Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 21:13:40 (988)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. ,,Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti``, leggur íslenskt skáld fram sem setningu handa sakamanni sem var búinn að eyða svo stórum hluta ævi sinnar í að leita réttar síns að það var lítið eftir af manninum sjálfum þegar hann fékk niðurstöðuna. Það er tvennt sem hrekur menn frá því að leita réttar síns á Íslandi. Það er annars vegar féleysi og hins vegar tíminn sem það tekur. Tíminn sem það tekur getur oft verið það langur að mönnum þykir betra að semja um málamiðlun og láta af rétti sínum en að ná honum öllum með málaferlum.
    Hér er bersýnilega verið að lengja mjög þann tíma sem málarekstur tekur. Það er verið að lengja hann með kröfu um að hægt sé að krefjast þess, eins og hér stendur í 1. gr. frv.: ,,Hvort sem aðili máls krefst að álits verði leitað . . .  `` Það er hægt að krefjast þess að leitað verði álits þessa EFTA-dómstóls.
    Ég held að það fari ekkert á milli mála og ég brýt um það heilann hvort mönnum sé það fullkomlega ljóst hversu langan tíma þetta getur tekið. Það hlýtur stundum að vera stórt spurningarmerki, þegar menn lenda í þeirri aðstöðu að þess hefur verið krafist af öðrum aðila að málið fari fyrir þennan dómstól, hvort hinn aðilinn kærir þá ekki úrskurðinn til Hæstaréttar. Hann hefur hins vegar ekkert fyrir sér í því hvort Hæstiréttur afgreiðir málið eða bíður eftir gögnunum.
    Mér finnst að hér séum við að sigla út í slíka réttaróvissu að það sé furðulegt að mönnum detti þetta í hug. Ég ætla að lesa á bls. 3, með leyfi forseta, það sem stendur í athugasemdum um einstakar greinar frv. Þetta er stutt lesning:
    ,,Af ákvæðum 1. gr. frv. má ráða að ætlast er til að rekstri máls verði frestað fyrir héraðsdómi þar til álit EFTA-dómstólsins er fengið. Bið eftir álitinu gæti orðið til að tefja fyrir úrlausn máls og verður því að telja eðlilegt að mæla fyrir um heimild málsaðila, sem vill ekki fella sig við afstöðu héraðsdómara, til að kæra úrskurð hans til Hæstaréttar. Kæruheimildin í 3. mgr. 1. gr. frv. er þó ekki bundin við þau tilvik, þar sem héraðsdómari úrskurðar að álits EFTA-dómstólsins verði leitað, heldur nær hún einnig til úrskurðar um gagnstæða niðurstöðu hans.``
    Það breytir engu að Hæstarétti er einnig ætluð sú heimild að leita álitsins og það leysir ekkert mál þó að búið sé að tryggja það með þessu að það fari hraðar í gegnum réttinn í heimahéraðinu. Það fer þá bara hægar í gegnum Hæstarétt og er nógu hægt farið eins og mál standa í dag.
    Íslensk kona er að leita réttar síns vegna tveggja dætra sinna. Blöðin birta það að málskostnaður hennar sé kominn í um 8 millj. kr. Ég veit ekki hvort menn gera sér grein fyrir því að á bls. 2 í frv. er einnig að finna hugmyndirnar um það hvernig eigi að standa að þessu. Með leyfi forseta vil ég lesa hér örfáar setningar:
    ,,Í frv. er ekki að finna nánari reglur um aðgerðir héraðsdómara ef niðurstaða hans verður sú að álitsins verði leitað, en gengið er út frá því að framkvæmdaratriði varðandi t.d. sendingu máls til EFTA-dómstólsins komi til með að ráðast af reglum hans.``
    Nú er það meginatriði að sá sem tapar máli greiðir oftast kostnað af málinu. Ég sé ekki að hér liggi það fyrir að þetta álit fáist kostnaðarlaust. Það liggur ekkert fyrir um það hvaða reglur þeir ætla að setja sér. Ætlast þeir til þess að lögfræðingarnir mæti þá og geri grein fyrir málinu? Að það sé hluti af sendingunni úr landi að lögfræðingarnir mæti til að útskýra það hvað um sé verið að tefla?
