Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 21:09:45 (987)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Í frv. er nýjung í lagasmíð hér á landi og greinilega fyrirhugað það sem ég hygg vera nýjung í meðferð mála fyrir dómstólum. Gert er ráð fyrir því í frv. að aðilar sem reka mál fyrir íslenskum dómstóli geti leitað álits erlends dómstóls um túlkun á íslenskum lögum. En samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði ásamt bókunum, viðaukum og gerðum á að hafa lagagildi hér á landi.
    Það er nú til marks um alla þessa doðranta að menn eru ekki vissari en svo um það hvað í þeim stendur að þeir treysta ekki íslenskum dómtólum til þess að skera úr og dæma á grundvelli þessara laga sem eiga að vera íslensk lög, heldur þurfi menn að leita til útlanda og hafa opna heimild til að leita til útlensks dómstóls til þess að túlka þennan samning sem á að verða lög.
    Í stjórnarskrá lýðveldisins segir í 61. gr., með leyfi forseta: ,,Dómendur skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögum.``
    Hér er verið að leggja til að fara ekki einungis eftir lögum heldur líka, ef mönnum sýnist svo, eftir áliti EFTA-dómsins. Það er mitt mat að það fáist varla staðist gagnvart þessari grein stjórnrskrárinnar að setja lög sem opna heimild til að sækja álit annarra á túlkun íslenskra laga. Samkvæmt þessari grein stjórnarskrárinnar ber dómendum að dæma eftir íslenskum lögum og kveða upp dóma samkvæmt rökstuðningi á grundvelli þeirra laga en ekki áliti aðila utan lands. Þetta er misskilningur á málinu, virðulegi forseti, og ég vildi reifa þetta sjónarmið. Það má vera að menn kunni að hafa önnur sjónarmið á þessu. En það er mín niðurstaða eftir athugun á málinu að ég fæ tæplega séð að þetta samrýmist íslenskri stjórnarskrá.