Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 13:56:34 (1037)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins að hnykkja frekar á tveimur atriðum sem komu fram í ræðu hv. 10. þm. Reykv. Það fyrra var einmitt þetta með einstaklingsbundnu réttindin sem eru svo ríkjandi í Evrópu ólíkt því sem er hér á Norðurlöndunum þar sem menn sækjast og verjast í skjóli samtaka og löggjöf miðast við að menn geti varið sig og sótt með þeim hætti. Sem dæmi um þetta einstaklingseðli eru, í Frakklandi bundið stjórnarskrá, einstaklingsbundin réttindi til að fara í verkfall, ekki samtakabundin sem þýðir einfaldlega að menn verða að sækja réttindi sín fyrir almennum dómstólum en ekki í skjóli samtaka eins og launþegasamtaka.
    En það var mjög athyglisvert að minna á hvernig íslensk lög munu líta út verði þetta samþykkt eins og hv. ræðumaður gerði. Hvernig munu þessi íslensku lög hefjast? Þau munu hefjast á þessu: ,,Reglugerð ráðsins (EBE)`` og síðan ,,Ráð Evrópubandalaganna hefur með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalags Evrópu, einkum 49. gr.`` Þannig munu íslensk lög hefjast. Þetta er alveg makalaus lagasetning.