Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 12:36:41 (1034)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umfjöllunar, þ.e. frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks, er greinilega nokkuð viðkvæmt mál. Þegar maður gerir það að umtalsefni er vissara að stíga varlega til jarðar eins og við urðum áþreifanlega vör við þegar var umræða á þinginu um frv. sem varðaði heilbr.- og trmrh. vegna þess að varnaðarorð sem látin eru falla vegna opnunar vinnumarkaðarins eru oft og tíðum túlkuð sem fordómar gagnvart fólki af öðru þjóðerni, eins og einhvers konar rasismi. Mér fannst látið í það skína í umræðum á þinginu ekki fyrir löngu að slíkt væri á ferðinni hjá því fólki sem léti einhver varnaðarorð falla. Satt að segja finnst mér líka dálítið sérkennilegt að heyra slíkar raddir utan úr samfélaginu frá mönnum sem hafa hingað til eytt mestum tíma og orku í að gæta eigin hagsmuna. Skyndilega eru þeir orðnir innblásnir af einhverjum jafnréttishugsjónum og alþjóðahugsjónum þegar þessi samningur kemur til umfjöllunar. Ég vil leyfa mér að halda því fram að þeir sem snúast skyndilega svona á punktinum þegar samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði kemur til umfjöllunar séu skinhelgir jafnréttis- og alþjóðasinnar.
    Því er hins vegar ekki að neita að þær raddir heyrast auðvitað utan úr samfélaginu að það sé stórhættulegt að opna vinnumarkaðinn okkar. Hingað muni streyma allra þjóða kvikindi og menga hið algóða íslenska samfélag. Ég hef engar áhyggjur af því að það gerist og ég held að þingmenn hafi almennt engar áhyggjur af þessu. Í fyrsta lagi vitum við kannski manna best eða ættum að vita manna best að íslenskt samfélag er ekki algott.
    Í öðru lagi verður tæpast mjög mikill straumur fólks hingað. Fyrir því eru veðurfarslegar og landfræðilegar hindranir þó ekki væri annað. Í þriðja lagi er ég þeirrar skoðunar, og gæti sagt kannski eitthvað svipað og sá sem talaði á undan mér, að það sé í rauninni kostur að fá hingað erlenda aðila sem vilja setjast hér að og ég er þeirrar skoðunar að útlendingar sem hingað hafa flutt hafi nær undantekningarlaust auðgað íslenskt mannlíf og menningu. Ég er nefnilega í hjarta mínu, svo að maður taki hjartað sér til vitnis eins og hér hefur tíðkast að undanförnu hjá ráðherrum, þeirrar skoðunar að fjölbreytni sé almennt góð, hún sé af hinu góða og hún sé miklu betri en einsleitni og á því byggjast m.a. mínir fyrirvarar gagnvart hinu Evrópska efnahagssvæði að mér finnst of mikið stefnt í einsleitni.
    Ég held að það sem veki áhyggjur hjá fólki þegar talað er um opnun vinnumarkaðarins sé hið einfalda lögmál um framboð og eftirspurn því að aukið framboð á vinnuafli, þ.e. ef það eykst verulega, er líklegt til þess að lækka verðið á vinnuaflinu. Svo einfalt er það mál. Við verðum að hafa hugfast að markmiðið með innri markaði Efnahagsbandalagsins sem Íslendingar ætla að gerast aðilar að ef samningurinn fæst samþykktur hér á þingi, eitt af markmiðunum með innri markaði er einmitt að lækka tilkostnaðinn við framleiðslu með frjálsu flæði fjármagns, vöru, vinnuafls og þjónustu. Ekki er ástæða til að ætla að vinnuaflið sé þar undanskilið, að menn ætli bara að lækka tilkostnaðinn sem felst í hráefninu, sem felst í flutningi og sem felst í stöðlunum og öðru slíku heldur ætla þeir væntanlega líka að reyna --- það er a.m.k. ábyggilega markmið fyrirtækjastjórnenda í Evrópu --- að lækka þann tilkostnað sem þeir hafa vegna vinnuaflsins.
