Upplýsingamiðlun og aðgangur að upplýsingum um umhverfismál

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 16:01:29 (1066)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Hér hefur hæstv. umhvrh. mælt fyrir frv. til laga um upplýsingaskyldu í tengslum við umhverfismál og er það hluti af því sem fram mun koma í þinginu í sambandi við Evrópskt efnahagssvæði. Af tilefni þessa frv., sem er fyrsta frv. sem hæstv. ráðherra mælir fyrir, vil ég segja nokkuð um viðhorf mitt til samningsins um Evrópskt efnahagssvæði í samhengi við umhverfismálin sem eru til umræðu, en fjalla síðan um nokkur atriði sérstaklega í því frv. sem hæstv. ráðherra hefur hér mælt fyrir.
    Ég tel nokkurn ágalla á þessari umræðu um samninginn að einstakir ráðherrar aðrir en hæstv. utanrrh. hafa lítið komið inn í umræðuna um samninginn sjálfan. Kannski hefur þeim ekki fundist að beint tilefni væri til þess. Hins vegar koma þeir einn af öðrum og mæla fyrir frv. á sérsviðum sínum sem tengjast málaflokki ráðuneyta þeirra og sem undirbúin hafa verið í ráðuneytum þeirra. Þetta er auðvitað góðra gjalda vert svo langt sem það nær, en ég sakna þess verulega að hæstv. umhvrh. skuli ekki af tilefni þessa frv. eða þeirrar umræðu sem hér fer fram um frv. um umhverfismál fara nokkrum orðum almennt um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði í sambandi við umhverfismálasviðið. Það er auðvitað það sem skiptir meginmáli þegar við erum að ræða um þennan stóra málaflokk, umhverfismálin, að reyna að átta okkur á því hvernig þau tengjast þessum samningi sem er lagður fyrir þingið til staðfestingar. Það hefur kannski mjög takmarkað gildi að fjölyrða um einstök frv. sem síðan eiga eftir að fara til skoðunar í nefndum. Í rauninni er miklu meira virði að fá svolítið almenna umræðu um samninginn með tilliti til umhverfismálanna.
    Ég gerði tilraun til þess í ræðu sem ég flutti um frv. til laga um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði að setja hann í samhengi við umhverfismálin og það getur orðið til þess að ég stytti hér mál mitt og vísi til þeirrar ræðu þar sem þetta var verulegt atriði í máli mínu að leggja mat á samninginn með tilliti til umhverfismálanna.
    Í rauninni er það svo að okkur ber skylda til þess á Alþingi að líta á öll mál sem hér eru borin fram og tengjast umhverfismálum með einhverjum hætti út frá sýn okkar til þessa málaflokks og hvernig við teljum að taka beri á honum, hvernig beri að þróa hann og samfélagið með tilliti til þess ramma sem umhverfistakmarkanir og umhverfismálin almennt setja. Allt of lítið ber á umræðu um mál á Alþingi Íslendinga út frá þessu sjónarhorni enn sem komið er. Þó er trú mín að það eigi eftir að breytast á komandi árum. Það þarf að breytast mjög verulega að mínu mati vegna þess að umhverfismálin eru mestu alvörumál tíma okkar og framtíðar, hvernig tekst að þróa samfélag hér á landi og alþjóðlega, þ.e. í öðrum löndum, og virða þær takmarkanir sem umhverfi jarðar og umhverfi hvers lands setur okkur ef við ætlum að tryggja viðunandi þróun, viðunandi umhverfi og viðunandi kjör fyrir óbornar kynslóðir.
    Við vorum nokkur frá Alþingi Íslendinga sem sátum umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í Brasilíu í júnímánuði á þessu ári. Það var vettvangur þar sem umhverfismálin voru tilefnið í mjög víðu samhengi og í tengslum við þróunarmál, þróun og baráttu við fátækt í þeim hluta heimsins þar sem menn eru á eða undir fátæktarmörkum. Hæstv. umhvrh. sat þennan fund og inn á þennan vettvang komu svokallaðir leiðtogar frá 118 þjóðlöndum. Aldrei hefur sést slíkur mannsöfnuður af efstu þrepum í forustu þjóðanna eins og á þessari ráðstefnu í Ríó. Það er vonandi að þau efni sem þar voru rædd, þau orð sem þar féllu í alvöru um umhverfismálin og þær yfirlýsingar sem þar voru gefnar þótt takmarkaðar væru, eigi eftir að endurspeglast í orðum og gerðum þegar kemur til umfjöllunar á þjóðþingum landanna og í svæðisbundnum samtökum ríkjanna þar sem þessi mál ber á góma. En ég el nokkurn ugg í brjósti að heitstrengingarnar og fögru orðin frá Ríó eigi eftir að daprast, flug þeirra eigi eftir að daprast og andinn þaðan að kulna í hversdagslegri umræðu og umfangsefnum á vettvangi þeirra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna, 180 talsins eða u.þ.b., sem þarna áttu fulltrúa. Nú ætla ég ekki að fara langt inn á þennan vettvang en ég minni á þetta af tilefni þessarar umræðu um frv. um umhverfismál sem tengjast samningnum um Evrópskt efnahagssvæði.
