Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 10:45:30 (1017)


     Ragnar Arnalds (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð seinasta hv. þm. sem hefur lagt til að þessu máli verði vísað til allshn. Ég tel það að sjálfsögðu hina mestu fjarstæðu að þáltill. um þjóðaratkvæðagreiðslu verði vísað til stjórnarskrárnefndar enda eiga þar ekki heima neinar aðrar tillögur en þær sem horfa til breytinga á stjórnskipun ríkisins. Ég tel að hinn möguleikinn, að vísa málinu til utanrmn. sem hefur verið gerð sérstök tillaga um, sé álíka fjarstæðukenndur. Ég held að það sé nokkuð ljóst, eins og seinasti ræðumaður sagði, að ekki aðeins hafa allar tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur verið til meðferðar í allshn. hingað til, heldur er það bara meginregla að allt er lýtur að almennum kosningum og öll kosningalög hafa farið til allshn. Ég tel því einsýnt að svo verði einnig í þessu tilviki.