    Við erum hér að ræða frv. um frjálsan atvinnu- og búseturétt og ég er sannfærð um að ekki verður gagngerð breyting hér þó að þetta frv. yrði samþykkt hér á þingi, a.m.k. ekki fyrst í stað. En eins og bent hefur verið á þá er íslenskt þjóðfélag samt mjög lítið og ekki þarf mikinn tilflutning til þess að valda talsverðri röskun. Það sem ég óttast frekar en tilflutning fólks hingað er flutningur fólks úr landinu. Ég held nefnilega að ef við pössum ekki vel upp á þróunina hér innan lands og reynum ekki að skjóta fleiri stoðum undir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf sé sú hætta fyrir hendi að fólk sem er vel menntað, sem á ýmissa kosta völ úti í hinum stóra heimi, sem talar erlend tungumál, hefur jafnvel menntað sig erlendis og á auðvelt með að fóta sig í öðrum samfélögum, flytji sig um set frá Íslandi og út til Evrópu þannig að það verði í rauninni atgervisflótti ef við pössum ekki mjög vel upp á hlutina hér innan lands og höldum ekki vel á málum.     Ég hef ekki almennt miklar áhyggjur af tilflutningi fólks vegna hins Evrópska efnahagssvæðis því að við vitum það að fólk flytur sig ekkert mjög auðveldlega á milli landa. Fólk sem er á stöðum úti á landsbyggðinni þar sem mikið atvinnuleysi er og þar sem framtíðin er jafnvel mjög óljós flytur sig ekki svo glatt, t.d. til Reykjavíkur, þó ekki sé vegna annars en fjölskyldutengsla og þess að það er búið að fjárfesta þar í íbúðarhúsnæði og þar á það allar sínar eigur. Þess vegna er fólk ekki eins laust við eins

og margir vilja vera láta. Hins vegar flæðir fjármagn mun auðveldar á milli landa, enda er það dauður hlutur og menn hafa enga sérstaka tilfinningu gagnvart því hvar það eigi að vera, hvort það eigi að vera fremur á einum stað en öðrum. Það sem menn hugsa um þegar fjármagnið á í hlut er að það gefi sem bestan arð og það renti sig sem best. Eins og menn hafa talað hér um verður þetta einn fjármagnsmarkaður, þ.e. fjármagn á að geta flætt frjálst og þess vegna held ég að frjálst flæði fjármagns á svona stórum markaði hljóti í tímans rás að útheimta einn gjaldmiðil og það er þess vegna sem ríki Evrópu eru farin að ræða um ein gjaldmiðil. Þegar fjármagnið flæðir frjálst er auðvelt að vera með gjaldeyrisbrask ef gjaldmiðlarnir eru mjög misjafnir og þess vegna er sjálfsagt myntbandalag eðlilegt framhald af innri markaði. Fólki finnst sér hins vegar ógnað af þessari þróun sem er að verða frá innri markaði og yfir í myntbandalagið og ég held að það upplifi það dálítið sterkt úti í Evrópu að þróunin er eins og snjóbolti sem hleður utan á sig og rennur æ hraðar ofan brekkuna og þetta er ástæðan fyrir því að svo margir eru nú á varðbergi gagnvart Maastricht-samkomulaginu. Þróunin er orðin hraðari heldur en fólk getur meðtekið. Það getur ekki fylgt þessari þróun og því finnst sér ógnað af þróun sem það skilur ekki. Það er þá kannski kaldhæðni örlaganna ef Efnahagsbandalagið sem var hugsað sem vörn gegn þjóðrembu og gegn stríði, gegn rasisma af hvaða tagi sem er, er í rauninni farið að næra þjóðrembu og rasisma vegna þess að þróunin er orðin svo hröð að almenningi í þessum löndum finnst sér ógnað. Fólkið hættir að skilja samfélag sitt og það hættir að skilja þróun þess og þá fer það að leita sér að sökudólg. Það er kannski að gerast úti í Evrópu, t.d. í Þýskalandi. Þjóðverjar eru að leita sér að sökudólg og hver er sökudólgurinn? Það er þetta innflutta vinnuafl, fólk sem tekur frá því vinnuna. Það er auðvitað röng ályktun. Það er ekki sökudólgurinn. Hins vegar er það þróunin og það sem hefur verið að gerast í álfunni sem hefur skapað þessa erfiðleika sem fólk stendur þarna andspænis. Þess vegna segi ég að það væri þá kaldhæðni örlaganna ef þetta bandalag sem var stofnað til þess að vinna gegn þjóðrembu og vinna gegn stríði er farið að næra þjóðrembu og átök úti í Evrópu. En það held ég að gerist þegar fólk hættir að skilja samfélag sitt og hættir að ná þróun samfélagsins.
    Til þess eru vítin að varast þau og ég er að tala um þetta hér vegna þess að þessi umræða hlýtur að koma upp í tengslum við opnun íslenska vinnumarkaðarins. Við verðum að búa okkur undir að það geti gerst þó að það sé kannski ekki sjáanlegt núna að hingað flytjist mikið af erlendu vinnuafli. Þá er spurningin: Getum við tryggt að vel sé tekið á móti útlendingum hér á landi? Það er auðvitað mál sem við verðum að skoða óháð EES. Tökum við vel á móti útlendingum hér á landi? Ég held að við gerum það ekki. En samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði leggur stjórnvöldum tvímælalaust ákveðnar skyldur á herðar. Það eru stjórnvöld sem vilja ganga fram í því að opna vinnumarkaðinn og þau verða þá að tryggja að tekið sé vel á móti því fólki sem hingað kemur. Ég vil bara minna á í þessu sambandi að einmitt í dag er málþing um innflytjendabörn á Íslandi þar sem er einmitt verið að fjalla um það hvernig við tökum á móti útlendingum hér á landi og við gerum það illa. Við sinnum því ekki vel að kenna þessum börnum, t.d. íslensku. Við sinnum því heldur ekki vel að fræða börnin um sína eigin menningu og sitt eigið tungumál. Síðast í gær birtist grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni ,,Innflytjendabörn, börn sem þarfnast aðstoðar`` og er hún eftir formann Barnaheilla. Hann bendir á það í lok greinar sinnar að það eru ákveðin börn á Íslandi sem eru ofurseld vankunnáttu og skilningsleysi íslensku þjóðarinnar sem alla tíð hefur notið velvilja og skilnings nálægra þjóða hvað varðar menntun íslenskra námsmanna og barna þeirra. Hann bendir á það að bara í Reykjavík eru 68 börn í grunnskólum Reykjavíkur og álíka stór hópur í fræðsluumdæmi Reykjaness sem geta ekki tjáð sig á íslensku og fá mjög slaklega aðstoð í skólakerfi okkar. Ég bendi á þetta til þess að menn geri sér grein fyrir því að það þýðir ekkert að ákveða að opna íslenskt samfélag fyrir vinnuafli og líta bara á það sem vinnuafl og ekkert annað. Þarna er á ferðinni fólk sem þarf þjónustu og fólk sem þarf að sinna og sem við verðum að taka vel á móti á ýmsum stöðum í kerfinu.