    Þá er að koma að því sem varðar samninginn og markmið hans litið í gegnum gleraugu umhverfismálanna á það efni og reynt að setja mælistiku þeirra krafna sem við viljum leggja varðandi þróun umhverfis og þeirra gæða sem því tengjast í samhengi við þennan samning. Þá liggur fyrir í fyrsta lagi að markmið innri markaðarins, sem er efni samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, það er í rauninni kjarni hans og meginefnið þannig að allt annað skiptir þar litlu máli nema þær skerðingar og höft og bönn sem lögð eru á þjóðirnar í sambandi við þetta og skerða sjálfsákvörðunarrétt þeirra.

    Samningurinn og fjórfrelsið sem megininntak hans mun gera stöðu umhverfismála á svæðinu, sem samningurinn spannar yfir, ef staðfestur verður, lakari til verulegra muna á heildina litið og gera það örðugra í framtíðinni að fást við þessi efni og færa þau til þeirrar áttar sem áherslur eru þó uppi um í hátíðlegum ræðum og á sérfundum um umhverfismál. Til þess að þetta verði ekki lagt út sem einber einsýni, jafnvel ofstæki, eins og stundum heyrist brenna við þegar formælendur þessa samnings eru að leggja mat á aðvaranir af hálfu okkar sem mælum gegn staðfestingu samningsins, þá vil ég vísa til nokkurra atriða sem tengjast þessu.
    Fjórfrelsið felur í sér óhefta flutninga eða tilfærslu á vörum, fyllra svonefnt frelsi á þessu sviði en áður hefur verið --- jafnvel innan ramma fríverslunarsamninga milli EFTA og Evrópubandalagsins --- og óhefta flutninga á fólki, á fjármagni og þjónustustarfsemi. Yfirlýst markmið með þessum breytingum er að auka hagvöxt í hefðbundnum skilningi umfram það sem ella næðist fram. Það er þó þessi efnahagsstarfsemi með síaukinni framleiðslu, orkunotkun, sem hún hvílir á, og neyslu sem hefur leitt af sér umhverfisvandamál sem eru farin að ógna tilvist lífs á jörðinni og setja frekari efnahagsvexti skýr takmörk. Sigling eftir því hefðbundna spori sem EES-samningurinn gerir ráð fyrir mun því óhjákvæmilega magna þessi vandamál og það á einnig við um hliðstæða þróun annars staðar í heiminum.
    Þróunin innan Evrópubandalagsins og innan boðaðs Evrópsks efnahagssvæðis eru liður í harðnandi samkeppni helstu viðskiptablokka í heiminum. Afleiðingar þeirra átaka munu magna enn frekar andstæður milli ríkra þjóða og fátækra, milli norðurs og suðurs. Ég vék að því áðan að eitt af meginviðfangsefnum ráðstefnunnar í Ríó var einmitt að fjalla um þá miklu og breikkandi gjá sem er á milli fátækra þjóða og velmegandi þjóða.
    Fjórfrelsið, þ.e. hinn óhefti markaður án tillits til þjóðernis og landamæra þjóðríkja í Evrópu, er grundvöllur samningsins og er kveðið ákvarðandi á um það í samningnum sjálfum og bókunum og viðaukum sem honum fylgja. Ákvæðin sem varða umhverfismál er að finna í fáeinum óskuldbindandi yfirlýsingum í formála samningsins og í ákvæðum samkvæmt 73. gr. hans og í 20. viðauka skv. 74. gr. sem og takmörkuðum öryggisráðstöfunum sem gert er ráð fyrir skv. 112.--114. gr. Möguleikar fyrir framsækna stefnu í umhverfismálum verða afar takmarkaðir samkvæmt samningnum og að sama skapi er þrengt að svigrúmi aðildarríkja til sjálfstæðrar stefnumörkunar í umhverfismálum. Kröfum EFTA-ríkjanna um varanlegar undanþágur að því er snertir umhverfismál var nær öllum hafnað eins og raunar kröfum um undanþágur á öðrum sviðum. Umhverfissjónarmiðum var líka í afar takmörkuðum mæli haldið til haga í samningaviðræðunum af hálfu EFTA-ríkjanna þar sem efnahagslegir þættir sátu í fyrirrúmi. Það gerðist einmitt á hinum sameiginlega vettvangi EFTA-ríkjanna að sjónarmið þeirra í milli að því er snertir viðhorf og kröfur til umhverfismálanna voru býsna ólík. Og auðvitað var það hinn minnsti samnefnari sem að lokum varð þar ráðandi vegna þess að þau einsettu sér og voru skuldbundin til þess samkvæmt samningsrammanum að tala einum rómi við Evrópubandalagið. Útkoman varð síðan eftir því.
