Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 15:05:34 (921)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi. Forseti. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef haft tækifæri til þess að svara þeim makalausa málflutningi sem bæði hv. 2. þm. Vestf. og eins hv. 8. þm. Reykn. hafa haft uppi varðandi örstutt blaðaviðtal, vel að merkja blaðaviðtal, sem var haft við mig í Morgunblaðinu 16. apríl 1991. Í því viðtali var ég að svara spurningu blaðamanns um afstöðu mína til tvíhliða viðræðna og við þau orð stend ég vitaskuld. Það sem þar kemur auðvitað fram er ekki annað en það að ég var að lýsa sjálfan mig, sem var þá frambjóðandi Sjálfstfl. á Vestfjörðum, sammála þeirri skoðun og þeim sjónarmiðum sem Sjálfstfl. hafði sett fram, bæði hér á Alþingi og með landsfundarályktunum o.fl. um það að við vildum, vegna þess að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði hafði þá ekki verið leiddur fullkomlega til lykta, leggja áherslu á tvíhliða viðræður. En --- og það hef ég margoft sagt og sagði a.m.k. í kosningabaráttunni --- þá var auðvitað aldrei neinn efi í huga nokkurs manns að það væri sjónarmið Sjálfstfl. að það væri Íslendingum mjög mikilvægt og nauðsynlegt að tengjast efnahagssamvinnu ríkja Evrópu á grundvelli hins Evrópska efnahagssvæðis eins og sá samningur hefur litið dagsins ljós. Ég held því að þessi útúrsnúningur á umræðu um annars mjög merkilegt mál, sem er hugmyndin um þjóðaratkvæði um þennan stóra samning, sé hvorki til þess fallin að lýsa umræðuna né varpa neinu ljósi á þessa umræðu um þjóðaratkvæði.