    Það eru einstök atriði í þessu frv. sem mig langar til þess að gera að umtalsefni eftir þennan inngang og það er ekki síst 7. gr. þessarar reglugerðar Efnahagsbandalagsins um frelsi launþega til flutninga innan bandalagsins. Í 1. lið 7. gr. segir, með leyfi forseta:
    ,,Ekki er heimilt að láta launþega, sem er ríkisborgari annars aðildarríkis en þess sem hann starfar í, gjalda þjóðernis síns hvað viðvíkur ráðningar- og vinnuskilyrðum, einkum og sér í lagi hvað varðar launakjör, uppsögn úr starfi og, komi til atvinnumissis, endurskipun eða endurráðningu.``
    Þarna er verið að veita erlendum aðilum ákveðna réttarstöðu en þetta veitir þeim auðvitað enga tryggingu fyrir því að þeim sé ekki mismunað í launakjörum. Þá á að koma til nefnd sem fjallað er um í 2. gr. frv., þriggja manna nefnd, sem á að hafa eftirlit með framkvæmd laganna, og hún á einmitt að fjalla sérstaklega um ágreining sem kann að koma vegna upp þessarar 7. gr. sem ég las. Hún á að hafa vald til þess að biðja um ákveðnar upplýsingar hjá stofnunum, samtökum og fyrirtækjum til þess að komast að því hvort um mismunun sé að ræða vegna þjóðernis, þ.e. að útlendingum sem hingað koma sé mismunað vegna þjóðernis. Þetta á hún að geta skoðað og menn hafa talað þannig, bæði hér og eins í félmn., eins og þetta verði í rauninni afskaplega einfalt mál. Hún muni kalla fram þessar upplýsingar og svo muni hún komast að því hvort meðallaun þessara tilteknu útlendinga séu önnur en meðallaun Íslendinga og úrskurða í því

máli.
    Ég vildi að það væri jafneinfalt mál að taka á launamun kynjanna eins og menn ætla sér að taka á þessum launamun ef upp kemur. Hér hafa konur í áratugi verið að berjast fyrir því að ná launajafnrétti. Þær hafa bent á og lagt fram upplýsingar, tölfræði og gögn, gert kannanir o.s.frv. sem sýna fram á launamun milli kynjanna. Konur eru með 40% lægri laun en karlar, fullvinnandi konur. En það er alltaf hægt að útskýra þennan launamun með einhverjum hætti. Það vefst ekki fyrir verkalýðshreyfingunni og það vefst ekki fyrir atvinnurekendum að útskýra þennan launamun. Ég er alveg sannfærð um það út frá þessari reynslu að það sama verður uppi á teningnum varðandi útlendingana. Ef ekki, þá er Bleik brugðið. Þá er væntanlega komin upp sú staða að menn hafa tæki í höndunum til þess að taka á launamisrétti kynjanna og því fagna ég vissulega. Þá er hægt að gera kröfu um það að menn gangi eins vasklega fram í því máli og að taka á launamun eftir þjóðerni. Auðvitað er þetta ekki síst undir verkalýðshreyfingunni komið, hversu vel hún stendur að þessu máli og hversu tilbúin hún er til þess að beita sér fyrir því að fólki sé ekki mismunað hér eftir þjóðerni og eftir kynferði og að hún skynji sinn vitjunartíma í því efni.
    Ég vil gjarnan fá einhver viðbrögð við því hvernig menn eiga að geta gengið vasklega fram í því að gæta þess að ekki verði mismunað eftir þjóðerni.
    Í 3. gr. reglugerðarinnar í lið 2. b) er fjallað um auglýsingar og sagt að --- það er stundum svo flókið að lesa þessar reglugerðir vegna þess að maður þarf alltaf að bakka, ef maður getur sagt sem svo, maður þarf að leita að upphafi setningarinnar kannski á næstu blaðsíðu eða einhvers staðar annars staðar. Það liggur við að ég þurfi að lesa alla 3. gr., sem er ansi löng, til að halda samhengi í greininni. --- Málið gengur út á það að ekki megi ,,takmarka eða draga úr auglýsingum í blöðum eða öðrum fjölmiðlum á lausum störfum eða binda þau öðrum skilmálum en þeim sem gilda fyrir atvinnurekendur á yfirráðasvæði aðildarríkisins``.
