Upplýsingamiðlun og aðgangur að upplýsingum um umhverfismál

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 17:39:21 (1071)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Aðeins örstutt. Mig langar til að inna hæstv. ráðherra eftir því hvað hann átti við þegar hann sagði að afstaða okkar tveggja, sem hér tókum til máls, mótaðist af afstöðu okkar til samningsins um Evrópskt efnahagssvæði sem við værum andvíg. Ég vissi ekki betur en við tækjum mjög jákvætt undir þetta mál og teldum að það væri til góðs. Ég skildi ekki almennilega hvað í mínu máli leiddi til þess að hann taldi að ég væri á einhvern hátt andvíg þessu máli. Mér þótti það mjög miður að hann skyldi túlka mín orð svo því að ég tel að þetta mál sé af hinu góða og vil fá að endurtaka það, ef það hefur eitthvað farið á milli mála, þó að ég hafi auðvitað athugasemdir við einstakar greinar frv. Ég ætla ekki að endurtaka hvaða greinar það eru. Það eru þessi sömu atriði sem bent hefur verið á og við höfum reyndar aðeins fjallað um það í umhvn. þingins þar sem við fengum þetta mál og fjölluðum aðeins um það í sumar. Þessi atriði sem við veltum einnig fyrir okkur þar eru enn inni í frv. og hefur ekki verið breytt. Vonandi verður aðstaða til að við lögum frv. eins og við teljum öll vera best.
    Ég fagna því að ráðherra fór nokkrum almennum orðum um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði sem hann taldi verða okkur til góðs og nefndi þá til þær þvinganir sem eru settar á okkur, að taka hér upp sjálfsögð mál eins og sorpeyðingu og ýmislegt fleira sem samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði, ef hann verður staðfestur, mun leggja á okkur. Það er ekkert sem hindrar okkur í að taka þetta upp þó að við gerumst ekki aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Þessi mál hafa auðvitað legið á borðum Alþingis lengi og ég veit ekki betur en umhvrn., þó ungt sé, hafi tekið þessi mál upp og reynt að ýta þeim hér áfram, því miður með hæpnum árangri.
    Varðandi það hagkerfi sem verið er að taka upp og stefnt er að í Evrópu, og er mjög miðstýrt að mínu mati og flestra sem hafa skoðað málin, þá er það mat Evrópubandalagsins sjálfs að það muni skapa aukin umhverfisvandamál. Þær skýrslur sem hafa verið gerðar á vegum EB og hafa komið út af þeirra hálfu benda eindregið í eina átt, að þessu kerfi, sem þarna á að taka upp og er verið að taka upp með fullum þunga, fylgi aukið álag á umhverfið.
    Ég er sammála hæstv. ráðherra um að það litla sem maður hefur séð og heyrt frá Austur-Evrópu er auðvitað þvílíkur hryllingur að maður getur ekki hugsað það til enda. En við verðum að gera okkur grein fyrir því að auk þess að þurfa að koma málum þar í skikkanlegt horf megum við ekki falla sjálf í þann pytt að koma upp og gerast aðilar að miðstýrðu kerfi þar sem allt kapp er lagt á framleiðslu eins og var gert fyrir austan og ráðherrann lýsti réttilega. Þar var heldur ekki tekið tillit til umhverfisins né heilsu borgaranna. Ég geri ráð fyrir að sú lýsing ráðherrans sé alveg rétt. En við megum þá ekki gera það nákvæmlega sama hér. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að þó að hagkerfið heiti eitthvað annað eða þó að kerfið sem tekið er upp heiti eitthvað annað má það ekki bera sömu einkenni og það kerfi sem flestir ef ekki allir fordæma og óska að aldrei hefði verið tekið upp.
    Ég held því miður að ef á heildina er litið muni þessi samningur ekki hafa þau jákvæðu áhrif sem ráðherrann lýsti en auðvitað get ég lítið breytt hans trú á því hvað þarna er á ferðinni. Eins og ég sagði í minni fyrri ræðu er samvinna þjóða í umhverfismálum mjög mikilvæg og þegar verið er að ræða um sjálfsákvörðunarrétt þjóða varðandi umhverfismál eru þeir sem hafa áhuga á umhverfismálum og ræða umhverfismál venjulega að tala um að nota þann sjálfsákvörðunarrétt til þess að geta komið með strangari reglur í umhverfismálum en ekki það að veikja þær. Þannig fannst mér einhvern veginn að hæstv. ráðherra vildi túlka málið og það kom jafnvel fram í máli hv. 3. þm. Reykv., Björns Bjarnasonar, þegar hann greip til þess að tala um frv. til stjórnarskipunarlaga þar sem fram kemur að nauðsynlegt geti verið að taka upp yfirþjóðlegt vald varðandi umhverfismál. Það tel ég að geti mjög vel komið til greina og geti verið nauðsynlegt. Ég stend við það sem stóð í þessari greinargerð og hef reyndar áður sagt það svo það ætti ekki að koma á óvart. En

ég vil ekki að það sé notað til að minnka kröfur eins og verið er að gera núna varðandi Evrópska efnahagssvæðið. Þar er verið að setja kröfur sem eru lægri en kröfur í umhverfismálum og mengunarmálum einstakra ríkja og gera það að verkum að ríkin geta ekki haldið þeim háu kröfum sem þau hafa núna. Þetta er t.d. að gerast í Svíþjóð núna. Svíar eru að gera sér grein fyrir því að þeir verða að láta af kröfum í umhverfismálum. Það tel ég mjög miður. Ég tel að það sé grundvallaratriði að þjóðir geti verið með framsæknari stefnu í umhverfismálum, geti sett strangari kröfur, og það eigi ekki að koma eitthvert yfirþjóðlegt vald eða aðrir dómarar sem segja: ,,Því miður, þetta stenst ekki markaðslögmálið. Þið verðið að minnka kröfurnar.`` Það er þetta sem verið er að tala um og mér finnst slæmt þegar verið er að snúa út úr því þegar verið er að tala um að þjóðir verði að hafa möguleika í umhverfismálum, þá vita þeir sem skilja og hugsa um umhverfismál nákvæmlega við hvað er átt. Við viljum að það megi setja strangari mörk en eitthvert yfirþjóðlegt ,,apparat`` ákveður.
    Að halda því fram að samningur um Evrópskt efnahagssvæði sé samningur um umhverfismál er auðvitað fráleitt, hann er um allt annað þó að umhverfismál séu nefnd þar í ákveðnum greinum og í aðfararorðum. Því miður hafa þau enga bindandi þýðingu.