    Til friðþægingar fyrir EFTA-ríkin og til þess að gera þeim kleift að reyna að breiða yfir veruleikann í þessum efnum var tekið inn svohljóðandi ákvæði í 75. gr. samningsins:
    ,,Verndarráðstafanir sem um getur í 74. gr. eru því ekki til fyrirstöðu að einstakir samningsaðilar láti strangari verndarráðstafanir halda gildi sínu eða grípi til þeirra enda samrýmist þær samningi þessum.``
    Með þessum síðustu orðum ,,enda samrýmist þær samningi þessum`` í þessari 75. gr. er undirstrikaður forgangur fjórfrelsisins, hins frjálsa vöruflæðis sem er umhverfiskröfunum og umhverfissjónarmiðunum æðri bæði í samningnum sjálfum og þá einnig sem réttargrundvöllur ef reynir á gagnvart dómstólum. Þetta er hin alvarlega staða máls. Orð sem snerta sjálfbæra þróun, varúðarregluna og annað þess háttar eru sett fram í inngangsorðum samningsins sem er óskuldbindandi með öllu, fögur orð, aðfararorð, en ekki hluti af bindandi greinum og reglum samningsins.
    Hin almenna stefna, sem samningurinn hvílir á, mun ekki síst leiða af sér vaxandi orkunotkun, aukið álag á aðrar náttúruauðlindir og vaxandi notkun tilbúinna efna í framleiðslu. Þá lögleiðir samningurinn ákvæði Evrópubandalagsins á sviði líftækni sem eru afar umdeild út frá siðrænum viðhorfum og vegna ófyrirsjáanlegra afleiðinga sem þau geta leitt til í umhverfinu. Þetta svið líftækninnar er raunar sáralítið mótað hér á landi enn sem komið er en við erum með samningnum að yfirtaka reglur Evrópubandalagsins og lögleiða hér á landi á þessu stóra sviði sem getur orðið býsna afdrifaríkt til framtíðar litið.
    Nú er það svo að Evrópubandalagið sem vann að mótun innri markaðarins, sem við eigum að yfirtaka, á tímabilinu 1987 og árunum þar á eftir á grundvelli einingarlaganna horfði ekki með öllu fram hjá umhverfisþættinum. En það var býsna seint af stað farið að meta það því að það var ekki fyrr en árið 1989 sem Evrópubandalagið fékk greinargerð frá sérstökum starfshópi eða Task Force sem settur var á laggirnar til að meta áhrif innri markaðarins á umhverfismál á svæðinu. Niðurstaða þessa starfshóps, þessa Task Force EB varð sú varðandi aðalstærðir og aukin áhrif, mengun og annað þess háttar sem hefur áhrif á umhverfið, að líkur væru á að samningurinn og innri markaður EB --- þeir voru að leggja fyrst og fremst mat á hann innan EB-svæðisins, ekki að viðbættu EFTA --- leiddi fram til ársins 2010 til aukinnar mengunar sem næmi 12--14% af köfnunarefnisoxíðum, 8--10% af brennisteinsdíoxíði og 20% af koldíoxíði. Og þetta

eingöngu sem viðbót ekki vegna þess sem yrði að óbreyttu heldur vegna þeirra breytinga sem gera mætti ráð fyrir sem afleiðingar af samningnum. EES-samningurinn sem bætir EFTA-ríkjunum við innri markað Evrópubandalagsins, ef staðfestur verður, mun gera þessa þróun enn óhagstæðari. Meðal sviða þar sem innri markaðurinn og Evrópskt efnahagssvæði munu hafa óhagstæð áhrif að því er varðar aukna mengun og aðrar hættur fyrir umhverfið en þau eru vissulega mörg, nefni ég hér sérstaklega eftirtalin svið:
    Samgöngusviðið. Þeir þættir sem snerta það koma ljóslega fram í deilunum um aukna umferð gegnum Alpana. Deilurnar sem vörðuðu fyrst og fremst Sviss og Austurríki EFTA-megin í sambandi við samninginn.
    Það eru orkumálin og hin vaxandi orkunotkun sem aukin efnahagsumsvif, samkeppni og aukin efnahagsstarfsemi og hagvöxtur mun hafa í för með sér og er ný EB-löggjöf í undirbúningi þar sem ráðgert er að skilgreina orku sem vöru og opna fyrir óhefta samkeppni á orkusviðinu. Þetta getur m.a. ýtt undir kjarnorku sem orkugjafa í mun ríkara mæli heldur en verið hefur til þessa.
    Þá er það úrgangurinn, m.a. úrgangur hættulegra efna og umbúða, sem tilhneiging er til að skilgreina sem vöru og opna þannig fyrir óhefta flutninga milli landa. Þetta getur m.a. átt við um geislavirkan úrgang. Þetta hefur einmitt verið að kristallast í nýlega föllnum dómi sem Evrópudómstóllinn í Lúxemborg fjallaði um í máli sem sótt var gegn Valonia í Belgíu sem ætlaði að hindra innflutning til sín á úrgangi, m.a. hættulegra efna, og beita lögum og rétti í Belgíu í því sambandi.