    Ég vil gjarnan spyrja út í þetta ákvæði, ég átta mig ekki alveg á því hvað þarna er átt við. Við skulum bara taka sem dæmi starfsauglýsingar sem menn hafa hingað til talið nægja að birta í Lögbirtingablaðinu. Það eru fjöldamörg störf sem eru aðeins auglýst í Lögbirtingablaðinu og oft og tíðum er það nú þannig að þegar menn hafa ákveðnar hugmyndir hvern þeir vilja fá í starfið auglýsa þeir það formsins vegna í Lögbirtingablaðinu og ekki annars staðar. Þetta hafa konur m.a. oft gert athugasemdir við vegna þess að fólk er ekki almennt áskrifendur að Lögbirtingablaðinu og þetta dregur úr möguleikum þeirra til að sækja um störf þegar t.d. opinberir aðilar gera þetta. Í raun tala menn um það sín á milli að það þýði ekkert að sækja um störf sem eru bara auglýst í Lögbirtingablaðinu vegna þess að þá sé búið að ákveða hver eigi að fá starfið. Ég vil spyrja hvort slíkar auglýsingar falli undir þetta tiltekna ákvæði, þ.e. menn verði að auglýsa störf víðar en í einhverju ,,lókalblaði`` Stjórnarráðsins.
    Síðan vil ég gjarnan spyrja út í ráðgjafarnefnd sem gert er ráð fyrir að starfi og á að tryggja nána samvinnu milli aðildarríkjanna í málum sem varða frjálsa flutninga launþega. Þetta er væntanlega ráðgjafarnefnd Efnahagsbandalagsins sem þarna er verið að tala um. Ég vil spyrja hvort það sé gert ráð fyrir því að inn í hana komi sex íslenskir fulltrúar eða hvort ráðgjafarnefnd EFTA sé sú nefnd sem á við í þessu tilviki, að EFTA sé með sína sérstöku nefnd, sérstaka ráðgjafarnefnd, og Íslendingar eigi sex aðila þar eða hvort þeir eigi að skipa inn í þessa sameiginlegu ráðgjafarnefnd Efnahagsbandalagsins. Um þetta vil ég gjarnan spyrja.
    Þá vil ég nota tækifærið til að spyrja út í núverandi ráðgjafarnefnd sem er starfandi í tengslum við EFTA og hefur verið starfandi í tengslum við þessa samningsgerð allan tímann. Í henni eiga sæti ýmsir fulltrúar frá aðilum vinnumarkaðarins. Ég vil nota tækifærið og spyrja hver skipaði þessa aðila í nefndina, hver tilnefndi í nefndina og hver borgar kostnaðinn af þessari nefnd, þá á ég við nefndarlaun þeirra sem þarna sitja, ferðakostnað og annað slíkt. Ég vil gjarnan spyrja á vegum hvaða ráðuneytis þessi nefnd starfar, á hvaða lið greiðslurnar fara og frá hvaða ráðuneyti.
    Það er gert ráð fyrir því að sá sem sækir hingað vinnu öðlist sjálfkrafa dvalarleyfi til fimm ára. Síðan geta fjölskyldumeðlimir hans einnig öðlast dvalarleyfi. Ef þeir eru ekki á vinnumarkaði þurfa þeir að sýna fram á að þeir séu á framfæri launþegans eins og segir í greinargerð á bls. 5. Þar segir að til þess að þeir geti fengið dvalarleyfi þurfi eftirfarandi skjöl eða gögn að vera fyrir hendi:
  ,,a) Skjalið sem var notað við komuna til landsins.     b) Skjal sem sýnir hvernig fjölskylduböndum er háttað . . .  
    c) Skjal sem sýnir að þeir séu á framfæri launþegans eða voru hluti heimilismanna hans í heimalandi eða síðasta dvalarlandi.``
    Þetta skjal þarf að vera gefið út af viðkomandi yfirvöldum. Ég vil gjarnan spyrja hvers lags skjal er þarna á ferðinni sem á að sýna það að maður sé á framfærslu einhvers tiltekins aðila. Hvers konar skjal yrði gefið út á Íslandi ef fjölskylda væri að fara til erlends ríkis, hvers konar skjal mundu íslensk yfirvöld gefa út um það að einhver væri heimilismaður á framfæri annars, þá vil ég taka sem dæmi maka í því sem ekki er á vinnumarkaði. ( Forseti: Forseti vill grennslast fyrir um það hjá hv. þingkonu hvort hún eigi langt mál eftir. Það hafði verið reiknað með því að gera hér fundarhlé um eittleytið. Getur hv. þm. lokið máli sínu á 5--10 mínútum eða vill hv. þm. gera hlé á ræðu sinni?) Það er nú það, virðulegi forseti. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir hve langan tíma það tekur að ljúka því sem ég hef hér að segja en ég reikna með að það sé nær 10 mínútum en 5 mínútum. ( Forseti: Þá óskar forseti eftir því að hv. þm. geri hlé á ræðu sinni.) --- [Fundarhlé.]
