Skipan opinberra framkvæmda og opinber innkaup

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 18:51:15 (975)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt framsöguræðu fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, og lögum nr. 52/1987, um opinber innkaup, með síðari breytingum.
    Frv. þetta er flutt í tilefni af samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Í XVI. viðauka þess samnings, samanber 65. gr. hans, er fjallað um opinber innkaup innan Evrópska efnahagssvæðisins. Markmiðið með samkomulaginu er það m.a. að tryggja aukna samkeppni á Evrópumarkaði á sviði opinberra innkaupa. Samkvæmt viðauka XVI er gert ráð fyrir því að tilskipanir og ýmsar aðrar reglur EB á sviði opinberra innkaupa gildi á hinu Evrópska efnahagssvæði. Um opinberar framkvæmdir er fjallað í lögum nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, og í lögum nr. 52/1987 er fjallað um opinber innkaup.
    Lögin taka til framkvæmda og innkaupa á vegum ríkisins og stofnana þess. Fjmrn. fer með yfirstjórn opinberra framkvæmda og innkaupa. Meðferð máls varðandi opinberar framkvæmdir frá upphafi og þar til henni er lokið skiptist í fjóra áfanga. Verk skal að jafnaði boðið út. Innkaupastofnun ríkisins annast að jafnaði útboð verka svo og reikningshald og greiðslur. Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir veitir heimild til útboðs en hún er fjmrn. til ráðuneytis um fjármálalega framkvæmd laganna. Framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins fer síðan með yfirstjórn verklegra framkvæmda. Yfirstjórn opinberra innkaupa er fengin sérstakri stjórn opinberra innkaupa sem jafnframt er stjórn Innkaupastofnunar ríkisins. Að jafnaði skal bjóða út kaup á vörum og þjónustu. Hvorki í lögum nr. 63/1970 né lögum nr. 52/1987 er kveðið á um efni útboðsauglýsinga og útboðsgagna, tilboðsfresti, meðferð tilboða eða val á bjóðendum. Í verkútboðum er hins vegar mikið stuðst við íslenskan staðal nr. 30 og þar er að finna ýmsar reglur um þessi atriði. Enginn staðall er hins vegar til um vörukaup. Ýmsum öðrum ríkisstofnunum en Innkaupastofnun hefur verið heimilað að annast eigin útboð. Þetta á t.d. við um Vegagerð ríkisins, Vita- og hafnamálastofnun, Póst og síma, Rafmagnsveitur ríkisins og Flugmálastjórn. Þá hefur Landsvirkjun annast sín eigin viðskipti á þessu sviði. Reykjavíkurborg rekur eigin innkaupastofnun en hins vegar hafa önnur sveitarfélög í mörgum tilfellum falið Innkaupastofnun ríkisins að annast meiri háttar innkaup fyrir sig.
    Í frv. felst að við lög nr. 63/1970, um opinberar framkvæmdir, og lög nr. 52/1987, um opinber innkaup, er bætt nokkrum nýjum greinum er fela m.a. í sér skyldu fyrir ríki og sveitarfélög til að bjóða út verk og vörukaup á hinu Evrópska efnahagssvæði. Frv. er skipt í þrjá kafla. I. kafli fjallar um breytingar á lögum nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, II. kafli um breytingar á lögum nr. 52/1987, um opinber innkaup, og í III. kafla eru ákvæði um gildistöku.
    Breytingarnar sem felast í I. kafla frv. felast í því að við 1. gr. laganna, sem fjallar um gildissvið þeirra, er bætt við ákvæðum sem munu leiða til þess að sveitarfélögum verður skylt að bjóða út á Evrópumarkaði. Þá er bætt við lögin nýjum kafla sem fjallar um opinber útboð á Evrópsku efnahagssvæði. Í þeim kafla er að finna reglur sem fjalla um ýmis atriði svo sem verðmætismörk, auglýsingar, kærur, skaðabætur o.fl. Þannig verður skylt að bjóða út á hinu Evrópska efnahagssvæði verk sem áætlað er að nemi 5 millj. ECU eða meira án virðisaukaskatts en það jafngildir u.þ.b. 375 millj. ísl. kr. Skylt verður að auglýsa verk þessi í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins og verður ekki heimilt að birta auglýsinguna hér á landi fyrr en hún hefur verið send útgáfustjórn Evrópubandalagsins til birtingar. Þar sem hins vegar geta liðið allt að 12 dagar þar til auglýsingin birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsing njóta innlendir verktakar ákveðins forgangs enda er ekkert því til fyrirstöðu að auglýsing birtist í innlendum blöðum einum til tveimur dögum eftir sendingardag.
