Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 14:57:16 (1052)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef hér hvað eftir annað reynt að svara þeim spurningum sem fram hafa komið varðandi opinbera starfsmenn og reynt að svara þeim eins og kostur er, eins og hægt er í þessari stöðu. Ég get raunverulega ekki svarað þeim betur en ég hef hér gert. Ég tel að hv. þm. sé hér að vitna til þess sem ég svaraði áður varðandi ríkisfangið og hvort það sé nauðsynlegt að breyta lögum varðandi þetta. Ég setti fram mína skoðun í þessu efni en tók jafnframt fram að þetta er mál sem heyrir undir fjmrh. Að mínum dómi er ekki ástæða til að gera þessa kröfu eða breyta þessu. Það er mín skoðun á málinu þó að vissulega þurfi að búa svo um hnútana að þeir erlendu ríkisborgarar, sem verða ráðnir í opinber störf, njóti sömu réttinda, m.a. biðlauna. Ég get því miður ekki svarað þessu nánar en ég hef hér gert.