Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 15:40:30 (935)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er á ýmsan hátt fróðlegt að velta fyrir sér svona skoðanakönnunum. Mér finnst það oft skemmtilegt og fróðlegt. Það er líka fróðlegt fyrir þingmenn Sjálfstfl. að velta því fyrir sér hvers vegna minni hluti kjósenda flokksins styður EES-samninginn. Það er mjög fróðlegt fyrir þingmenn

Sjálfstfl. að velta því fyrir sér.
    En ég get svarað hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni því að ég er ekki heldur sammála þessari tilgátu hans um að för mín á flokksþing demókrataflokksins í Bandaríkjunum sé veigamesti skýringarþátturinn á breyttu hlutfalli Alþb. í fylgi. Ég var nú ekki einn á þessu flokksþingi. Hæstv. utanrrh. var þar líka, að vísu fór hann nú á brott af flokksþinginu áður en því lauk ( Gripið fram í: Það fór illa fyrir hans flokki.) og má vera að það sé eitthvað samhengi þar í. Hins vegar var þetta mjög fróðlegt flokksþing og auðvitað mjög gagnlegt fyrir hæstv. utanrrh. og hv. þm. Sjálfstfl. að fylgjast með þeirri gagnrýni sem er á efnahagsstefnu Bush og Reagans í Bandaríkjunum og velta því fyrir sér hvers vegna Bush, sem líka lofaði að hækka ekki skatta, er nú orðinn svo hræddur að hann þorir ekki í umræður við Clinton um efnahagsmálin. Og það mætti nú kannski vera víti til varnaðar fyrir Sjálfstfl. á Íslandi að vera ekki að elta úreltar kenningar Reagans, Thatcher og Bush og vera ekki að pína íslenskt efnahagskerfi inn í spennitreyju þeirra kenninga. Þeir ættu svona að hugleiða fréttirnar frá Bretlandi síðasta sólarhring hvernig komið er fyrir Major þrátt fyrir að hann hlustaði ekki á varnaðarorð Thatcher varðandi Evrópska myntbandalagið. Hann hefði betur mátt hlusta það á þau.
    Það má auðvitað draga ýmsa lærdóma af þessu flokksþingi demókrata, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, sem ég mun tileinka mér og aðrir vonandi á næstunni þó að ég telji að það sé ekki skýringarþáttur í því tilviki sem hv. þm. spurði um.