    Heimilt verður að kæra ákvarðanir verkkaupa sem teknar eru í tengslum við framkvæmd útboðs eða gerð verksamnings til fjmrn. allt til þess tíma að tilboð frá bjóðenda hefur verið samþykkt. Fjmrn. getur í tilefni af kæru gripið til ákveðinna aðgerða, svo sem stöðvað útboð samanber 2. gr., f-lið, sem verður 26. gr. og má sjá það á bls. 3 í frv. svo ég vísi til þskj. 35. Fjmrn. getur beitt þessum sömu heimildum í tilefni af athugasemdum eftirlitsstofnunar EFTA út af útboði og í því sambandi má benda á h-lið 2. gr. sem verður 28. gr. samkvæmt frv.
    Breytingarnar sem II. kafli felur í sér á lögum nr. 52/1987 eru að flestu leyti sambærilegar við þær breytingar sem getið er um hér að framan. Sveitarfélög, auk ríkis og stofnana þess, verða skyld að bjóða út innkaup. Um verðmætismörkin er fjallað í b- og c-lið 4. gr. Almenna reglan er sú að skylt verður að bjóða út innkaup þegar verðmæti þeirra nemur 200 þús. ECU, Evrópumyntarinnar, eða 15 millj. ísl. kr. eða meira án virðisaukaskatts. Reglur um auglýsingar, kærur og valdsvið eftirlistsstofnunar EFTA eru hins vegar svipaðar reglum I. kafla.
    Í III. kafla frv. er síðan að finna ákvæði um gildistöku laganna.
    Markmiðið með frv. er fyrst og fremst að lögfesta þá skyldu til útboða á Evrópska efnahagssvæðinu sem leiðir af EES-samningnum. Ekki er ætlunin að gera aðrar breytingar á skipan opinberra framkvæmda og innkaupa hér á landi. Þannig munu sömu aðilar bjóða út þessi verk og innkaup og gera það nú. Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir mun veita heimild til útboða eins og verið hefur. Fjmrn. mun hafa eftirlit með því að reglum laganna sé fylgt en hins vegar mun Innkaupastofnun ríkisins annast ráðgjöf á þessu sviði svo sem með útgáfu upplýsingabæklinga.
    Um langt skeið hefur verið fyrir hendi opinn alþjóðlegur útboðsmarkaður hér á landi við opinber innkaup bæði hvað varðar vörur og meiri háttar verkkaup. Þannig hefur Landsvirkjun t.d. boðið út á erlendum markaði alla stærri verkhluta við virkjanir. Þetta á t.d. við um Blönduvirkjun og þá hluta F ljótsdalsvirkjunar sem hafa verið boðnir út.
    Innkaupastofnun ríkisins hefur á undanförnum tveimur árum boðið út rúmlega 20 vörukaupaútboð sem hefðu farið yfir þau mörk sem getið er um í II. kafla frv. Öll þessi vörukaupaútboð voru send á alþjóðlegan markað. Á sama tíma var boðið út eitt verk innan lands sem hefði farið yfir viðmiðunarmörk I. kafla frv. Svipað á við um Vegagerðina. Þar hafa á síðustu árum verið boðin út tvö verk sem hefðu farið yfir viðmiðunarmörkin. Innkaupastofnun annast hins vegar öll vörukaup fyrir Vegagerðina.
    Virðulegur forseti. Ég hef hér gert grein fyrir því frv. sem hér er til umræðu og vil að endingu mælast til þess við hæstv. forseta að frv. verði sent hv. efh.- og viðskn. og vísað til 2. umr.