    Niðurstaða dómstólsins sem ekki hefur enn þá fengist þýdd á önnur mál en frönsku síðast þegar ég frétti og ég hef aðeins fengið útdrætti úr þessum dómi, en aðalatriðin virðast þau að að því er varðar hættulegan úrgang alveg sérstaklega, þá er löndunum ekki leyfilegt að setja skorður við flutningi og samningum um meðferð og eyðingu eða meðhöndlun slíks úrgangs innan svæðisins, en með venjulegt sorp og úrgang af því tagi geti þjóðarreglurnar fengið að gilda og menn geta komið vörnum við með einhverjum hætti.
    En þetta á líka við um umbúðasviðið sem nú er einnig tilhneiging til að skilgreina sem vöru og opna þannig fyrir óhefta flutninga milli landa. Í sambandi við umbúðasviðið er það athyglisvert að þar hefur ekki minna ríki í Evrópubandalaginu en Þýskaland, rekið sig á það á undanförnum missirum að umhverfisráðherra Þýskaland, Töpfer minnir mig hann heita, er ekki heimilt að setja og þróa löggjöf varðandi umbúðir og skil á umbúðum eins og búið er að móta og leggja fyrir Bundestag í Þýskalandi vegna þess að það rekst á forskriftirnir frá Brussel. En þarna voru uppi hugmyndir, mjög athyglisverðar, róttækar miðað við stöðuna í dag --- vonandi verða það ekki róttækar tillögur eftir einhvern tíma ef menn ná áttum --- þess efnis að framleiðendum vöru sé skylt að taka við umbúðum til baka og sjá um eyðingu þeirra. Þetta er stöðvað vegna regluverksins frá Brussel. Það samræmist ekki reglum fjórfrelsisins um óheftan flutning á þessari afurð, þessari vöru: umbúðir.
    Síðan eru það aukefni í matvælum og tilbúnum efnum þar sem skilgreiningar og kröfur Evrópubandalagsins eru til muna veikari en í ýmsum EFTA-ríkjum, t.d. í Noregi, þar á meðal varðandi hættuleg efni sem talið er að geti valdið krabbameini. Spurningin er sem sagt um heimildir til að nýta slík efni í framleiðslu og dreifa þeim óhindrað. Ég hef minnst á líftæknina og það stóra svið þar sem EFTA-ríkjunum er gert að yfirtaka þrjár tilskipanir EB á því sviði um notkun, dreifingu og einkaleyfi á uppfinningum á líftækniafurðum.
    Umfjöllun íslenskra stjórnvalda til þessa að því er varðar umhverfis- og félagslega þætti EES-samningsins hefur verið næsta handahófskennd og yfirborðsleg. Af skýrslum og greinargerðum sem m.a. Alþingi hefur fengið frá umhvrn. mætti ætla að áhrifin væru að flestu leyti hagstæð af þessum samningi. Á nokkrum sviðum þyrfti að setja ný lög og endurskoða lagaákvæði til að uppfylla ákvæði samningsins og þar væri um jákvæð atriði að ræða. Vissulega erum við að ræða hér eitt slíkt frv. sem vart getur verið ágreiningur um að horfi til betri áttar almennt séð þó þar megi ýmsar athugasemdir við gera varðandi ákvæði frv. í einstökum atriðum.
    Hins vegar er það mjög athyglisvert að íslensk stjórnvöld knúðu í tengslum við EES-samninginn eftir því að fá undanþágu á þýðingarmiklum sviðum sem varða tilskipanir Evrópubandalagsins varðandi m.a. úrgangsefni, skolp, fráveitur og þess háttar, þætti sem snúa að sveitarfélögum í landinu sem síðan hefur gleymst að fjalla um við sveitarfélögin. Því hefur nánast ekki verið gerð nein viðhlítandi skil með hvaða hætti eigi að framkvæma innan þess aðlögunartíma sem um er samið sem mig minnir vera til 1995 eða 1996, en þar sem vissulega er um stórar upphæðir að ræða en þrifamál vissulega þar sem við þurfum að taka okkur á alveg óháð Evrópsku efnahagssvæði. Það gildir raunar um allt það sem lýtur að umhverfismálunum í einstökum atriðum að auðvitað er það málaflokkur sem við eigum að taka á og þróa út frá okkar aðstæðum og auðvitað miðað við alþjóðlega þróun af fremsta megni. Það er engin spurning.
