Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 10:41:37 (1015)

     Geir H. Haarde (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Flm. og frsm. þessarar tillögu setja fram þá tillögu jafnframt að þáltill. verði vísað til hv. allshn. Ég tel ekki að rétt sé að vísa þessu máli þangað. Hér er um að ræða tillögu sem fjallar um það að eitt tiltekið mál, sem er til meðferðar á Alþingi í ákveðinni þingnefnd, skuli borið undir þjóðaratkvæði. Hér er ekki um það að ræða að flutt sé tillaga um almennar reglur eða almennar breytingar á lögum að því er varðar þjóðaratkvæði heldur einungis þetta eina mál. Ég tel eðlilegast að þessu máli sé vísað til þeirrar nefndar þingsins sem er að fjalla um þetta mál, þ.e. til utanrmn. og að sú nefnd fjalli um þetta mál í heild sinni. (Gripið fram í.) Það er gott að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur ekki alveg tapað kímnigáfu sinni. En það hefði mátt velta því fyrir sér hvort þessi tillaga ætti heima í stjórnarskrárnefndinni sem nýkjörin er vegna þess að þangað er búið að vísa annarri tillögu um breytingar á stjórnarskránni er varðar þjóðaratkvæði. Ég sé hins vegar ekki að þangað megi vísa öðrum tillögum en þeim sem varða breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Þess vegna leyfi ég mér, herra forseti, að gera tillögu um það að þessu máli verði ekki vísað til allshn. heldur til utanrmn.