    Mér finnst að þær hugmyndir sem hér koma fram, sem eru vissulega á þann veg að skapa ósjálfstæði íslenskra dómstóla og tefja niðurstöðu dóma, séu á þann veg að við það sé ekki unandi. Spurningin er þessi: Ef hv. Alþingi treystir ekki dómstólum sínum til að dæma í þessu máli eru þeir þá frekar traustsins verðir á öðrum sviðum í reynd? Þurfa þeir ekki ráðgjöf á öllum sviðum? Eða ef við snúum þessu við: Ef erlendum dómstólum er ekki treystandi til að dæma í málum sem þar koma fyrir og þurfi líka að leita álits vegna EFTA-mála, eins og hér er gert ráð fyrir, eru menn í reynd að halda því fram að dómskerfi hins vestræna heims sé svo hlutdrægt eftir þjóðerni að sæki Íslendingur mál sitt í Bretlandi sé hætt við að dómstólar þar dæmi hann ekki rétt vegna þess að hann er Íslendingur og ef íslenskir dómstólar þurfa að dæma í máli Englendings hér á landi sé því ekki treystandi að þeir dæmi hlutlaust vegna þess að það er Englendingur sem á hlut að máli? Þetta er mjög þungur áfellisdómur yfir vestrænu dómskerfi ef reyndin verður þessi.
    Ég furða mig þess vegna mjög á því að þær hugmyndir sem hér eru settar fram njóti í reynd stuðnings hæstv. dómsmrh. sem ég hef talið að hefði mikla trú á vestrænu lýðræði og vestrænum dómstólum. Ég hef aldrei heyrt hann efast um að þessir dómstólar dæmdu rétt, aldrei heyrt hann í ræðu eða riti halda því fram að Íslendingum stafaði hætta af því ef þeir þyrftu sækja mál sitt í Evrópu á þeirri forsendu að þeir fengju ekki réttlátan dóm vegna þess að þeir væru Íslendingar, hvað þá að hann dróttaði því að innlendum dómstólum að þeim væri ekki treystandi vegna þjóðernisrembings.
    Mér finnst, herra forseti, að það sé dapurlegt að eitt elsta réttarákvæði Íslendinga sem flestir kynnast eða kynntust í barnaskóla, ,,utanstefnur viljum vér engar hafa``, sé í reynd falið á bak við þetta frv., þ.e. það ákvæði þess sem ég las upp áðan að framkvæmdaratriði, t.d. sending máls til EFTA-dómstólsins komi til með að ráðast af reglum hans. Spurningin er þá: Eiga lögfræðingarnar sem sækja málið hér heima að

fylgja með í þessari sendingu út eða á að senda þetta í faxi, hraðpósti eða ábyrgðarbréfi? Það kemur hvergi fram. Það eru reglur EFTA-dómstólsins sem eiga að ráða því.
    Ég held að það sé mikil spurning hvort við þurfum ekki að tryggja það að íslenskir hægri menn fari á námskeið í Bretlandi til að kynna sér þau viðhorf sem þar hafa almennt gilt hjá íhaldsmönnum til að átta sig á því að Bretar eru ekki alveg búnir að gefa það upp á bátinn að þegar þeir ná ekki samkomulagi við önnur Evrópuríki fari þeir að eigin vilja og eigin ákvörðunum. Það síðasta hefur verið að gerast nú að þeir rjúfa gerða samninga. Bretar eru að rjúfa gerða samninga. Þeir eru að segja sig úr myntbandalagi til þess að ná valdi á eigin málum. Hvers vegna geta Bretar þetta? Vegna þess að þrátt fyrir allt eru þeir stórveldi, að minnsta kosti stórveldi á evrópskan mælikvarða. Íslendingar munu ekki leika neinar slíkar kúnstir. Geri þeir samninga og reynist þeir samningar svo óhagstæðir að mjög erfitt er að búa við þá, þá rífa þeir sig ekki út á einni nóttu.
    Það er þó eitt gott við þennan samning að hann er uppsegjanlegur með ársfyrirvara, en vel að merkja, kjarni málsins er sá að eftir að slíkur samningur væri búinn að vera í gildi, segjum 10 ár, þá er allt íslenska efnahagskerfið orðið svo samtvinnað efnahagskerfi Evrópu að það er nánast vonlaust að rekja það í sundur og rjúfa samninginn nema það verði mjög sársaukafullt hér á landi fyrst á eftir.
    Ég skora því á hæstv. dómsmrh. að flýta sér hægt með að reka á eftir þessu máli í gegnum þingið.