Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 11:39:04 (1030)

     Kristinn H. Gunnarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir athugasemdir hv. 14. þm. Reykv. um lagabúning málsins. Það eru að mínu mati fyllilega réttmætar athugasemdir að benda á að frumvarpið eða málið sé búið í algjörlega ótækan búning. Hvað varðar röksemdir hæstv. ráðherra um að svona geri menn í Noregi og Svíþjóð, ef ég man rétt, vil ég benda á að það hefur ekkert gildi hér á landi hvernig menn skipa málum sínum erlendis. Við erum enn sjálfstæð þjóð með eigin reglur og eigin skipan mála og við þurfum ekki að sækja fyrirmyndir eða fyrirmæli til útlanda um það hvernig við eigum að leggja mál hér fram. Enn er ekki svo komið, virðulegi forseti, að við þurfum að lúta erlendu valdi í þessum efnum.