Kjaradómur

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 18:26:22 (961)

     Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Hæstv. fjmrh. benti ekki á einn einasta lögfræðing utan ríkisstjórnarinnar sem hefði mælt með þessari aðferð. Ég hlýt þá að skilja það svo að hann fyrirfinnist ekki. Og ég tel í reynd að hæstv. fjmrh. hafi staðfest þann grun minn að ástæðan fyrir því að þing var ekki kallað saman hafi verið sú að menn hafi óttast að ekki væri hægt að semja við stjórnarandstöðuna og ekki einu sinni látið á það reyna. Þar með hefur hæstv. fjmrh. í reynd staðfest að ástæðan fyrir því að til bráðabirgðalagavaldsins var gripið hafi verið hræðsla ríkisstjórnarinnar við það að það væri ekki hægt að semja við stjórnarandstöðuna án þess að láta á það reyna. Það er gott fyrir þá dómstóla, sem eiga að fjalla um málið, að hafa þessar upplýsingar hæstv. fjmrh. því ég tel að það hafi verið það sem hann hefur verið að segja hér.