Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 13:43:52 (894)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson reyndi að styðja andstöðu sína við tillöguna um þjóðaratkvæðagreiðslu með því að draga inn í umræðuna nokkuð þekktan breskan prófessor í stjórnmálafræðum sem mun hafa verið einn af kennurum þingmannsins ef ég man rétt.
    Nú er það að vísu þannig að í breska stjórnkerfinu ríkir sú grundvallarregla að þingið er fullvalda en ekki þjóðin. Þingmaðurinn gleymdi að geta þess að grundvallarkenning breska stjórnskipulagsins er allt önnur en hér. Þetta er eitt af því sem menn læra í fyrstu tímunum í breskum stjórnmálum, á fyrsta ári í stjórnmálafræði í breskum háskólum. Munurinn á breska stjórnkerfinu og stjórnkerfum í Evrópu er á þann veg að í stjórnkerfum annars staðar í Evrópu er þjóðin fullvalda, en í Bretlandi er það þingið og heitir á ensku Parliament Sovereign. Út frá þessu hafa síðan menn leitt ýmsar kenningar um þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi, vegna þess að sé grundvallarregla stjórnskipunar fullveldi þingsins en ekki þjóðarinnar geti verið hæpið að vísa málum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna er auðvitað fullkomlega út í hött að rekja hér í umræðunni röksemdafærslu af þessu tagi nema þá til þess að vekja athygli á því að þrátt fyrir það að grundvallarregla bresku stjórnskipunarinnar er fullveldi þingsins, var talin nauðsyn á því að bera þetta tiltekna mál undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hv. þm. ætti líka að kynna sér það að um þessar mundir er öflugur hópur þingmanna breska íhaldsflokksins sem krefst þess að Maastricht-samkomulagið verður borið undir þjóðaratkvæði í Bretlandi.