Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 13:54:43 (1036)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef svo sem kannski engar sérstakar skoðanir á því hvort Evrópubandalaginu og reglugerðum þess og samþykktum sé beint gegn þjóðmenningunni eða ekki. Ég veit að að mörgu leyti hefur orðið vakning t.d. í Danmörku á menningarsviðinu og Danir áttað sig betur á því þegar þeir standa andspænis þessari ögrun og þessu mikla veldi að þeir verða að standa sig á menningarsviðinu og þeir verða að skynja sig sem þjóð í gegnum sína menningu og þeir hafa kannski farið að passa þá hluti. En það sem ég er að tala um er réttarstaðan, ég er að tala um réttindi einstaklinganna, rétturinn er orðinn bundinn við einstaklinginn, hann tilheyrir einstaklingnum. Ekki einstaklingnum sem hluta af þjóð eða sem hluta af verkalýðsfélagi eða sem hluta af einhverri heild heldur á einstaklingurinn bara réttinn. Ég er ekki að segja að þetta sé endilega bara Evrópubandalagsfyrirbæri. Þetta er þróun sem er í gangi núna og við sjáum hana hér á Íslandi. Ég sé hana hér á þingi í því sem hér er verið að gera. Þessi sama tilhneiging er komin hér upp. Einstaklingurinn á bara sinn rétt. Það er t.d. hans að passa upp á það að barnið hans fái almennilega kennslu. Hann á engan rétt á því, hann þarf að passa alla þessa hluti þannig að það sé ekkert frá honum tekið. Og þetta er mjög einkennandi. Við erum hætt að hugsa um okkur sem heild sem þarf að passa upp á hlutina sameiginlega heldur á bara hver og einn að passa upp á sitt. Og ég held að þetta sé að hluta til komið frá Efnahagsbandalaginu og sé þegar búið að smita yfir á okkar samfélag hér, en ég get kannski ekki nákvæmlega staðsett hvar uppruninn er á þessari tilhneigingu.