Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 13:47:53 (896)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að þingmaðurinn viðurkennir að rök byggð á breska stjórnkerfinu eiga einfaldlega ekki við í þessum efnum og lærðar kennslubækur eftir breska prófessora í þeim efnum eiga þess vegna lítið erindi inn í þessa umræðu. Hins vegar er það líka rangt hjá hv. þingmanni að það hafi ekki færst í vöxt að þjóðaratkvæðagreiðslu sé beitt í evrópskum stjórnkerfum, það er þvert á móti þannig. Ef tímabilið á síðustu 30 árum er borið saman við fyrra tímabil á öldinni er það auðvitað eitt af einkennum í þróun evrópskra stjórnmála að á síðustu tveimur til þremur áratugum hafa þjóðaratkvæðagreiðslur gegnt afgerandi hlutverki. T.d. má nefna að það var þjóðaratkvæðagreiðsla sem leiddi til þess að ekki ómerkari maður en de Gaulle, forseti Frakklands, sagði af sér. Um hvað var sú þjóðaratkvæðagreiðsla? Hún var um stjórnsýsluskipan í Frakklandi og þegar úrslitin gengu gegn forsetanum þá sagði de Gaulle af sér. Ef úrslitin um Maastricht-samkomulagið í Frakklandi á sunnudaginn verða þau að meiri hluti þeirra segir nei þá er auðvitað líka alveg ljóst að á sama hátt og þjóðaratkvæðagreiðsla setti de Gaulle af, einhvern áhrifaríkasta stjórnmálamann í Evrópu á eftirstríðsárunum, þá verða tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, í Danmörku og Frakklandi, til þess að brjóta á bak aftur umfangsmesta milliríkjasamning sem Evrópuríkin hafa gert sín á milli um pólitíska breytingar í álfunni á síðustu áratugum. Það er auðvitað eitt af einkennum í stjórnmálaþróun Evrópu á síðustu áratugum að þjóðaratkvæðagreiðslur hafa farið að gegna afdrifaríku hlutverki í þróun mála í álfunni. Ég frábið mér það í nafni fræðigreinarinnar að fullyrðingar af því tagi sem þingmaðurinn var áðan með verði bornar fram í ræðustólnum og eitthvað tengdar kennurum eða fræðimönnum í stjórnmálafræði.