Kjaradómur

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 17:43:44 (954)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil segja fáein orð vegna þess að ég tel að það þurfi dálítið meiri rökstuðning en kemur fram í minnihlutaálitunum sem hér hafa verið kynnt. Mér finnst að menn hafi verið of uppteknir af aðdraganda málsins í umræðunni sem hefur farið hér fram og ég tel að við verðum að taka efnislega afstöðu til málsins út frá því sem stendur í lagatextanum sem hér liggur fyrir en ekki vegna þess aðdraganda sem málið hefur. Það getur verið og verður örugglega verkefni manna um lengri tíma að takast á um það hvort það hafi verið rétt eða rangt að staðið en núna liggur það verkefni fyrir Alþingi að ákveða hvort það eigi að staðfesta þann lagatexta sem hér liggur fyrir.
    Ég tek undir þá gagnrýni sem kemur fram í nál. bæði 1. og 2. minni hluta. Ég tel reyndar að það sé óhrekjanlegt að það var tími til að kalla Alþingi saman. Nægir auðvitað að benda á að Kjaradómi var gefinn frestur til 31. júlí til að kveða upp nýjan úrskurð. Því var auðvitað nógur tími til þess að Alþingi kæmi saman og það var það sem hefði átt að gera, þ.e. að kalla Alþingi saman til þess að fást við þetta mál. Hver niðurstaðan hefði orðið hér í þinginu er auðvitað umræðuefni sem að sjálfsagt tæki aldrei enda ef menn ætluðu að ræða það til hlítar.
    Ég ætla ekki að endurtaka mikið af því sem ég sagði við 1. umr. málsins en samt þó það að ég tel að menn hafi raunverulega verið búnir að missa af því að geta tekið með eðlilegum hætti á þessu máli þegar Kjaradómur hafði kveðið upp fyrri úrskurð sinn, því miður. Ég tel að þar hafi menn sofið á verðinum og þar hefðu átt að vera möguleikar á því að grípa í taumana áður en Kjaradómur kvað upp úrskurð sinn.
    En aðalerindi mitt í ræðustólinn er það að lýsa því yfir að ég mun sitja hjá við afgreiðslu málsins. Ég er sammála því sem stendur í textanum, ég tel að það sé til bóta og eðlilegt að Kjaradómur taki mið af því sem gerist á almennum launamarkaði þegar hann kveður upp úrskurði sína og þess vegna gæti ég greitt atkvæði með málinu. En vegna þess að það er yfirlýstur tilgangur lagasetningarinnar að láta lögin verka aftur í tímann og ef ég má, með leyfi forseta, vitna hér í þann texta sem kom frá forseta Íslands þegar þessi lög voru sett, þá segir m.a. í þeim texta:
    ,,Nauðsynlegt sé að breyta þeim laga- og efnisreglum, sem niðurstöður Kjaradóms hvíla á, þannig að þær taki mið af stöðu og afkomuhorfum þjóðarbúsins og almennum launabreytingum í kjarasamningum annarra launþega í landinu.`` Síðar segir í þessum texta: ,,Afar brýnt sé að verðveita þennan stöðugleika og þá samstöðu, sem náðst hafi til að mæta þeim áföllum, sem þjóðarbúið hafi orðið fyrir. Niðurstöður Kjaradóms frá 26. júní sl. tefli þessum árangri í mikla tvísýnu. Staðfesting þessa komi fram m.a. í yfirlýsingum aðila vinnumarkaðarins.
    Fyrir því eru hér með sett bráðabirgðalög samkvæmt 28. gr. stjórnarskrárinnar.``
    Það sem ég á við er nákvæmlega þetta: Það er verið að gefa hér yfirlýsingu um það að þessi lög þýði að þau eigi að verka aftur í tímann. Það get ég ekki skrifað upp á. Ég verð því miður að segja það að þarna var tíminn runninn út. Menn höfðu ekki lengur tök á málinu. Búið var að kveða upp dóminn á grundvelli laga sem fyrir voru og nú var ekkert annað eftir en að taka afleiðingunum. Ég hefði gjarnan viljað að það hefði ekki verið þannig og ég hefði svo gjarnan viljað samþykkja svona lagaákvæði. En auðvitað verða menn að vera sjálfum sér samkvæmir. Ég trúi því ekki að menn hefðu rætt þetta mál með sama hætti og hér hefur verið gert ef menn hefðu verið að tala um að breyta einhverjum ákvæðum sem snerta t.d. eitthvert saknæmt athæfi, t.d. ef breyta hefði átt lögum vegna þess að menn hefðu orðið óánægðir með einhvern dóm sem hefði verið kveðinn upp yfir manni sem hefði brotið eitthvað af sér. Hefðu menn þá ekki munað eftir því að lög eiga ekki að gilda aftur í tímann? Ég tel að full ástæða sé til þess að segja um þá umræðu sem hér hefur farið fram að hún hefur snúist um annað en hún á að snúast um. Hún á auðvitað að snúast um þennan lagatexta sem liggur hér fyrir en ekki þennan aðdraganda málsins. Það er auðvitað ágætt að tala um það upp á framtíðina og hvað menn vilji gera. En að byggja afstöðu sína á aðdraganda málsins finnst mér ekki vera rétt.