    Ég er alls ekki að vanmeta það sem frá hæstv. iðnrh. hefur komið í formi skýrslna eins og sl. vor inn á Alþingi um þetta efni en það náði bara mjög skammt og það var ekki tekið það sjónarhorn á samninginn sem vera ber þegar menn eru að líta á hann í samhengi við áhrifin á umhverfið. Þar verðum við að varðveita heildarsýn en ekki líta á einstök minni háttar mál. Það er mjög athyglisvert að einmitt núna

þessa síðustu mánuði eru að hrannast upp neikvæðar vísbendingar, fyrirstaða innan Evrópubandalagsins varðandi ýmis atriði sem hafa þótt vísa til réttrar áttar. Það er t.d. farið að hóta Dönum núna í sambandi við einnota ölflöskur, eitt af því sem oft hefur verið reitt fram sem dæmi um að hægt sé að semja sig frá reglum og það sé ekki alltaf sem dómstólar dæma umhverfinu í óhag. En einnig það mál er nú í uppnámi samkvæmt fréttum sem ég hafði fyrir nokkrum vikum af því sviði. Ég hef nefnt Þýskaland og umbúðirnar sem dæmi. Þau eru mörg fleiri, það er bara spurning hvar gripið er niður.
    Ef litið er til EFTA-ríkjanna þá er af nógu að taka varðandi líkleg áhrif. Ég greip hérna eitt dæmi sem er úr Aftenposten frá 1. sept. sl. sem varðar nýjar reglur um umhverfismerkingar. Þar hefur Evrópubandalagið sett sína staðla, sínar reglur, sín ,,dírektív`` varðandi umhverfismerkingar og norska umhverfismálastofnunin, Statens forurensningstilsyn, var búin að þróa sínar reglur að þessu leyti. Þegar farið er að bera þetta saman þá rímar það ekki. Þá ganga reglurnar, sem Statens forurensningstilsyn hafði mótað á þessu sviði og ætlað að fara að ganga frá, allt of langt og verður að breyta og draga úr því sem fyrirhugað var á þessu sviði í Noregi. Þetta er aðeins eitt lítið dæmi af fjölmörgum sem tína mætti til í þann stóra poka.
    Ég vísaði til þess við umræðu um samninginn að það væri fjallað um þessi efni og margir hefðu áhyggjur í Evrópu um innri markaðinn í tengslum við umhverfismálin. Ég vísaði þar m.a. í sérrit sem fréttatímaritið Der Spiegel gaf út fyrr á árinu, í apríl sl., um áhrif Evrópu án landamæra, áhrif innri markaðarins. Heitið á þessari útgáfu segir nokkuð um innihaldið, það nægir ekki eitt, það þarf að lesa það líka, en heitið er ,,Umhverfið í uppnámi`` --- ,,Alarm für Die Umwelt`` sem áhrif af Evrópu án landamæra í formi innri markaðarins. Ég hvet hæstv. umhvrh. til að kynna sér þetta efni ef hann hefur ekki þegar gert það. Hann er fjöllesinn maður og hefur væntanlega kynnt sér það. Ég hvet hann sem og aðra sem eru að líta á þessi mál í samhengi umhverfismálanna á sérstaka úttekt sem náttúruverndarsamtök Noregs, fjölmennustu náttúruverndarsamtök þarlendis, má ég fullyrða og sem standa á gömlum merg, það eru hin klassísku náttúruverndarsamtök Noregs, þau hafa gert sína úttekt á EES-samningnum og var hún gefin út í mars sl. Þessi bók heitir ,,Hard start og hard landing --- En miljøpolitisk analyse af EØS-aftalen`` á norsku og þar er að finna mjög dapra dóma yfir þessum samningi.
    Norræn umhverfissamtök funduðu hér á Íslandi ekki alls fyrir löngu, fyrir fáum vikum, og að ég held hittu þau umhvrh. að máli og ræddu m.a. þessi mál á blaðamannafundi og við umhvn. Alþingis en þau komu á fund hennar snemma í september. Þau höfðu gert ályktun um þessi efni, hún liggur því miður ekki fyrir þýdd á íslensku, hún er aðeins á norrænu máli en liggur fyrir. Í henni er lýst mörgum áhyggjum í tengslum við EES-samninginn og geta menn kynnt sér þetta efni sem vilja fara ofan í saumana á þeim málum.
    Íslensk umhverfissamtök hafa fjallað um þetta, ég gríp í það sem er mér nokkuð nærtækt, þ.e. Náttúruverndarsamtök Austurlands fjölluðu um þetta mál á aðalfundi sínum 23. ágúst sl. og gerðu um það stuttorða samþykkt sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Aðalfundur NAUST 1992 lýsir þungum áhyggjum vegna fyrirliggjandi samnings um Evrópskt efnahagssvæði og afleiðinga hans fyrir umhverfismál hérlendis og í alþjóðlegu samhengi. Sá hagvöxtur sem ætlunin er að ná með samningnum mun valda aukinni mengun og torveldara verður fyrir einstök ríki að marka sér framsækna stefnu í umhverfismálum. Sérstaklega varar fundurinn við þeirri hættu að útlendingar geti á grundvelli samningsins náð ítökum í auðlindum lands og sjávar og í atvinnurekstri, m.a. í ferðaþjónustu sem varðar mjög umgengni við landið. Fundurinn hvetur alþingismenn til að athuga þau ákvæði EES-samnings sérstaklega er varða umhverfismál og yfirráð Íslendinga yfir landi og auðlindum.`` Þetta var samþykkt Náttúruverndarsamtaka Austurlands á nýlega höldnum aðalfundi um þetta mál.
