Samkeppnislög

25. fundur
Þriðjudaginn 06. október 1992, kl. 14:07:09 (1094)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til samkeppnislaga, lagabálkur sem kemur í staðinn fyrir núgildandi lög um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti og kemur reyndar inn á fleiri staði í okkar viðskiptalöggjöf eða reglum á því sviði. Ég er þeirrar skoðunar að hér sé á ferðinni afar mikilsvert mál og ætla að skipta umfjöllun minni um það í grófum dráttum í tvennt, þ.e. annars vegar þann þátt þess sem lýtur að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og kemur inn í sérstakan kafla frv. og hins vegar þá heildarendurskoðun laga um samkeppni og viðskiptahætti sem hér er á ferðinni og er þörf og tímabær. Ég vil láta það sjónarmið mitt koma fram strax í upphafi að ég tel margt í frv. vera til mikilla bóta. Það færir til nútímahátta mjög mörg ákvæði úr gildandi lögum sem eru um margt orðin úrelt, eru að verulegu leyfi afsprengi gerólíkra aðstæðna í okkar viðskiptaháttum þar sem opinber íhlutun, opinber verðlagning og ýmiss konar takmarkanir settu miklu ríkara mark á alla framkvæmd þessara mála. Ég held að það sé löngu tímabært að breyta þessu í grundvallaratriðum. Ég hef sjálfur ásamt fleirum flutt hér á undanförnum þingum frumvörp og tillögur sem horft hafa til breytinga í þessum efnum. Ég vísa þar m.a. í frv. sem flutt var á síðasta þingi, á þskj. 625, af mér og fleirum sem fólu í allmiklar breytingar á lögunum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Á fyrri þingum hef ég m.a. flutt þáltill. um afmarkaða þætti þessa máls svo sem það sem lýtur að eftirliti með auglýsingum. Ég mun koma hér lítillega að því síðar.
    Því miður er smíðin ekki fullkomin og er kannski varla von. Frv. er að mínu mati einnig áfátt í nokkrum atriðum og kannski þar sem síst skyldi. Ég tel að í frv. sé með allt of loppnum hætti, ef ég má orða það svo, hæstv. forseti, tekið á sjálfum undirstöðuatriðum samkeppnisforsendnanna, þ.e. þeim leikreglum sem gilda um samkeppni á markaði annars vegar og hins vegar hömlum gagnvart samkeppnistakmörkunum, fákeppni og einokun stórra eða ráðandi aðila á markaði. Það verður að segjast eins og er að það eru auðvitað mikil vonbrigði að þrátt fyrir alla umræðu á undanförnum árum um fjölskyldurnar, hvort sem þær eru 13 eða 14, um kolkrabbann og um vaxandi samþjöppun valds og fjármagns í viðskiptalífinu, skuli í raun og veru ekki gerð nein tilraun til þess, þegar loksins heildstætt frv. um þetta efni lítur dagsins ljós og það flutt af einum hæstv. ráðherra Alþfl., til að taka á þessum hlutum. Það er a.m.k. ekki í samræmi við það hversu oft og hátt og lengi þeir alþýðuflokksmenn hafa talað um nauðsyn þess að brjóta upp þessa fákeppni kolkrabbans og einokun fjölskyldnanna 14 o.s.frv. Ég mun koma að því betur þegar ég fer yfir efni frv., hæstv. forseti, hvar ég tel að frv. sé hvað þetta snertir mest ábótavant, en það varðar sjálfan grundvöll þess, markmiðsskilgreiningu laganna og undirstöðugreinar sem lúta að samkeppnishömlum,

samruna fyrirtækja og fleira því um líku.
    Ég ætla, hæstv. forseti, að stilla mig um að nota þetta tækifæri, eins og hv. síðasti ræðumaður gerði að hluta til, til fjalla í almennara samhengi um starfsskilyrði atvinnulífsins eins og frv. til samkeppnislaga býður vissulega upp á. Það er freistandi að gera það við núverandi aðstæður í íslenskum efnahags- og atvinnumálum, en tímans vegna ætla ég að neita mér um það og reyna að ræða efni frv. þröngt, ef svo má að orði komast, ella hygg ég að umræðan gæti orðið ærið langsótt því undir þetta mætti vissulega heimfæra flest það sem lýtur að starfsskilyrðum og umhverfi í íslensku atvinnulífi.
