Vinnumarkaðsmál

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 15:41:28 (1061)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Svarið við spurningu síðasta ræðumanns er nei.
    Varðandi fyrirspurn frá 5. þm. Vestf. um þá tillögu sem hann nefndi að væri í vinnslu hjá EB þá er það mitt mat að hún verði ekki samþykkt. Það er mitt mat að Norðurlöndin t.d. mundu ekki samþykkja það og hér mundi verkalýðshreyfingin ekki fallast á slíka tillögu þannig að ég hef enga trú á að hún yrði að veruleika.
    Varðandi fyrirspurn 1. þm. Norðurl. e. um undirboð vegna verktaka sem hugsanlega kæmu hingað, að um væri að ræða undirboð í launum, þá hefur mikið verið legið yfir því í ráðuneytinu með aðilum vinnumarkaðarins sem undirbúið hafa öll þau frv. sem lögð hafa verið hér fram og tengjast vinnumarkaðnum. Einmitt í því skyni að koma í veg fyrir slíkt er sett upp sú sérstaka nefnd sem á að hafa eftirlit með framkvæmd laganna og ráðningarsamningum og fleiri atriðum. Þessi nefnd hefur mjög víðtækt umboð og getur leitað eftir upplýsingum hjá stofnunum, fyrirtækjum og samtökum einmitt varðandi ráðningarkjör og það er óheimilt að greiða lægri laun heldur en hér gilda sem lágmarkslaun. Þannig að ég hygg að sú hætta ætti ekki að vera fyrir hendi.
    Varðandi jafnréttismálin sem hv. 10. þm. Reykv. nefndi þá var það mjög rætt hvort ástæða væri til að herða á ákvæðum jafnréttislaga vegna aðildar okkar að EES-samningnum. Flestir voru á því að það væri óþarfi að herða að nokkuð að varðandi þau lagaákvæði sem við búum við í jafnréttismálum. Þó varð það niðurstaðan, þó það væri ekki nauðsynlegt, að gera þetta ótvíræðara og herða á í lögunum um starfskjör launafólks o.fl., nr. 55/1980, með síðari breytingum, sem hér eru sett inn í III. kafla, með því að bæta við þeim orðum sem þar koma fram, að laun og önnur starfskjör sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um skuli vera lágmarkskjör óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma.