Upplýsingamiðlun og aðgangur að upplýsingum um umhverfismál

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 17:53:39 (1075)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hélt hér tvær ræður áðan, ekki mjög langar, en í báðum ræðunum held ég að ég hafi tekið fram að samstarf þjóða væri mikilvægt. Ég held að það þurfi ekki að kenna mér það svo oft sem ég hef komið hér og talað á þeim nótum. Ég sagði það áðan að auðvitað þyrfti að hafa samræmdar reglur og að við yrðum að hafa samvinnu. En það sem er mikilvægast er að hver taki til í sínum garði. Við hér á Íslandi verðum auðvitað að vera til fyrirmyndar. Þó að einhver þjóð úti í heimi ákveði útblástursmörk, t.d. á bifreiðum, sem eru aldeilis óviðunandi fyrir okkur, getum við sett miklu strangari reglur ef okkur sýnist svo. Það er ekki rétt að hver þjóð geti ekki haft miklu strangari reglur en önnur. Hún auðvitað bætir heiminn með því að minnka mengun hjá sér. Það hlýtur að vera augljóst mál. Við getum ekki beðið bara eftir því að allir séu með sömu reglur og látið reka á reiðanum þangað til. Auðvitað er samvinna mikilvæg en samt sem áður getur hver þjóð verið með strangari reglur á sviði umhverfismála eftir sem áður.