Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 10:48:36 (1019)

     Geir H. Haarde (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Og virðulegi ,,yfirþingvörður`` sem hér grípur fram í fyrir ræðumönnum nokkuð reglulega og áminnir menn um réttsýni og góða framgöngu. Í 23. gr. þingskapa stendur:
    ,,Til fastanefnda getur þingið vísað þeim þingmálum sem lögð eru fram og þörf þykir að nefnd íhugi. Vísa skal frumvörpum, þingsályktunartillögum og skýrslum til nefnda eftir efni þeirra og hafa um það hliðsjón af skiptingu málefna í Stjórnarráðinu.``
    Síðan er talað um það hvaða málum eigi að vísa til allshn. og hvaða málum eigi að vísa til utanrmn. o.s.frv. Meginreglan er hins vegar sú að þingið ákveður sjálft hverju sinni hvert það vísar tilteknum málum. Eins og allir þekkja kemur það iðulega fyrir að um þetta getur verið ágreiningur og þá hafa menn leyst úr honum með því að þingið úrskurði um málið.
    Það er eflaust rétt, eins og fram hefur komið, að þáltill. um þjóðaratkvæðagreiðslur hafi til þessa verið vísað til allshn. En það hefur ekki verið áður komið fram tillaga um þjóðaratkvæði um Evrópskt efnahagssvæði eða um svo veigamikið utanríkismál að því er ég best man. Það er óeðlilegt að slíta þetta mál frá meginefni málsins, þ.e. frá samningnum sjálfum um Evrópskt efnahagssvæði. Þess vegna held ég fast við þá tillögu, virðulegi forseti, að þessari tillögu verði vísað til utanrmn.