Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 13:50:13 (898)

     Björn Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Við erum hér komin að þriðja þættinum, lokaþættinum, í þessu verki stjórnarandstöðunnar í tilefni af EES-samningnum sem lýtur að því annars vegar að breyta stjórnarskránni og hins vegar að Alþingi álykti að bera fyrirliggjandi frv. til laga um Evrópska efnahagssvæðið undir þjóðaratkvæði. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt að slíkar umræður verði þegar um mikilvæga milliríkjasamninga Íslands er að ræða. Þegar rætt var um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu var tillaga um þjóðaratkvæði vegna þess samnings borin hér undir atkvæði og felld. Þegar umræður voru um aðild Íslands að EFTA, Fríverslunarsamtökum Evrópu, komu einnig fram hugmyndir um að efnt skyldi til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið vegna þess hve umfangsmikið það væri og mikilvægt fyrir þjóðina.
    Í þessum tveim tilvikum má segja að rökin fyrir kröfunni um þjóðaratkvæði hafi verið ólík og má m.a. benda hv. þm. á að lesa orðaskipti sem urðu í umræðunum um aðildina að EFTA hér í þingsalnum á milli þáv. þm. Magnúsar Kjartanssonar og Gylfa Þ. Gíslasonar en Gylfi greiddi atkvæði með því á sínum tíma að skjóta samningnum um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu undir þjóðaratkvæði og gerði síðan í síðustu ræðu sinni um EFTA-samninginn glögga grein fyrir því hvernig aðstæður voru og hvað réð þá að hans mati að því máli átti að skjóta undir þjóðaratkvæði en ekki EFTA-samningnum. Ég held að í öllum þessum tilvikum verði menn að líta á efnisþættina og skoða hvernig mál eru til komin og hvernig aðstæður eru á hverjum tíma. Ég get lýst þeirri skoðun minni að í engu af þessum tilvikum hef ég séð ástæðu til að skjóta málum sérstaklega undir atkvæði þjóðarinnar. Ég er almennt þeirrar skoðunar að það sé skylda okkar alþingismanna að taka ákvarðanir um þessi mál og á því byggi okkar stjórnskipun og okkar stjórnhefðir að það sé Alþingis að eiga síðasta orðið í málum sem þessum. Ég sé ekki neinn mun á þessum samningi og öðrum samningum sem við Íslendingar höfum gert við önnur ríki.
    Þegar Magnús Kjartansson rökstuddi hugmyndir sínar um að EFTA-samningurinn yrði borinn undir þjóðaratkvæði komst hann m.a. þannig að orði, með leyfi hæstv. forseta: ,,Í seinustu kosningum 1967 var ekkert um þetta mál rætt. Alþingismenn fengu ekkert umboð til þess að útkljá mál af þessu tagi og þá ætti það að vera siðferðileg skylda alþingismanna að bera slíkt mál undir þjóðaratkvæði. Annað tel ég vera ósæmilegt með öllu.``
    Ég tel að þarna hafi komið röksemd sem hann notaði á sínum tíma þegar samningurinn um EFTA lá hér fyrir og það megi til sanns vegar færa að í kosningunum 1967 hafi ekkert legið fyrir um það að Íslendingar mundu á árinu 1970 gerast aðilar að EFTA. Þessi röksemd verður ekki notuð um spurninguna um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Það lá alveg ljóst fyrir í kosningunum 1991 að Íslendingar stæðu frammi fyrir því að taka ákvörðun um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu og kosningabaráttan var háð um þetta mál eins og fram hefur komið í umræðum hér fyrr í dag þannig að þessi röksemd dugar ekki.
