Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 15:37:18 (932)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég staðfesti það að hv. þm. las rétt upp kann kafla viðtalsins sem hann kaus auðvitað að hafa með. Aðalatriðið er þetta og ekkert af því sem hann hefur sagt hefur breytt því að þó að ég hafi svarað spurningu blaðamanns Morgunblaðsins, sem var að inna mig eftir afstöðu minni til hugmyndarinnar um tvíhliða samning, hefur hann auðvitað ekki getað sýnt fram á, frekar en von var á, að ég hafi verið andvígur hugmyndinni eða samningaviðræðunum um hið Evrópska efnahagssvæði því að það var ég ekki og ég var þeim fyllilega fylgjandi sem ég er enn í dag.
    Varðandi hitt sem hann las líka upp úr þessu viðtali þar sem ég harma að ríkisstjórnin skuli hafa kosið að ganga til EB-viðræðna án þess að leita umboðs Alþingis þá er hv. þm. auðvitað kunnugt um það þó að hann hafi ekki verið þingmaður á þeim tíma, verið varaþingmaður eins og ég, þá veit hann það auðvitað fyllilega að á þeim tíma fóru fram mjög harðar umræður um einmitt þennan þátt málsins og á þeim tíma gagnrýndi Sjálfstfl. þetta mál mjög harkalega og þessi kafli blaðaviðtalsins er endurómur á því.
    Ég ítreka það síðan að það var og er sjónarmið Sjálfstfl. að standa að samningunum um hið Evrópska efnahagssvæði og Sjálfstfl. stóð að því eins og margoft hefur komið fram á ýmsum vettvangi.