Kjaradómur

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 18:21:57 (959)

     Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég er mjög undrandi á því að hæstv. fjmrh. skuli halda því fram að bráðabirgðalagarétturinn hafi í engu breyst. Ég vil í því sambandi vitna til örstuttrar athugasemdar hæstv. núv. menntmrh. Ólafs G. Einarssonar, þar sem hann sagði: ,,Í fyrsta lagi að þingið mun starfa allt árið og í einni málstofu sem er auðvitað mjög veigamikil breyting. Ég tel líka að sú breyting út af fyrir sig hafi það í för með sér að útgáfa bráðabirgðalaga ætti því sem næst að vera úr sögunni, ef ekki alveg.`` Það er alveg ljóst, hæstv. fjmrh., þegar þessi ræða er lesin, að það er verið að þrengja bráðabirgðalagavaldið. Og það er hættulegt fyrir ráðherra í ríkisstjórn að treysta í jafnmiklum mæli á eigin lögfræðikunnáttu og virðist vera með núv. ráðherra í ríkisstjórninni. Ég spyr hæstv. ráðherra: Var einhver lögfræðingur utan ríkisstjórnarinnar sem mælti með þessari leið? Það væri fróðlegt að vita það. Eða telja hæstv. ráðherrar að þeir séu svo góðir í lögfræði að þeir þurfi ekki að hlíta neinum ráðum? Jafnvel þótt þeir beri nöfn kónga og páfa þá má nú fyrr vera sjálfsálitið. Og í öðru lagi heyrðist mér hæstv. fjmrh. koma inn á það að ástæðan fyrir því að þeir kölluðu Alþingi ekki saman hafi verið hræðsla við að menn töluðu svo mikið hér á Alþingi. Var það virkilega ástæðan, hæstv. ráðherra? Og hvers vegna var þetta álit? Af hverju reyndu menn þá ekki að kanna það hjá stjórnarandstöðunni hver vilji hennar væri til þess að þing kæmi saman og semja um það? Auðvitað var hægt að semja um það eins og hvað annað. En það virðist vera svo með hæstv. ríkisstjórn að þeir geri sér einhverjar hugmyndir fyrir fram um hlutina og þar með er það ekkert frekar skoðað. Var það virkilega ástæðan, hæstv. fjmrh.?