    Virðulegur forseti. Ég vil ekki ganga frekar á tíma með því að fjalla um þetta mál svona í almennu samhengi þó þar sé af nógu að taka. Ég vænti að menn átti sig á áhyggjum mínum um þetta eins og þetta mál horfir til lengri tíma litið og ég tel okkur skylt að fara yfir þessi efni, einmitt horft til framtíðar.
    Ég vil þó bæta því við að það er að verða æ ljósara að það spor, sem efnahagsstarfsemi iðnríkjanna er á, fær ekki staðist til lengdar á mælikvarða umhverfismálanna með tilliti til takmarkana þeirra. Það eru ekki sættanleg sjónarmið að óbreyttu og það þarf mjög mikið að gerast til þess að þar náist sú sjálfbæra þróun sem er krafa dagsins af hálfu þeirra sem ræða um umhverfismálin þó að því miður nái þeir hinir sömu oft ekki til þess að fylgja því eftir á vettvangi stjórnmálanna og er þar þekktasta dæmið forsætisráðherra Noregs sem hefur beitt sér á alþjóðavettvangi mörgum öðrum fremur fyrir athugun og ályktunum varðandi umhverfismál, en á heimavettvangi þykir mönnum sem Gro Harlem Brundtland nái ekki að yfirfæra þær góðu áherslur á norsk stjórnmál.
    Nú vil ég engan veginn gera lítið úr því að hér er hægara sagt en gert. Hér er ekkert einfalt mál á ferðinni. Hér geta menn ekki beitt einhverjum hókus-pókusaðferðum. Hér þarf mjög mikið átak, mjög róttækar breytingar á efnahagsstarfsemi til þess að snúa frá þeim feigðarvegi og þeirri feigðarsiglingu sem hér er uppi.

    Það er nokkuð algengt í tengslum við þessa umræðu að stjórnmálamenn í Vestur-Evrópu vísi til þeirrar stöðu sem uppi var og er í Austur-Evrópu og segja: Þetta er nú harla gott hjá okkur miðað við ósköpin sem þar voru. Það er alveg rétt að staða umhverfismála og útkoman í þeim búskap, sem þar var þangað til undirstöður hrundu fyrir skömmu síðan, er Vestur-Evrópu vissulega í hag, litið á stöðuna í nútíð, en það breytir engu um hitt að horft til framtíðar þá gengur dæmið ekki upp. Það var auðvitað engin megineðlismunur á framleiðslustarfsemi hins ríkisknúða miðstýrða kerfis Austur-Evrópu og framleiðslustarfsemi iðnríkja þar sem fjölþjóðafyrirtækin eru ráðandi afl að því er snertir umhverfisþættina og áhrif. En auðvitað er skylt að læra af hvoru tveggja og líta á hvort tveggja í heild sinni og það getur tengst því frv. sem hæstv. umhvrh. mælir fyrir, sem ég vil taka undir almennt séð þó ég muni gera ýmsar athugasemdir við málið í nefnd. Ég tel að margt þurfi að skoða í þessu frv. áður en það kemur til afgreiðslu.
    Virðulegur forseti. Ég vil þá snúa mér að athugasemdum sem varða nokkrar greinar frv. og ég vil taka þær út frá því eins og það liggur fyrir. Það er varðandi 3. gr. og spurninguna um það ákvæði að upplýsingarnar sem veita ber samkvæmt frv. ná ekki lengra en til þess tíma sem lögfest er. Þetta er álitamál. Ég vil ekki segja að það sé hægt að kveða upp úr um það nákvæmlega í lögum til hve langs tíma megi seilast varðandi upplýsingar litið til baka, en ég tel að það þurfi að staldra við þetta ákvæði að því er snertir upplýsingaskyldu stjórnvalda.
    4. gr. er kannski sú grein þar sem spurningarmerkin eru flest. Þar eru heimildir til að synja beiðni um upplýsingar sem varða umhverfismál og tiltekin einstök atriði sem það varða, þ.e. í fyrsta lagi öryggi ríkisins og varnarmál, það eru alþjóðasamskipti og svo í c-lið eru það mál sem eru í rannsókn eða á frumstigi rannsóknar hjá stjórnvöldum. Hér er þáttur sem að mínu mati þarf skoðunar við. Það geta vel verið ástæður til þess að þarna þurfi að hafa einhver viðmiðunarmörk, en hitt er jafnljóst að það er einmitt þörf á því að fá upplýsingar um mál sem snerta umhverfi og umhverfisáhrif þegar á frumstigi. Því fyrr því betra, almennt séð. Það getur verið til bölvunar upp á framhaldið ef stjórnvöld skirrast við og telja sig hafa lögvernd gegn því að veita upplýsingar í krafti svona lagafyrirmæla og hugsanlega lokunar á grundvelli þeirra.
