Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 21:56:17 (1001)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. gat þess að hér væri um að ræða nýmæli í lögum. Vissulega er það rétt athugasemd hjá hv. þm. Hér er um nýmæli að ræða í íslenskum lögum. Hitt er ekki rétt hjá hv. þm. að hér sé um að ræða það nýmæli að í fyrsta skipti sé verið að kveða á um að niðurstöður erlendra dómstóla geti haft áhrif til lögskýringar á íslenskum lögum. Vissulega eru það ekki nýmæli. Í því sambandi minni ég á Mannréttindasáttmála Evrópu sem við erum aðilar að. Hann hefur enn ekki verið lögfestur þó nú sé unnið að undirbúningi þess.
    Það er alkunna að niðurstöður Mannréttindadómstólsins geta haft áhrif við lögskýringar þegar mál koma til úrlausnar dóma hér á landi. Að þessu leyti er athugasemd hv. þm. ekki rétt. Þetta er ekki nýmæli í íslenskum rétti.