Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 15:10:15 (924)


     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Það ku vera nauðsyn að tala á lægri nótunum til að fipa ekki hugsun hv. 3. þm. Vestv. Það verður nú reynt. Hv. 3. þm. Vestf. hlýtur að minnast þess að borið var upp vantraust á seinustu ríkisstjórn vegna þess að hún fór út í þessa samninga. Hv. 3. þm. Vestf. hlýtur að minnast þess hvernig hv. 1. þm. Suðurl. greiddi atkvæði þá. Hv. 3. þm. Vestf. hlýtur að gera sér grein fyrir því að þessu hefur ávallt verið stillt upp sem andstæðum, þ.e. menn hafa haft misjafnar skoðanir á því hversu langt bæri að ganga. Ég harma það ef svo er komið fyrir ungum mönnum að þeir telji sínum málflutningi betur komið með því að ætla að verja lygina í þeirri trú að menn átti sig ekki á því hvað er sannleikur en segja svo hér rauðir í framan: Sannleikurinn er sá.
    Það er ömurlegt að hlusta á þetta. Ég treysti því að hv. 3. þm. Vestf. eignist einhvern tímann það þrek að hann verði maður til þess að viðurkenna það að stundum skiptir hann um skoðun, það er mannlegt, en telji ekki að hann sé betur kominn með því að halda því fram að hann hafi ekki skipt um skoðun þótt öllum sé ljóst að hann hefur hringsnúist í málinu.