    Herra forseti. Ég vil taka það fram að ég er aldeilis ósammála hv. síðasta ræðumanni, 1. þm. Austurl., um þá þætti frv. sem snúa að auglýsingum. Ég er ánægður með að sjá þó þá viðleitni af hálfu hæstv. ráðherra í þessu frv. að gert er ráð fyrir sérstakri nefnd sem fjalli um þann málaflokk út af fyrir sig og sú nefnd sé hluti af stjórnsýsluuppbyggingu samkeppnisráðs og þeirrar starfsemi sem þar fer fram. Ég færi þau rök fyrir þessu sjónarmiði mínu að ég held að málefni auglýsinga og eftirlit með þeim sé svo sérstakur og afmarkaður þáttur framkvæmdar viðskiptalöggjafar að full ástæða sé til að skipa eftirliti og stjórnun þeirra mála með sérstökum hætti.
    Þannig vill til að hér er að nokkru leyti á ferðinni arfur frá fyrri þingmálum, þá á ég við frv. til laga um auglýsingalöggjöf sem var flutt á síðasta þingi og gott ef ekki tveimur þingum af hæstv. viðskrh. Það frv. kom til í framhaldi af því að Alþingi afgreiddi þáltill., sem ég var 1. flm. að, fyrir nokkrum árum síðan þar sem þingið skoraði á framkvæmdarvaldið að hlutast til um að sett yrði heildstæð löggjöf um auglýsingamálefni. Það sem fyrir mér vakir sérstaklega og hefur gert þau fimm ár eða svo sem ég hef haft þetta mál til meðferðar var að taka á því að á Íslandi hefur algjörlega skort í löggjöf fyrirmæli um og tryggingar fyrir því að börn og ungmenni nytu eðlilegrar verndar í þessum efnum. Slík ákvæði hafa mjög víða komið inn í lög í nágrannalöndunum og jafnvel verið í gildi um áratuga skeið víða, en enn sem komið er, því miður, hefur ekki tekist að búa tryggilega um hnútana í þessum efnum í íslenskri löggjöf og veit ég svo sem ekki hvers vegna það er svona þungur róður og undrar mig nokkuð. Ég var bjartsýnn á það í fyrsta sinn sem ég hreyfði þeim málum á þingi fyrir einum fimm, sex árum að menn hlytu að geta fallist á að ástæða væri til að taka inn í íslenska löggjöf sambærileg ákvæði í þessum efnum og víða er að finna annars staðar en það hefur reynst torsóttara en ég áttaði mig á. Þess vegna er ég í fyrsta lagi ánægður með að þessi sérstaka auglýsinganefnd skuli vera inni í stjórnsýslu þessara mála. Í öðru lagi tel ég að ákvæði 20.--22. gr. frv. séu til mikilla bóta og fagna því að slíkt verði tekið í lög í landinu. Það segir m.a., með leyfi forseta, í 22. gr.:
    ,,Auglýsingar skulu miðast við að börn sjái þær og heyri og mega þær á engan hátt misbjóða þeim.``
    Það mætti taka svipað fram um dagskrá sjónvarpsins, svo ég leyfi mér að skjóta því að í framhjáhlaupi, hæstv. forseti, að það liggur við að ástæða væri til að setja sérstaka lagagrein um að tiltekið efni skyldi ekki sent út klukkan hálfníu í íslenska sjónvarpinu án þess að nokkrar aðvaranir kæmu um að það væri ekki ætlað eða hollt börnum. Ég er að vísa til framhaldsþáttar sem sýningar hófust á fyrir tveimur kvöldum síðan.
    En það er til mikilla bóta hvað auglýsingarnar snertir að þær skuli miðast við að börn sjái þær og heyri og að þær megi á engan hátt misbjóða þeim.
    ,,Í auglýsingunum verður að sýna sérstaka varkárni vegna trúgirni barna og unglinga og áhrif á þau.
    Komi börn fram í auglýsingum skal þess gætt að sýna hvorki né lýsa hættulegu atferli eða atvikum er leitt geti til þess að þau eða önnur börn komist í hættu eða geri það sem óheimilt er.``
    Herra forseti. Ég tel til mikilla bóta að þessi ákvæði komi inn í lög og ég bind vonir við að þar verði ekki um dauðan lagabókstaf að ræða, heldur verði því framfylgt að svona skuli staðið að málum. Ég tel satt best að segja, hæstv. forseti, það liggur við að ég leyfi mér að segja til skammar að við Íslendingar skulum hafa staðið jafnilla að þessum málum á undanförnum árum og áratugum og raun ber vitni. Mig undrar það satt best að segja að jafnmargt og gott og velþenkjandi fólk og er til staðar og er að hugsa um málefni barna og unglinga að þessum þætti skuli ekki hafa verið betur sinnt eða meira á hann ýtt á undanförnum árum. Það er alveg óumdeilt í hópi þeirra sem þessi mál hafa kynnt sér sérstaklega að hinir öflugu fjölmiðlar nútímans geta haft varanleg og mjög mikil áhrif á þroskaskeiði barna og unglinga og það þarf að sýna sérstaka gætni í sambandi við þau áhrif sem þessir öflugu miðlar og ekki síst auglýsingatímar þeirra geta haft í þessu sambandi.
