Kjaradómur

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 16:42:34 (947)

     Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil aðeins leggja eina spurningu fyrir hv. þm. Björn Bjarnason. (Gripið fram í.) Hann getur svarað því síðar við umræðuna. Af hverju taldi þingmaðurinn ekki fært að kalla Alþingi saman á stuttan fund um þetta mál? Af hverju taldi þingmaðurinn ekki rétt að láta á það reyna? Það var fullt svigrúm til þess og ekkert því til fyrirstöðu. Ég vænti þess að hv. þm. sé mér sammála um að það hlýtur að vera æskilegra varðandi alla lagasetningu að lög séu sett á Alþingi og bráðabirgðalagavaldið ekki notað nema í algerum undantekningartilvikum. Í þessu tilviki var svigrúm til að kalla Alþingi saman og því bar að gera það. Hv. þm. hefur ekki minnst á það einu orði í sínu máli af hverju það var ekki gert og af hverju hann gat ekki stutt að það væri gert. Ef ég fengi einhverjar fullnægjandi skýringar á því hvers vegna það var ekki hægt væri ég tilbúinn til þess að endurskoða afstöðu mína. En það hefur ekkert komið fram um það hvorki hjá hv. þm. eða hæstv. ríkisstjórn.