Hópuppsagnir

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 15:08:05 (1054)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Ég skal hafa þetta örstutt. Það þarf ekki margt um frv. að segja. Það er eftir því sem mér sýnist ekki flókið og hið ágætasta mál.
    Ég ætla hins vegar að spyrja aðeins út í tengsl 6. gr. frv. við aðrar greinar þess og ég ætla að spyrja hvernig á því standi að hún hafi ekki bara verið prjónuð inn í 1. gr. frv. Í 6. gr. segir:
    ,,Leiði ráðgerður samdráttur eða aðrar ráðgerðar breytingar í fyrirtæki til uppsagnar fjögurra eða fleiri starfsmanna er atvinnurekanda skylt að tilkynna uppsagnir til vinnumálaskrifstofu félmrn. og viðkomandi verkalýðsfélags með tveggja mánaða fyrirvara.``
    Þarna er með öðrum orðum verið að tala um ákveðið samráð við vinnumálaskrifstofuna og að láta hana vita án þess að nokkurt sérstakt ferli fari kannski í gang. Það er verið að taka þetta upp úr lögum nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála. Þar er þetta ákvæði inni og er tekið þarna upp. Mér finnst þetta verða hálfgerður hortittur inni í lögunum og hefði verið nær að prjóna þetta inn í 6. gr. og hafa þá a-liðinn þannig að a.m.k. fjórir starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa fleiri en 20 starfsmenn og færri en 100 starfsmenn í einu. Ég segi þetta vegna þess að þó að samþykkt Efnahagsbandalagsins sé á þá lund að það er

spurning um að segja upp tíu starfsmönnum megum við hafa réttinn meiri. Við megum bara ekki hafa 20 manns þarna. Við verðum að hafa lágmark tíu. Við gætum haft fjóra. Mér finnst það spurning af hverju þetta er bara ekki prjónað saman.
    Í öðru lagi vil ég spyrja hvernig á því standi varðandi 5. gr. að b-liðurinn er ekki útskýrður í greinargerð með frv. Það er talað um að ákvæði 1.--4. gr. gildi ekki um:
  ,,a. uppsagnir sem koma til framkvæmda samkvæmt ráðningarsamningum sem gerðir eru til ákveðins tíma . . .  
    b. áhafnir skipa``.
    Ég vil fá nánari útskýringar á því af hverju þessi uppsagnarákvæði ná ekki til áhafna skipa.
    Í þriðja lagi vil ég benda á varðandi 7. gr., þar sem segir að lög þessi öðlist gildi um leið og samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði öðlist gildi að því er Ísland varðar, að mér finnst þetta óþarfi. Mér finnst þetta ágæt lög og alveg athugandi, hvort sem samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði verður gerður eða ekki, að þá öðlist þessi lög gildi, að við meðhöndlum þau bara sérstaklega. Það má a.m.k. fyllilega skoða það.