til undirbúnings. 250 þús. manna íslensk þjóð hlýtur að komast af með heldur minni tíma til undirbúnings. Ef vel væri á málum haldið ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að hinu Evrópska efnahagssvæði færi fram í nóvember nk. Vilji er allt sem þarf. Vilji þingmanna til að leita til umbjóðenda sinna minnugir þeirrar 200 ára gömlu kenningar sem er grundvöllur vestræns lýðræðis, að allt þjóðfélagsvald er komið frá þjóðinni. Þjóðin á rétt á að velja um þá kosti sem nú liggja fyrir um skipan og þróun þjóðfélagsins.

    Að lokinni 1. umr. um málið, virðulegur forseti, legg ég til að þessari ályktun verði vísað til síðari umræðu og hv. allshn.