Kjaradómur

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 18:34:29 (968)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil benda hæstv. fjmrh. á það að þegar hann talaði um að ekki hefði verið hægt að semja um að þing kæmi saman í skamman tíma vegna þess að slíkir samningar hefðu ekki haldið gagnvart einstökum þingmönnum að í 56. gr. --- eins og hæstv. ráðherra viðurkenndi reyndar eftir að hafa lesið hana betur --- eru allar heimildir fyrir forseta og fyrir einfaldan meiri hluta þingsins til þess það að vera búnir að semja áður og ég tel að þá séu allar forsendur til þess að þeirri grein sé beitt. Líklegast gætum við ekki fundið betra dæmi þar sem einmitt væri ástæða til þess og ekkert hægt út á það að setja að 56. gr. væri beitt á þennan hátt. Sá röksemdaflutningur hæstv. ráðherra að ekki hefði verið hægt að kalla saman þing af ótta við málþóf er algerlega fallinn um sjálfan sig.
    Hæstv. ráðherra taldi að ég væri honum sammála um að hægt væri að breyta þingsköpum til þess að bregðast við aðstæðum að þessu leyti. Það er rétt hjá honum svo langt sem það nær en ég tók skýrt fram að þá teldi ég að það yrði að vera liður í heildarendurskipulagningu á starfsháttum þingsins. Þá kem ég að þingræðisreglunni. Ég held að við ráðherrann skiljum hana alveg eins og þess vegna sé engin þörf á því fyrir ríkisstjórn að hafa þvílíkt ægivald á þingvaldinu eins og núv. hæstv. ríkisstjórn vill hafa.
    Þegar ég greip fram í --- sem maður á náttúrlega ekki að gera í þingsölum --- og sagði að hér væri kominn konungur til valda aftur þá var hæstv. ráðherra einum of fljótur að taka það til sín því að ég átti að sjálfsögðu við Bubba kóng.