Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 14:54:20 (1050)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það að orð hæstv. félmrh. við ræðu hv. 4. þm. þm. Suðurl. hafa ekki breytt mínum skoðunum á því hvernig beri að túlka kröfuna um tungumálakunnáttu. Það kom ekkert það fram sem hrakti þau rök sem ég setti fram í mínu erindi.
    Ég vil aðeins bæta því við, virðulegi forseti, vegna skoðanaskipta um skilgreininguna á opinberum störfum, að ráðherra hefur lýst því yfir að það sé á okkar valdi að skilgreina það. Ég óskaði eftir því síðasta sumar að við fengjum lista yfir þessi opinberu störf. Það ætti að vera handhægt að útvega hann fyrst það er á okkar valdi að skilgreina. Hann er ekki kominn enn. Meira að segja fáum við þau svör að af þeim má ráða að það verður nokkuð langt í að sá listi verði til.