Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 14:24:34 (914)


     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Það virðist þurfa sprenglærða háskólamenn í stjórnmálavísindum til þess að tala frammi fyrir alþjóð með slíkum endemum eins og hér var gert. Og hvort sem ég hef tekið mikinn eða oft þátt í umræðunni kemur þessu máli ekkert við, hv. 8. þm. Reykn. Ég hef ekki farið í háskóla til þess að taka hér þátt í umræðum og ekki farið í háskóla til að læra að tala pólitískt svo mjög sem hv. þm. gerði. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir hvern og einn sem vill taka mark á hv. 8. þm. Reykn. að heyra það enn einu sinni sem hann setur hér á blað og bera saman við þessa ,,snilldarræðu``, innan gæsalappa, sem hann flutti hér áðan og taka vel eftir hvernig mál eru afbökuð. ( Forseti: Forseti vill spyrja hv. þm. hverjar sakir hann er að bera af sér?) Ég er að bera þær sakir af mér að ég kunni ekki að lesa. Það eru mjög alvarlegar sakir og sjálfur kennarinn í háskólanum hefur borið þær á mig. Það er með ólíkindum. Ég held að það sé rétt fyrir þingheim að þetta sé lesið upp aftur: ,,Að lokum þykir ráðuneytinu rétt að benda á að í kjölfar fyrirhugaðs samnings . . .  `` (Gripið fram í.) --- Ég vil biðja hv. 2. þm. Vestf., Ólaf Þ. Þórðarson,

fyrrv. kennara, ef ég fer rétt með, með meiru, að taka nú eftir og sitja stilltur á bekknum sínum og hlusta. ( ÓÞÞ: Ég var að fylgjast með.) Þá er best að loka talandanum á meðan og hlusta. Ætli það veiti nokkuð af. --- ,,Að lokum þykir ráðuneytinu rétt að benda á að í kjölfar fyrirhugaðs samnings um Evrópskt efnahagssvæði, svo og aðlögun að þeim skattkerfisbreytingum . . .  ``