    D-liðurinn vísar til þess að öryggi almennings verði ekki skert. Það má sem sagt neita upplýsingagjöf ef það geti haft þau áhrif að öryggi almennings verði skert. Það er ekki gott að átta sig á því hvað í rauninni þarna getur verið um að ræða í þessu sambandi og þarf athugunar við, finnst mér.
    Síðan kemur e-liðurinn þar sem segir: ,,Mikilvæga viðskiptahagsmuni stjórnvalda, einstaklinga og fyrirtækja að meðtöldum hugverkarétti nema með samþykki viðkomandi.`` Varðandi viðskiptahagsmunina er það vissulega svið þar sem menn geta þurft að ná einhverri málamiðlun en þarna þarf líka að gæta þess að loka ekki um of á. Þarna er því mál sem þarfnast sérstaklega athugunar áður en menn festa reglur.
    Í f-lið, sem varðar úrslit mála sem enn eru á undirbúningsstigi, er líka svið þar menn þurfa að átta sig á því hvar á að draga mörkin.
    Svo kemur í upptalningurinni h-liður, umhverfisvernd, þ.e. að heimilt sé að synja beiðni um upplýsingar ef upplýsingagjöfin getur haft áhrif á umhverfisvernd. Ég bið hæstv. umhvrh. að hjálpa mér að skilja hvað átt er við í þessum fyrirmælum sem þarna er gerð tillaga um. Ég næ ekki að lesa þetta saman svo að vit fáist úr en kannski eru þarna tiltekin atriði sem ráðuneytið hefur haft í huga sem þarf nánari skýringar þannig að skiljanlegt sé.
    Gert er ráð fyrir því að skylt sé að rökstyðja synjun ef beiðandi óskar. Þetta eru dálítið sérkennileg fyrirmæli í lagagreininni. Mér finnst almennt séð að það ætti að rökstyðja synjun án þess að sérstök beiðni komi um það og þurfi að knýja á um rökstuðning. Það finnst mér siðaðra manna háttur en hversu langt er gengið í rökstuðningi er þá matsatriði þeirra sem eru að verja sig, í þessu tilviki viðkomandi stofnun eða ráðuneyti.
    5. gr. er um það hvert aðili geti leitað sem óskað hefur eftir upplýsingum ef beiðni þar að lútandi er synjað. Þar er eitt og annað sem er umhugsunarefni því að greinin er þannig:
    ,,Nú telur aðili að synjun samkvæmt 4. gr. sé ekki studd gildum rökum og getur hann þá, ef ráðherra á ekki sjálfur í hlut, skotið máli til umhverfisráðherra innan fjögurra vikna frá því að honum var kunnugt um synjunina.`` Þarna er vísað til mála þar sem ráðherra á ekki sjálfur í hlut og mun sennilega átt við stofnanir undir ráðuneytum en þó er þetta dálítið torskilið eins og þetta liggur fyrir. Það er spurning hvernig á að skilja fornafnið ,,honum``, það virðist vísað til umhvrh. og einhvers tímafrests frá því að honum var kunnugt um synjunina. Nú hafði ég litið svo á að slíkar synjanir færu í gegnum ráðuneytið og ráðherra ætti í rauninni að vera kunnugt um það jafnóðum en kannski er þetta hugsað með öðrum hætti og síðan eru það svið utan valdsviðs iðnaðarráðuneytis sem heyra undir aðra ráðherra. Því skal skjóta til viðkomandi ráðherra. (Gripið fram í.) Sagði ég iðnaðarráðuneytis? Ég biðst velvirðingar ég átti við umhverfisráðuneytið. En hér er verið að fjalla um sem sagt önnur svið er heyra undir umhvrn. þannig að í seinni málsl. 5. gr. og ber samkvæmt orðanna hljóðan að skjóta því til viðkomandi ráðherra sem er annar en umhvrh.
    Ég spyr hæstv. ráðherra að því hvort athugað hafi verið að setja hugsanlega upp einhvern aðila, einhvers konar kærunefnd eða slíkan aðila, til að fjalla um mál af þessum toga og leggja það í vald kærunefndar eða sérstakrar nefndar sem um fjallaði til þess að fría ráðherrana frá því að vera að dæma nánast í eigin sök, að fjalla um mál með þessum hætti. Þetta er gert á ýmsum málasviðum. Ég nefni t.d. jafnréttismálin og sérstakar kærunefndir sem þar hafa verið settar á laggirnar og mér finnst að það beri að athuga í tengslum við þetta mál
    Skv. 6. gr. er heimild til að taka gjald fyrir þjónustu: ,,Nú óskar aðili upplýsinga sem ekki eru fyrirliggjandi en talið er rétt að láta í té og er þá stjórnvaldi sem í hlut á heimilt að taka gjald fyrir slíka þjónustu.`` Þetta er álitamál og getur verið nokkuð vandmeðfarið. Þegar litið er á skýringar við greinina, er orðalagið þannig: Lagt er til í 6. gr. frv. að heimilt verði að taka gjald fyrir upplýsingagjöf. Heimild þessi á fyrst og fremst við, eins og orðalag greinarinnar ber með sér, ef veittar eru upplýsingar sem ekki eru þegar fyrirliggjandi. Þetta er mjög óákveðið, þetta er mjög teygjanlegt og þarna er svið þar sem umhvrn. mun verða undir þrýstingi af hálfu fjármálayfirvalda, að taka gjöld fyrir veitta þjónustu. Því spái ég ef að líkum lætur um þróun þeirra mála að það sé því nauðsynlegt að hafa sem skýrust mörk og skýrust ákvæði að þessu leyti.
