Kjaradómur

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 18:39:55 (972)

     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ekki um það deilt að rétturinn til að setja bráðabirgðalög er til staðar og hann er hjá ríkisstjórninni. Spurningin er: Hvenær er nauðsynlegt að grípa til þessa neyðarúrræðis? Hvenær á að kalla Alþingi saman. Það er það sem við höfum deilt um hér að ríkisstjórnin hafi notað þennan rétt þegar létt verk og löðurmannlegt var að kalla Alþingi saman.
    Hæstv. fjmrh. vitnaði í nefndarálit mitt og ég vil leiðrétta það hér, ég las það þegar ég fór yfir þetta nefndarálit að eitt orð hefur fallið niður. Hér á að standa á bls. 2: ,,Það er Alþingis að meta endanlega hvort niðurstaða Kjaradóms hafi falið í sér svo mikla hættu eða röskun á þjóðarhag að brýna nauðsyn hafi borið til að koma í veg fyrir áhrif hennar með setningu bráðabirgðalaga.`` Endanlega er það Alþingi sem fellir þennan dóm, um það deilum við vonandi ekki, hæstv. fjmrh. og ég.
    Varðandi síðara atriðið sem hann gerði athugasemd við þá er því ekki að neita að bráðabirgðalög voru sett á Kjaradóm sem leiddu til þess að Kjaradómur leit þannig á að verk hans væri að kveða upp úr um 1,7% launahækkun. Það var það sem hann gerði og þar með kastaði hann málinu í ríkisstjórnina sem stendur frammi fyrir því að leysa vanda starfsmanna sinna og lái hver sem vill Kjaradómi. Hvað áttu þeir að gera eftir þá útreið sem þeir höfðu fengið hjá ríkisstjórninni? Niðurstaðan varð sú að prestar voru þar með sviptir langþráðum leiðréttinum kjara sinna í annað sinn á nokkrum árum.