Kjaradómur

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 16:36:54 (944)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér engar athugasemdir við ræðu hv. síðasta ræðumanns að gera. Hann vitnaði til minna orða og þess sem ég sagði við afgreiðslu frv. til stjórnskipunarlaga og nefndi þá skoðun mína að ég teldi að það væri verið að þrengja rétt bráðabirgðalagagjafans til að gefa út bráðabirgðalög með 28. gr. eins og henni var breytt. Ég sá ástæðu til þess að taka þetta fram í þingræðu vegna þess að orðalagi greinarinnar um rétt ríkisstjórnarinnar til að gefa útbráðabirgðalög er í raun og veru engu breytt, m.a. fyrir tilstuðlan hv. síðasta ræðumanns var orðalagi varðandi hina brýnu nauðsyn í engu breytt. Ég tel hins vegar að það hafi komið fram í störfum þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að hún hafi í störfum sínum sýnt að hún lítur þannig á að hún hafi þröngt svigrúm í þessu efni og hefur ekki gefið út bráðabirgðalög nema einu sinni. Þetta eru einu bráðabirgðalögin sem ríkisstjórnin hefur gefið út og að mínu mati bar brýna nauðsyn til þess að binda enda á það óvissuástand sem ríkti eftir að kjaradómur féll. Ég fyrir mitt leyti hef velt þessu mjög ítarlega fyrir mér og mín skoðun er sú að það hafi verið réttlætanlegt á grundvelli þessa ákvæðis í stjórnarskránni og réttlætanlegt á grundvelli þess sem sagt var í þinginu að grípa til þessa úrræðis í þessu tilviki.
    Ég vildi aðeins láta mína skoðun koma hér fram af því að menn hafa vitnað til þessara orða minna, bæði hér nú og einnig áður og spurt hver afstaða mín væri.