    Virðulegi forseti. Ég var síðast að spyrja út í einstök atriði í frv. eða reglugerð Efnahagsbandalagsins sem hér er til umfjöllunar. Ég var að spyrja um hið svokallaða framfærsluskjal sem talað er um í greinargerð með frv.
    Fleira vakti athygli mína í frv. en ég ætla í sjálfu sér ekki að fara mjög náið út í það, ég hef tækifæri til þess í félmn. þar sem ég á sæti. Ég held að það sé óhætt að segja, ef við tölum um réttindi launafólks sem auðvitað er verið að fjalla um í frv. og í félmn. núna í tengslum við hið Evrópska efnahagssvæði, að formleg réttindi íslensks launafólks skerðist ekki með samningnum eins og hann liggur núna fyrir. En samningurinn er auðvitað ekki endanlegur. Samningsgerðinni er ekki lokið og verður aldrei lokið vegna þess að þetta er svæði sem er í stöðugri þróun og við vitum að Efnahagsbandalagið samþykkir tugi --- ég þori ekki að taka stærra upp í mig en að segja tugi, það getur vel verið að það hlaupi á hundruðum --- nýrra gerða á hverju ári og þessar gerðir munu margar hverjar verða að lögum eða verða að samþykktum á hinu Evrópska efnahagssvæði þótt þær komi auðvitað til kasta þjóðríkjanna áður en það gerist og þá til kasta Alþingis væntanlega margar hverjar. En menn geta ekki þegar þeir ganga inn á svona svæði, eins og hið Evrópska efnahagssvæði, bara plokkað rúsínurnar úr kökunni og borðað þær. Það þarf að borða kökuna alla og verður að teljast til algjörra undantekninga ef það er ekki gert. Það verður ekki nema í sérstökum tilvikum sem menn komast upp með að plokka eitthvað úr henni. Þess vegna verða menn auðvitað að spá í spilin núna, átta sig á því hvaða gerðir eru í farvatninu og eins hvaða þróun er í vændum innan Efnahagsbandalagsins til að átta sig á því hvernig hið Evrópska efnahagssvæði muni líta út í framtíðinni.
    Ég held, eins og aðrir sem hér hafa talað á undan mér, að það sé ástæða til að hafa ákveðnar áhyggjur af stöðu verkalýðshreyfingarinnar á Evrópska efnahagssvæðinu. Það má búast við því að það verði æ erfiðara fyrir verkalýðshreyfinguna að standa á því að félagar hennar hafi forgang að vinnu, að forgangur að vinnu sé bundinn við félaga í verkalýðsfélögum hér á landi. Við sjáum það hjá Evrópuráðinu að æ erfiðara reynist að verja þetta og eins eru uppi hugmyndir innan Efnahagsbandalagsins sjálfs um að kveða mjög skýrt á um þetta.
    Ég vil benda á það að EFTA-ríkin hafa skuldbundið sig til þess að ná fram markmiðum hins félagslega sáttmála Efnahagsbandalagsins, þ.e. þeirra skuldbindinga sem þau hafa tekist á hendur. Þegar við erum að tala um hinn félagslega sáttmála Efnahagsbandalagsins erum við auðvitað að tala um hann eins og hann er eftir Maastricht. Honum var breytt með Maastricht-samkomulaginu og margt gert þá til bóta í þeim sáttmála en þar er auðvitað ýmislegt sem kemur hugsanlega illa við íslensku verkalýðshreyfinguna. Þannig segir í fréttabréfi sem hefur verið gefið út af Alþýðusambandi Íslands, með leyfi forseta:
    ,,Spurningin um félagafrelsið er einnig hluti af hinni félagslegu áætlun EB þar sem kveðið er á um rétt fólks til að standa utan stéttarfélaga. ASÍ krefst þess að íslensk stjórnvöld hviki ekki frá afstöðu sinni í þessu máli ef til þess kemur að þessir sáttmálar taka gildi á Evrópska efnahagssvæðinu [þá erum við að tala um félagsmálasáttmálana] og geri ítarlega fyrirvara um stöðu þessara mála hér á landi þannig að sú framkvæmd sem verið hefur gildi áfram.``
    Það kemur sem sagt fram í þessari greinargerð frá miðstjórn ASÍ um hið Evrópska efnahagssvæði að í hinni félagslegu áætlun Efnahagsbandalagsins og í Maastricht-samkomulaginu sé gert ráð fyrir því að fólk hafi rétt til að standa utan stéttarfélaga. Þetta er eitt af því sem er í farvatninu og það er auðvitað mikilvægt að fá afstöðu stjórnvalda hér á landi til þessara mála og hvernig hugsanlega yrði á þeim tekið ef til kæmi.
