Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 22:00:59 (1005)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Aðeins vegna samlíkingu ráðherrans við Mannréttindadómstólinn. Það er auðvitað reginmunur á því efni og frv. vegna þess að EFTA-dómstóllinn á að gefa álit á íslenskum lögum til íslensks dómstóls. Hins vegar breytir álit eða niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu engu um úrskurði íslenskra dómstóla. Þannig hefur t.d. dómstóllinn í Strassborg ekki breytt dómi Hæstaréttar yfir Þorgeiri Þorgeirssyni. Hann stendur eftir óhaggaður vegna þess að Mannréttindasáttmáli Evrópu er ekki lög hér á landi. Þess vegna getur sáttmáli sem ekki er lög ekki verið lögskýring.