Kjaradómur

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 18:31:16 (964)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef áður skýrt hvers vegna við kusum að setja þetta ákvæði inn í bráðabirgðalögin. Það var gert til þess að opna smugu fyrir Kjaradóm til að leiðrétta sérstaklega laun ákveðinna hópa eða einstaklinga og ég hef meira að segja sagt það tvívegis í umræðunum hér við hverja var sérstaklega átt. Það voru annars vegar dómarar og hins vegar prestar. Það kemur hvergi fram að sjálfsögðu af því að engin greinargerð önnur en sú almenna fylgir bráðabirgðalögunum. Vegna fyrirspurnar hv. þm. um það hvern eigi að spyrja, þá spyr Kjaradómur auðvitað sig sjálfan. Hann á að meta þetta og hann ræður hvern hann spyr. Það er algerlega mat Kjaradóms sjálfs sem liggur þarna til grundvallar alveg eins og í lögunum eftir að þeim var breytt með bráðabirgðalögunum og fyrr, áður en sú breyting varð.