    Þá er líka ástæða fyrir opinbera starfsmenn að hafa áhyggjur af lífeyrissjóðamálum sínum. Hér hefur verið talað um lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og að þeim þurfi að breyta en ég held að stærra áhyggjuefni sé kannski lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna vegna þess að það bendir margt til þess að innan tíðar verði felld niður innan Efnahagsbandalagsins skylduaðild að tilteknum lífeyrissjóðum. Þá er ég ekki að tala um að það verði gert þannig að skylduaðild að lífeyrissjóðum almennt verði felld niður eða ríki verði skikkuð til að fella almennt niður skylduaðild að lífeyrissjóðum, heldur að tilteknum lífeyrissjóðum. Við getum horft á þróunina eins og hún er í vátryggingunum. Það er verið að fella niður --- og það er mál sem við fjölluðum um hér á þingi --- sameiginlega skyldu íbúa í tilteknu sveitarfélagi til þess að brunatryggja sameiginlega, þ.e. að sveitarfélögin fari með þessi mál sem félagslegt mál og tryggi sameiginlega alla íbúa í tilteknu sveitarfélagi við brunatjóni. Nú á að tengja þennan rétt einstaklingnum þannig að einstaklingurinn á að hafa réttinn til þess að ákveða hvar hann tryggir, hvar hann kaupir sína tryggingu. Mér finnst eiginlega leiða af líkum að það sama muni fyrr eða síðar gerast í lífeyrissjóðamálunum. Ég hafði heyrt það í heilbr.- og trn. og ofan úr heilbr.- og trmrn. að væntanleg væri samþykkt frá EB sem væri á þann veg að afnema skyldu til aðildar að tilteknum lífeyrissjóði. Fólk ætti þá að geta keypt sér lífeyristryggingu hvar sem er á hinu Evrópska efnahagssvæði. Þá er auðvitað spurning hvernig þetta horfir við opinberum starfsmönnum sem hafa í raun keypt lífeyrisrétt sinn, sem er betri en flestra annarra, með lægri launatöxtum. Þetta tvennt hefur tengst mjög saman hjá opinberum starfsmönnum. Við vitum það líka að íslensk stjórnvöld hafa lengi litið það löngunaraugum að krukka í lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Sú spurning vaknar auðvitað hvort EES verði þeim sá útvegur sem þeir hafa leitað að lengi í þessum málum. Ég ætla ekki að fullyrða að svona verði það en það er ýmislegt sem bendir til þess ef maður spáir í spilin.
    Ég hef undir höndum plagg sem ég fékk sent í gær frá ASÍ og ber yfirskriftina: Tillaga EB að tilskipun um lífeyrissjóði, og var tekið saman hjá ASÍ um þessi mál. Mig langar til að lesa úr því, með leyfi forseta. Þar segir um lífeyrismálin:
    ,,Þessi mál tengjast þjónustu- og fjármagnsviðskiptum en einnig atvinnu- og búseturéttindum launafólks og markmið framkvæmdastjórnar EB er, eins og áður segir, að starfsemi lífeyrissjóðanna samræmist sem best hinu fjórþætta frelsi.`` --- Og í hinu fjórþætta frelsi eiga hlutirnir að geta flætt frjálst. --- ,,Framkvæmdastjórnin skiptir þessu máli í þrjá efnisþætti sem eru:
    1. Frelsi til stjórnunar og í fjárfestingum yfir landamæri.
    2. Frelsi til fjárfestinga yfir landamæri.
    3. Frelsi til frjálsrar aðildar að lífeyrissjóðum yfir landamæri.
    Í greinargerð með tillögunni kemur fram að alls ekki sé ætlunin að ganga langt til samræmingar á þessu sviði innan EB, einungis sé ætlunin að setja upp heildarramma, einstök aðildarríki geti síðan sett nákvæmari reglur ef þau vilja ef þær ganga ekki á skjön við þessar almennu reglur.`` --- En þá hlýtur maður að spyrja sig: Hver er heildarramminn? Heildarramminn, t.d. í vátryggingunum, er sá að einstaklingurinn á að geta keypt tryggingu hvar sem er. Síðan hafa aðildarríkin heimild til að setja á skyldutryggingu engu að síður og það gæti auðvitað verið lykill hjá lífeyrismálunum.
    Síðan segir: ,,Enn fremur kemur fram að framkvæmdastjórnin telur að spurninguna um frjálsa aðild að lífeyrissjóðum yfir landamæri þurfi að kanna mun betur áður en ákveðnar tillögur verða lagðar fram í því sambandi. Þessi tilskipun snýst því aðeins um fjárhagslegu hliðina á lífeyrissjóðunum, þ.e. fjárfestingar og stjórn þeirra en kemur ekkert inn á spurninguna um reglur um aðild að þessum sjóðum.``
    Þetta er sem sagt eins og málið stendur núna en það er greinilegt að sú umræða er komin upp og er í gangi innan Efnahagsbandalagsins að það verði frjáls aðild að lífeyrissjóðum yfir landamæri. Það felur auðvitað í sér gagngera breytingu á öllu lífeyrissjóðakerfi hér á landi og snertir ekki síst, eins og ég segi, opinbera starfsmenn.
