Vinnumarkaðsmál

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 15:24:23 (1057)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Erindi mitt í pontu núna er einungis að spyrja um eitt tiltekið atriði í frv. Það varðar III. kafla frv., sem er um breytingu á lögum um starfskjör launafólks o.fl., nr. 55/1980, með síðari breytingum. Þar er verið að bæta því inn í þau lög, ef ég hef skilið það rétt, að laun og önnur starfskjör sem samtök vinnumarkaðarins semja um skuli vera lágmarkskjör og síðan er bætt við setningunni: Óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma. Það er nýlundan í lögunum, ef frv. verður samþykkt, að laun og önnur starfskjör skuli greiðast óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma. Og í almennum athugasemdum við III. kafla er sagt frá því að komið hafi í ljós að ákvæði íslenskra laga um launajafnrétti kynjanna þyki, eins og segir hér a.m.k., að dómi þeirra er fjalla um félagssáttmála Evrópuráðins ekki nógu afdráttarlaus.
    ,,Efni tilskipana nr. 76/207/EBE, um framkvæmd meginreglna um jafnan rétt karla og kvenna til vinnu, starfsþjálfunar, stöðuhækkana og starfsaðstæðna, og nr. 75/117/EBE, um samræmingu löggjafar aðildarríkjanna að þeirri meginreglu að konur og karlar hljóti jöfn laun, þarf að vera fyrir hendi í íslenskum lögum og þykir eðlilegra að gera það í lögum er ná til vinnumarkaðarins fremur en í lögum um jafnrétti kynjanna.`` Ég hlýt að verða að spyrja ráðherra að því að hvaða leyti orðalag 5. gr. laganna er afdráttarlausara en ákvæði gildandi jafnréttislaga þar sem laun og starfskjör eru skilgreind mjög nákvæmlega. Það hefur m.a. verið vandinn í baráttunni fyrir launajafnrétti kynjanna að menn hafa alltaf einhvern veginn smeygt sér fram hjá. Fyrst áttu það að vera sömu laun fyrir sömu vinnu. Síðan kom sömu laun fyrir sambærileg störf og síðan dugði það ekki og þá kom sömu laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Það er því alltaf verið að reyna að ná utan um launajafnrétti, hvernig beri að tryggja það og hvernig beri

að skilgreina hugtökin og að því er mér sýnist vantar ekkert upp á skilgreininguna á launamálunum í jafnréttislögunum. Það segir nefnilega í 4. gr, með leyfi forseta:
    ,,Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.`` --- Og svo byrja skilgreiningarnar:
    ,,Með ,,jöfnum launum til karla og kvenna fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf`` er í lögum þessum átt við launataxta sem settir eru án þess að gerður sé greinarmunur á kynjum.
    Með ,,kjörum`` í lögum þessum er átt við lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur samningsréttindi.``
    Síðan segir í 5. gr.:
    ,,Atvinnurekendum er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. varðandi:
    1. Laun, launatengd fríðindi og hvers konar aðra þóknun fyrir vinnu.
    2. Ráðningu, setningu eða skipun í starf.
    3. Stöðuhækkun og stöðubreytingar.
    4. Uppsögn úr starfi.
    5. Vinnuaðstæður og vinnuskilyrði.
    6. Veitingu hvers konar hlunninda.``
    Ég fæ því ekki betur séð en í núgildandi jafnréttislögum séu hlutirnir nánast skilgreindir í botn. Samt kemur fram að eitthvað vanti upp á að ákvæði íslenskra laga séu nógu afdráttarlaus en ég fæ ég alls ekki séð hvernig 5. gr. laganna um starfskjör launafólks gerir þau eitthvað afdráttarlausari. Hvaða trygging felst í þessu orðalagi ,,fyrir konur``, ,,fyrir fólk af öðru þjóðerni en íslensku`` og ,,fólk sem kemur hér tímabundið til vinnu``. Um þetta vildi ég spyrja, virðulegur forseti.