Kjaradómur

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 17:26:24 (952)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Það er nú ekki hægt að kalla þetta andsvar, herra forseti. Þetta var svo ömurlegur útúrsnúningur

og vitnar um svo vonda samvisku hv. formanns efh.- og viðskn. að það tekur engu tali. Ég ræddi þetta mál algerlega aðskilið og ég hélt að hv. þm. virti það að menn gætu greint þannig á milli óskyldra hluta sem eru annars vegar hinar efnislegu aðstæður í þessu máli og hins vegar það hvort þörf var á því eða réttlætanlegt var að beita bráðabirgðalagavaldinu með þeim hætti sem þarna var gert. Ég tel að sýnt hafi verið fram á það með mjög sterkum rökum, sem hv. formaður efh.- og viðskn. reyndi ekki að hrekja, hvorki hér í þessu andsvari né framsöguræðu sinni og þaðan af síður í þessu snifsi sem á að heita nefndarálit. Það væri ástæða til og ég hef sennilega tíma til þess að lesa nefndarálitið svona rétt til sönnunar máli mínu. Það er svona:
    ,,Nefndin hefur fjallað um málið. Á hennar fund komu Indriði H. Þorláksson, skristofustjóri í fjmrn., Ólafur Davíðsson, ráðuneytisstjóri forsrn., Valtýr Sigurðsson, formaður Dómarafélags Íslands, Ólafur Tómasson, póst- og símamálastjóri, Sveinbjörn Björnsson, rektor Háskóla Íslands, Edda Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Háskóla Íslands, Guðlaugur Þorvaldsson ríkissáttasemjari, Geir Waage, formaður Prestafélags Íslands, Kristinn Ágúst Friðfinnsson, varaformaður Prestafélags Íslands, Jónatan Sveinsson hrl., Páll Halldórsson, Birgir Björn Sigurjónsson og Eggert Lárusson frá BHMR, Ásmundur Stefánsson og Bryndís Hlöðversdóttir frá ASÍ, Ögmundur Jónasson og Svanhildur Halldórsdóttir frá BSRB, Árni Benediktsson VMS og þórarinn V. Þórarinsson og Hannes G. Sigurðsson frá VSÍ.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frv. Fjarstaddur afgreiðslu var Steingrímur J. Sigfússon. Björn Bjarnason sat fundinn í stað Sólveigar Pétursdóttur.
    Alþingi, 15. september 1992.``
    Þetta er merkilegur rökstuðningur. Það er von að hv. formaður efh.- og viðskn. sé hreykinn þegar hann kemur hér upp og hefur svo ekki merkilegra innlegg til málsins fram að færa en svarið sitt í andsvari áðan. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að þetta dregur svo nöturlega athyglina að fátækt stjórnarliðsins í þessu máli. Það það þarf ekki fleiri orð um það. Ég þakka hv. þm. kærlega fyrir þetta andsvar.