    Ég lít þannig á að hugmyndin um að leggja til að þetta mál sé borið undir þjóðaratkvæði sé liður í viðleitni til þess að gera málið tortryggilegt og tefja fyrir afgreiðslu þess með ákveðnum hætti og einnig hjá sumum til þess að komast sjálfir hjá því að taka afstöðu til málsins, segja af eða á hvort þeir styðji aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu eða ekki. Þá er auðvelt að komast undan því að taka afstöðu til málsins með því að segja sem svo: Við vísum þessu til þjóðaratkvæðis. Við vísum þessu til atkvæðis meðal þjóðarinnar og það er okkar afstaða að það skuli gert en við leggjum í sjálfu sér ekki efnislegt mat á innihald þessa máls. Ég held að það sé skylda okkar þingmanna að taka efnislega afstöðu í þessu máli, greiða um það atkvæði sem byggist á sannfæringu okkar og byggist á þeim forsendum sem lágu fyrir m.a. í kosningunum vorið 1991. Þær forsendur voru alveg skýrar og kjósendur þurftu ekki að vera í neinum vafa þá um hvert stefndi í þessu máli og hver vilji einstakra stjórnmálaflokka var.
    Mér finnst að þessi tilvitnun sem ég las í orð Magnúsar Kjartanssonar sé eitt dæmi um það hvað forsendur geta verið mismunandi og nú séu forsendur þannig að það sé ótvírætt, hvernig sem á málið er litið, hvaða rökum sem menn beita þegar þeir tala um nauðsyn þjóðaratkvæðagreiðslu, að nú hafi þingmenn ótvírætt umboð kjósenda sinna til þess að taka ávörðun og afstöðu í þessu máli og þess vegna sé okkur ekkert að vanbúnaði að gera það og það sé óþarfi að skjóta því til annarra. Við eigum sjálfir að ákveða það eins og okkur ber skylda til samkvæmt stjórnarskránni.
    Ég held að það geti ekki verið alvara á bak við þau orð í greinargerðinni að það sé óeðlilegt og ólýðræðislegt að taka ákvörðun um þennan samning með einföldum meiri hluta á Alþingi. Hvernig getur það verið ólýðræðislegt að þessi ákvörðu sé tekin eða óeðlilegt miðað við þá stjórnarhætti sem ríkja hér í landinu að við alþingismenn tökum ákvörðun um þetta eins og við þurfum að taka ákvörðun um svo mörg önnur mál og höfum gert? Það er í fullu samræmi við okkar stjórnarhætti og byggist á þeim og okkar stjórnarskrá. Það er við hana sem við eigum að miða í þessu og við eigum að miða við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Við eigum ekki að miða við atkvæðagreiðslur í öðrum löndum um önnur mál eða þróun í öðrum löndum um það hvernig þessi mál hafa þróast þar, þar sem stjórnarhefðir eru allt aðrar. Hér

hafa menn minnst á Maastricht-samkomulagið sem er um allt annað efni en það sem við erum að ræða og byggist á allt öðrum forsendum. Í Danmörku hafa menn ákvæði í stjórnarskránni um það að skylda sé að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Í Frakklandi hefur forsetinn það vald að hann getur lagt mál undir atkvæði þjóðarinnar og hann ákvað að gera það eftir að Danir höfðu hafnað Maastricht-samkomulaginu. Þá var ákveðið að um það færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla í Frakklandi og hér hefur verið minnst á þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi um aðild Breta að Evrópubandalaginu. Sú saga öll er mjög lærdómsrík fyrir þá flokka á Alþingi sem hafa verið að skipta um skoðun í afstöðunni til Evrópska efnahagssvæðisins eftir því hvort þeir hafa verið í stjórn eða stjórnarandstöðu.
    Ef menn kynna sér söguna um samninga Breta um aðildina að Evrópubandalaginu fyrir um 20 árum sjá þeir hvernig Verkamannaflokkurinn sveiflaðist eftir því hvort hann var í stjórn eða stjórnarandstöðu. Þá geta menn kynnst að mörgu leyti þeim vandræðagangi sem einkennir ýmsa flokka sem nú eru í stjórnarandstöðu hér á landi. Ég held því, virðulegi forseti, að með hliðsjón af okkar stjórnskipun, með hliðsjón af því sem gert hefur hér á Alþingi þegar um mikilvæga alþjóðasamninga er að ræða sé það í fullu samræmi við okkar stjórnskipun og hefðir að við alþingismenn höfum síðasta orðið um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Ég tel því að þessi tillaga eigi ekki rétt á sér.