    Mér finnst þetta mál, sem ég er að tala um hér og við getum tekið tryggingamálin og verkalýðsmálin í því sambandi líka, vera til marks um hver þróunin er í þessum málum úti í Evrópu. Þróunin er greinilega mjög aukin einstaklingshyggja, þ.e. að mannfólkið á rétt sem einstaklingar en það á í rauninni ekki rétt sem hluti af þjóð eða sem hluti af stétt. Við getum kallað þetta, svo ég noti vont hugtak, ,,atómíseringu``. Einstaklingurinn er orðinn atóm og hann á einhvern rétt sem slíkur en allur félagslegur réttur sem fólk á sameiginlega, eins og í verkalýðsfélagi, eins og fólk sem tilheyrir tiltekinni þjóð eða einhverjum hópi, upphafinn, hann er horfinn eða á góðri leið með að hverfa. Mér finnst þetta mjög athyglisverð þróun og mjög varhugaverð að mörgu leyti. Ég veit að það eru margir hér inni sem eru miklir einstaklingshyggjumenn en manneskjan hefur líka alltaf þörf fyrir að tilheyra einhverjum tilteknum hóp, tilheyra fjölskyldu, tilheyra starfshóp, tilheyra þjóð, að eiga sér einhvers staðar heimili, getum við sagt, sem einstaklingur. Og ég óttast að þetta sé hlutur sem er dálítið mikið að hverfa og þá verður hver að passa sig og sinn rétt og hefur ósköp lítið með réttindi annarra að gera.
    Það er fleira sem varðar réttindi og réttarstöðu í þessu sambandi og það kemur líka inn á þjóðaréttinn og landsréttinn sem hér hefur oft komið til umtals og mér finnst dálítið athyglisvert að velta þessu fyrir mér, þjóðarétti, landsrétti, einmitt í tengslum við þetta frv. sem hér er. Hér hefur verið gerð athugasemd við það hvernig frv. er uppsett, það var hv. 14. þm. Reykv., Guðrún Helgadóttir, sem gerði það áðan og ég gerði það reyndar líka við 1. umr. um EES-samninginn. Ég tók einmitt þetta frv. til marks um það hversu ógegnsæ öll löggjöf yrði þegar búið væri að aðlaga hana hinu Evrópsku efnahagssvæði og hve það yrði erfitt fyrir fólk að vita hvað væru lög í landinu. Fólk gæti ekki flett með einföldum hætti upp í lagasafninu til þess að sjá nákvæmlega hver eru lögin í landinu og ég minntist á það að mér fyndist þetta draga úr réttaröryggi.
    Hins vegar hefur verið á það bent að sama sé uppi á teningnum á hinum Norðurlöndunum. Þau ætla að lögtaka þessa hluti með nákvæmlega sama hætti og við og ég veit það og ég efast ekkert um að þau hafa fundið að þetta væri lögformlega rétt leið, bæði þar og hér. En málið er bara það að samþykktir Evrópubandalagsins og uppbygging þess öll er mjög ólík öllu réttarkerfi og allri uppbyggingu stjórnkerfa á Norðurlöndum og það er kannski sá árekstur sem við sjáum og erum að upplifa svo sterkt þessa dagana. Bara t.d. form reglugerðanna eins og þessi reglugerð sem hér er verið fjalla um, reglugerð nr. 1612/68, form hennar er mjög óíslenskt, það er mjög ónorrænt getum við sagt. Þetta er svona eins konar suður- og miðevrópskur stíll. Ég er ekki að segja að hann sé slæmur. Hann er bara allt annar heldur en okkar. Lítum á hvernig þetta er sett upp. Reglugerðin byrjar svona:
    ,,Ráð Evrópubandalaganna hefur,
    með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalags Evrópu, einkum 49. gr. hans,
    með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
    með hliðsjón af áliti Evrópuþingsins,
    með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar,
    og að teknu tilliti til eftirfarandi:``
og síðan kemur heilmikil upptalning á því að teknu tilliti til hvers og löngu seinna segir: ,,samþykkt reglugerð þessa:`` og síðan kemur reglugerðin. Þetta er stíll sem við þekkjum ekki hér á landi, þetta er alveg nýtt fyrir okkur að segja þetta svona. A.m.k. er það fyrir mig. Það kann að vera að einhverjir þekki þennan stíl. ( Gripið fram í: Öðlast þessi formáli lagagildi?) Þessi formáli öðlast lagagildi vegna þess að reglugerðin öll er lögtekin og það er einmitt athyglisvert í því sambandi að velta því fyrir sér af því að það segir m.a.: ,,Með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalags Evrópu, einkum 49. gr. hans``. Sá sem skoðar þessi lög veit ekkert hvernig þessi 49. gr. er. Hún birtist ekkert hér með. Hvernig á hann að skilja það? Það segir líka: Með hliðsjón af áliti Evrópuþingsins. Hvaða álit er þetta? Það er birt í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins. Hann hefur það ekkert undir höndum og getur ekki séð það þannig að lagasetningin er öll mjög sérkennileg. Og ég held að hluti af skýringunni á þessu sé sú að í Evrópubandalaginu og í ýmsum aðildarríkjum Evrópubandalagsins, við getum tekið Frakkland og Þýskaland sem dæmi, þá er landsréttur og þjóðaréttur eitt. Það er eitt réttarkerfi, landsrétturinn og þjóðarétturinn. Og þjóðréttarsamningar þurfa ekki að fara í gegnum sérstaka lögtöku eins og hjá okkur. Þing þeirra getur bara samþykkt þá beint eins og þeir koma fyrir og þá öðlast þeir lagagildi. Hér á Íslandi og á Norðurlöndunum og reyndar líka í Bretlandi eru hins vegar tvö réttarkerfi. Það er tvíeðli kerfisins. Annars vegar höfum við þjóðarétt og hins vegar landsrétt. Og þjóðaréttur bindur ríkið og landsréttur bindur einstaklingana og fyrirtækin. Þetta eru tvö aðskilin réttarkerfi. Þess vegna verður þetta klúður í þessum málum og þetta klúður kemur bara best fram í sjálfu staðfestingarfrv. sem við höfum verið með til umfjöllunar og búin að taka til 1. umr. Þar kemur klúðrið beint í ljós og síðan endurspeglast það í öllum þeim frv. sem við erum hér með vegna þess að staðfestingarfrv. er í eðli sínu nákvæmlega eins og það frv. sem hérna er, nákvæmlega jafnsérkennilegt. Og af því að ég var nú að minnast á þetta, þá langar mig til þess að lesa hér örstuttan kafla með, leyfi forseta, upp úr bók Stefáns Más Stefánssonar um Evrópurétt þar sem hann er einmitt að fjalla um þetta eineðli og tvíeðli þjóðaréttar og landsréttar sem ég held að væri verðugt fyrir þingmenn að velta fyrir sér og ég skal hafa það mín lokaorð hér. En þar segir í kafla um áhrif þjóðréttarsamninga:
    ,,Í kenningum um tvíeðli er því haldið fram að þjóðaréttur og landsréttur séu tvö aðskilin réttarkerfi, sem gildi á sitthvoru réttarsviðinu, þ.e. þjóðaréttur er sagður gilda milli ríkja en landsréttur gildir í tilteknu ríki. Rót þeirra sé því ólík. Af þessu er dregin sú ályktun að veita verði þjóðarétti lagagildi með sérstökum stjórnskipulegum aðgerðum áður en hann getur talist til landsréttar. Samkvæmt kenningum um eineðli umræddra réttarkerfa má segja að litið sé svo á að lögin, þ.e. þjóðaréttur og landsréttur, séu hluti af einu og sama lagakerfi. Rót þeirra sé í raun sú sama. Þjóðarétturinn telst samkvæmt því sjálfkrafa hluti af landsrétti án þess að til sérstakra aðgerða þurfi að koma, svo sem lagasetningar. Að því er aðild varðar er litið svo á að samkvæmt kenningunum um tvíþætt eðli að ríki eða alþjóðastofnanir séu aðilar að þjóðarétti en menn eða lögaðilar að landsrétti en samkvæmt kenningum um eineðli er litið svo á að þessi mismunandi aðild hafi ekki lagalega þýðingu. Loks er litið svo á samkvæmt kenningum um tvíþætt eðli að efni þjóðaréttar sé ekki það sama og landsréttar en samkvæmt kenningum um eineðli er litið svo á að efnið sé eitt og hið sama eða a.m.k. að sá munur hafi enga lagalega þýðingu.
    Kenningar um eineðli fela það oft í sér að þjóðaréttur er talinn rétthærri heldur en landslög. Gildir þetta fyrst og fremst um þau landslög sem voru í gildi þegar þjóðarétturinn tók gildi en jafnvel einnig um þau lög sem eru síðar til komin en viðkomandi þjóðréttarheimild. Báðar þessar reglur eru nánast taldar rökbundin nauðsyn ef þjóðaréttinum er ætlað að hafa það gildi sem hér hefur verið lýst. Kenningar um tvíþætt eðli gera hins vegar venjulega ráð fyrir því að þjóðaréttur hafi ekki lagagildi í viðkomandi ríki nema hann sé lögfestur sérstaklega.``
    Í þessu sambandi vil ég vitna til þess að í rauninni erum við með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði að gefa þjóðaréttinum forgang umfram landsréttinn vegna þess að það á að túlka lög út frá þjóðréttarsamningnum. En síðan segir: ,,Unnt er að færa ýmis rök til stuðnings hvorri kenningu um sig. Þannig er kenningin um tvíþætt eðli e.t.v. meira í samræmi við þrískiptingu ríkisvaldsins, a.m.k. í þeim löndum þar sem gerð þjóðréttarsamninga er í höndum framkvæmdarvaldshafa. Þá má einnig færa fram þau rök að það geti verið brýnt fyrir minni lönd að veita þjóðarétti ekki sjálfkrafa lagagildi að landsrétti þar sem stærri þjóðir hafa að jafnaði meiri áhrifamátt á sviði þjóðaréttar`` og það erum við kannski ekki síst að upplifa núna í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði hver hefur áhrifamáttinn.
    ,,Loks má einnig halda því fram að ekki sé sanngjarnt gagnvart einstaklingum, sem í raun reiði sig

ávallt á landsrétt, að láta tiltekna réttarstöðu fara eftir þjóðarétti ef þessi tvö réttarkerfi greinir á.``
    Ég vík að þessu hér, forseti, vegna þess að þetta frv. sem við erum að fjalla um er oft tekið til marks um það hversu slæm þessi lagasetning er sem nú á sér stað í kjölfar samningsgerðarinnar um hið Evrópska efnahagssvæði og ég held að rótin liggi einmitt í þessu.