Réttarfar, atvinnuréttindi o.fl.

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 23:35:03 (1013)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að það sé tvímælalaust rétt sem hér kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni og öðrum þeim sem hér hafa talað í kvöld að þetta er örugglega eitt þýðingarmesta fylgifrv. með EES-málinu. Ég ætla út af fyrir sig ekki að fara út í einstök efnisatriði þess nema kannski tvö. Ég ætla í fyrsta lagi að fagna því sérstaklega sem fram kemur í greinargerð frv. að þrátt fyrir ákvæði þess að öðru leyti er meiningin að framvegis verði töluð íslenska fyrir íslenskum dómstólum. Það er tekið fram í greinargerð frv. að það sé ekki hróflað við því ákvæði að þingmálið sé framvegis íslenska eins og það er orðað. Í tengslum við þetta má að endingu minnast þess að í 1. mgr. 10. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 segir að þingmálið sé íslenska. Þeirri reglu væri að engu breytt með samþykki þessa frv. Ég tel mikla ástæðu til þess að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þann myndugleik að leggja það til við þessa virðulegu stofnun að framvegis verði töluð íslenska við íslenska dómstóla þrátt fyrir það að Ísland gerist aðili að Evrópsku efnahagssvæði.
    Hitt atriðið sem ég ætlaði að nefna er 8. og 9. gr. frv. Hún gerir ráð fyrir því að framvegis verði útlendingum, hverjum sem er, ekki aðeins á Evrópska efnahagssvæðinu heldur einnig annars staðar, heimilt að gefa út dagblöð á Íslandi og stunda hvers konar aðra útgáfustarfsemi, koma frá sér prentuðu máli af hvaða tagi sem er. Þetta eru vissulega kaflaskipti í íslenskri menningarsögu sem hér er verið að gera tillögu um. Í því sambandi væri kannski hægt, ef ekki væri orðið mjög áliðið dags, að minnast á það hvernig það gekk fyrir sig á sínum tíma þegar íslenskir aðilar misstu Morgunblaðið í hendurnar á dönskum kaupmönnum. Frá því er sagt í ágætri ævisögu Vilhjálms Finsens sem ég vona að allir alþingismenn hafi lesið og hvernig Íslendingarnir sáu eftir Morgunblaðinu í hendurnar á þeim dönsku kaupmönnum sem yfirtóku það en misstu það síðan.
    Ég hygg að það sé nokkurt umhugsunarefni, t.d. fyrir ritstjóra Morgunblaðsins sem halda mjög fram íslensku máli og íslenskri menningu að velta því fyrir sér á þessari stundu að það sé verið að ræða um frv. á Alþingi sem gerir ráð fyrir því að á nýjan leik verði heimilt að selja Morgunblaðið í hendurnar á útlendingum. Þá er ég hræddur um að kröfurnar um meðferð íslensks máls verði örlítið lakari en gerist í dag í því ágæta blaði Morgunblaðinu jafnvel þó að ætlast sé til þess að þingmálið fyrir íslenskum dómstólum næstu árin verði íslenska engu að síður.
    Þetta leiðir hins vegar hugann að því, virðulegi forseti, að fyrir faáeinum árum setti fyrrv. ríkisstjórn í lög ákvæði þess efnis að íslensk menning yrði undanþegin virðisaukaskatti. Það er alveg augljóst mál að sú ákvörðun stenst ekki ýtrustu kröfur hins Evrópska efnahagssvæðis vegna þess að bókaútgefendur á því svæði líta á bækur ekki aðeins sem menningu heldur líka sem iðnaðarvöru. Þeir mundu að sjálfsögðu gera kröfur um það að virðisaukaskattur væri einnig felldur niður eða lækkaður af erlendum bókum svo dæmi sé tekið. Með þessum orðum er ég að benda á það grundvallaratriði, virðulegur forseti, að þetta ákvæði um prentréttinn sýnir að við getum ekki lengur um frjálst höfuð strokið sem íslensk þjóð, við

getum ekki sett inn í lög sérstök ákvæði til verndar og styrktar íslenskri menningu ef það stangast á við hagsmuni þeirra sem að öðru leyti bera uppi þennan samning, þ.e. framleiðendur og fjármagnseigendur á Evrópska efnahagssvæðinu. Þess vegna leynir þetta frv., sem hæstv. dómsmrh. hefur hér mælt fyrir í kvöld, auðvitað á sér, þar er víða komið við. Þetta er grundvallaratriði sem ég er hér að benda á, það meginatriði að í rauninni er hér verið að segja: Framvegis verður óheimilt að grípa til sérstakra ráðstafana sem verða til þess að framleiðsla á íslenskri menningarstarfsemi eða íslenskum menningarafurðum af hvaða tagi sem er búi við betri kjör en framleiðsla á erlendum menningarafurðum hér á þessu markaðsvæði menningarinnar.
    Ég geri ráð fyrir því að þetta atriði hafi kannski ekki legið í augum uppi þegar menn voru að fjalla um Evrópskt efnahagssvæði á sínum tíma. Ég minnist þess að á bókaþingi í Gautaborg fyrir þremur árum gerði ég grein fyrir þessu atriði varðandi virðisaukaskatt af íslenskri menningu sem við höfum ákveðið að fella niður. Ég tók þá þátt í umræðum ásamt ráðherrum frá ýmsum ríkjum, m.a. Evrópubandalagsríkjum, t.d. Danmörku, sem bentu þá á að slík háttsemi væri ekki heimil á hinu almenna evrópska efnahagssvæði Evrópubandalagsins eða ef samið yrði um útvíkkun þess undir nafninu EES eða Evrópskt efnahagssvæði. Satt að segja hafði ég sjálfur ekki hugsað út í þessa hluti fyrr en þáverandi kollegar mínir bentu mér á þessar staðreyndir en þær liggja auðvitað í augum uppi þegar menn hugsa nánar út í hlutina. Allt sem heitir að mismuna þannig að íslensk menning standi betur að vígi en erlend menningarframleiðsla er óheimilt. 8. og 9. gr. frv. undirstrikar það.
    Í frv. er gert ráð fyrir því að við kaup eða útgáfu á blöðum og tímaritum verði ekki gerður greinarmunur á erlendum mönnum eftir því hvort þeir eru ríkisborgarar í ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu eða annars staðar. Út af fyrir sig mætti kannski margt um þetta segja en ég vil spyrja hæstv. dómsmrh. hvaða rök eru fyrir því að þetta ákvæði, að því er varðar prentréttinn, sé víðara en önnur ákvæði frv. Það nær ekki einungis til íbúa á Evrópska efnahagssvæðinu, svokallaðra EES-útlendinga, en það er nýyrði dómsmrn. Það er ákveðin tegund af útlendingum sem heitir EES-útlendingar. Þetta takmarkast ekki aðeins við EES-útlendinga heldur er í raun og veru sagt: Þetta getur náð til allra. Út af fyrir sig er ég ekkert að gera athugasemdir við það á þessu stigi málsins enda má segja að það sé ekki mitt mál gagnvart þeirri stöðu sem ég hef almennt gagnvart frv. en það væri fróðlegt að vita hvaða rök eru fyrir því að hæstv. dómsmrh. kýs að hafa þetta ákvæði um prentréttinn miklu víðara en önnur ákvæði frv.