Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 13:52:12 (1035)

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að gera athugasemd við ágæta og athyglisverða ræðu hv. 10. þm. Reykv. Hann kom inn á atriði sem snerta sjálfa tilurð Evrópubandalagsins sem hann skilgreindi sem svo að þar væri í raun og veru réttur, sem tilheyrði hópum, stéttum og þjóðum, að hverfa. Þetta er athyglisverð skoðun og á vafalaust talsverðan rétt á sér. Ég skynja þetta svolítið öðruvísi. Mér finnst bæði af því sem við höfum orðið vitni að og einnig af viðræðum mínum við aðila sem hafa lifað við þetta kerfi nokkuð lengi að bandalagið sé að vissu leyti bandalag fyrirtækja og einstaklinga, ekki gegn þjóðmenningu heldur frekar gegn ríkisvaldi. Þessi stefna endurspeglast raunar í mörgum tilskipunum sem eru á vissan hátt mótsagnakenndar. Jafnvel í sömu tilskipuninni koma fram fyrirmæli um að það eigi að samræma reglur um viðskipti en jafnframt koma fram fyrirmæli um að það eigi að styrkja þjóðmenningu, einkum og sér í lagi fámennra þjóðabrota. Og þetta endurspeglar það að ríki innan Evrópubandalagsins eru ekki alltaf þjóðmenningarríki. Innan þessara ríkja eru kannski þrjú þjóðmenningarbrot. Það er þetta ríkjaskipulag í Evrópu sem hefur skapað óöryggi í Evrópu öldum saman, leitt til stórkostlegra átaka í álfunni og það er gott fyrir okkur að hafa það í huga að Evrópubandalagið er gert til þess að draga úr þessari óvissu burt séð svo frá því hvaða pólitísk þróun á sér stað og hvaða ágreiningur á sér stað innan Evrópubandalagsins um á þá þróun.