    7. gr. varðar kynningarstarf fyrir almenning um hvaðeina sem lýtur að þekkingu á umhverfismálum. Þetta er sannarlega góðra gjalda vert. Þarna er hins vegar mjög almennt að orði kveðið og væri mjög æskilegt að negla þetta með einhverjum hætti, bæði efnislega og að því er varðar þá fjárveitingar til þessara mála. Það er einmitt á þessu sviði sem hefur verið klipið hvað mest og minnst hefur orðið afgangs hjá aðilum eins og Náttúruverndarráði sem hafa lögum samkvæmt kvaðir í þessu efni en þar sem lítið hefur verið um aurana þegar til kastanna hefur komið og varðar þetta þá mjög þýðingarmikinn þátt þar sem er fræðsla og upplýsingar, kynningarstarf um umhverfismálin.
    8. gr. snertir skýrslugjöld sem verið er að lögbjóða að ráðherra birti um ástand og þróun umhverfismála á Íslandi á þriggja ára fresti og taki inn í það einnig frá öðrum ráðuneytum eða frá öðrum stjórnvöldum eftir því sem ástæða er til hverju sinni.
    Þetta er kannski ekki þörf á að fjalla mikið um við 1. umr. Þó sýnist mér álitamál hvort þarna sé ekki of langt á milli að ætla að vera með skýrslugjöf á þriggja ára fresti um þennan þátt. Ég tel í rauninni að það þurfi að taka þennan þátt inn sem alvörumál í tengslum við áætlanir viðkomandi árs, í tengslum við fjárlagagerð hvers árs og vísa þar m.a. til þess sem er viðtekin regla hjá nágrönnum okkar í Noregi þar sem fjallað er um svið umhverfismálanna í heild sinni, ekki bara varðandi umhvrn. heldur einnig varðandi önnur fagráðuneyti og lagt mat á stöðuna í greinargerð með fjárlagafrv. Þá er það í samvinnu umhvrn. og fjmrn. sem slíkt gerist. Þetta tel ég til fyrirmyndar og þetta bið ég hæstv. ráðherra að íhuga í samvinnu við þingnefnd, hvort ekki væri ástæða til að setja einmitt ákvæði að þessu leyti inn í þetta frv. áður en það kemur úr nefnd. Mér finnst mjög freistandi að gera það og ég tel að þriggja ára skýrslugerð til þingsins um þróun á þessu sviði sé í rauninni ekki það sem við eigum að lögfesta, það sé ómarkvisst og geri ekki það gagn sem er þó væntanlega hugsunin á bak við þessa tillögu.
    Mörgu fleiru gæti verið þörf á að víkja að hér, en ég ætla ekki, virðulegur forseti, að lengja mál mitt um frv. Ég vil þó segja að þetta mál á auðvitað að skoða algerlega óháð samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Þetta snertir í rauninni þann samning aðeins með óbeinum hætti. Þetta er nauðsynjamál sem þarf að taka á hér á Alþingi alveg óháð þeim samningi. Og hvað sem verður um örlög hans þá þarf Alþingi að setja lög og reglur. En þetta minnir auðvitað á að það vantar almenna upplýsingaskyldu og löggjöf um almenna upplýsingaskyldu Stjórnarráðsins og ráðuneytanna og það er mál sem búið er að auglýsa eftir lengi á Alþingi og virðist vera mjög djúpt á en vissulega er þörf á að minna á í tengslum við þetta frv. sem er að lögbjóða ákveðnar skyldur á umhvrn. þar sem vantar reglur fyrir ýmis önnur ráðuneyti að því er varðar sama svið.
    Ég veit það að hæstv. ráðherra hefur áhuga á því að gera sem best á þessu málasviði sínu. Honum er þröngur stakkur skorinn fjárhagslega, allt of þröngur stakkur eins og hann birtist okkur í fyrra, og ég vona að það megi ná lögfestingu á þessu máli óháð þessum EES-samningi og fleiri málum sem ráðherrann kann að leggja fram í þinginu eftir vandlega athugun í þingnefnd og ég vil stuðla að því að svo geti orðið og eiga sem besta samvinnu við ráðuneyti umhverfismála um þau efni eftir því sem ástæður bjóða.