    Ég held að það liggi í hlutarins eðli að með því að hafa sjálfstæða nefnd starfandi um þennan þátt framkvæmdar viðskiptalöggjafarinnar séu meiri líkur til að þessu verði framfylgt, þetta verði sem sagt tryggt í allri framkvæmd, en ef þetta væri bara eitt af fjölmörgum almennum verkefnum samkeppnisráðs. Ég tel því óhjákvæmilegt, hæstv. forseti, og ekki síst í ljósi þeirra sjónarmiða sem hv. síðasti ræðumaður lét koma fram, að lýsa mínum viðhorfum sem eru algjörlega andstæð. Ég tel að það sé einmitt skynsamlegt að búa svona um hnútana úr því að ekki varð niðurstaðan, sem ég hefði verið tilbúinn að styðja, að um þetta hefði verið fjallað í afmörkuðum lögum.
    Í öðru lagi vil ég úr efni frv. nefna, hæstv. forseti, 11. kafla þess. Þar er skotið kafla inn í þessa löggjöf, sem er henni í sjálfu sér að öðru leyti óviðkomandi, ákvæðum um framkvæmd samkeppnisreglna samkvæmt samningum um hið Evrópska efnahagssvæði. Ég ætla ekki að fara út í miklar umræður um þennan efnishluta frv. vegna þess að það hefur verið rætt áður í tengslum við frv. til laga um fullgildingu samningsins sjálfs, en þó er rétt að vekja athygli manna á því að hér eru á ferðinni að sumu leyti ein umdeildustu ákvæði þess samnings, þ.e. leitað er íslenskum lögum fullnustu á valdi eftirlitsstofnunar EFTA og dómstóls EFTA. Hér koma inn í íslensk lög þau ákvæði sem heimila þessum stofnunum í fyrsta lagi að framkvæma vettvangsskoðanir hjá íslenskum aðilum og í öðru lagi að leggja sektir á fyrirtæki, samtök fyrirtækja eða einstaklinga og gera þessar aðgerðir eftirlitsstofnunar eða dómstóls aðfararhæfar. Ég bendi mönnum á að lesa 44.--47. gr. frv., en þar er kveðið á um þetta. Ef það er hugsanlega þannig að enn séu einhverjir í vafa um þau völd sem samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið á að flytja úr landinu til þessara erlendu stofnana, þá geta þeir hinir sömu ekki efast lengur að mínu mati ef þeir taka sér þetta frv. í hönd og lesa 44.--47. gr. þess. Þar er þetta sagt á eins skýru máli íslensku og nokkur kostur er og ég held að þrátt fyrir allt stofnanamálið sem oft vill verða á svona pappírum, þá sé það á fullkomlega tærri íslensku þegar verið er að fjalla um þau verkefni og þau völd sem hinum erlendu stofnunum eru þarna falin.
    Ég get ekki látið hjá líða af meðfæddum stráksskap að vekja athygli á orðaröð í 44. gr. frv. Það er heldur neyðarlegt, hæstv. viðskrh., þegar taldar eru upp þær heimildir sem stofnanirnar, annars vegar hin íslenska og hins vegar hin erlenda, skuli hafa til að framkvæma vettvangsskoðanir í íslenskum fyrirtækjum er erlenda stofnunin talin upp á undan. En þannig er, hæstv. forseti, að 44. gr. hefst á þessum orðum, með þínu leyfi:
    ,,Skylt er þeim, sem um er beðinn, að veita eftirlitsstofnun EFTA og dómstóli EFTA þær upplýsingar sem þeim er nauðsynlegt að afla sér samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, samningnum milli EFTA-ríkjanna um eftirlitsstofnun og dómstól eða samkvæmt fyrirmælum sem gefin er um heimild í 51. gr.``
    Svo kemur í síðari málsgrein:
    ,,Samkeppnisstofnun`` --- þ.e. hin íslenska stofnun --- ,,getur krafist sömu upplýsinga og um getur í 1. mgr. og getur hún sett skilafrest í því sambandi.``
    Með öðrum orðum hafa höfundar frv., hvort sem það var með vilja eða ásetningi, fyrir tilviljun eða af gáleysi, raðað þessum hlutum þannig upp að á undan er fjallað um réttindi hinnar erlendu stofnunar og síðan kemur okkar íslenska samkeppnisstofnun á eftir. Þetta er, hæstv. forseti, að mínu mati heldur neyðarlegt, eins og sagt er, og ég leyfi mér af stráksskap að vekja athygli á þessu. Það breytir í sjálfu sér ekki efnislegu innihaldi greinarinnar hver röðin er en kemur hugsanlega upp um einhvern sem staðið hefur fyrir samsetningunni.
    Hæstv. forseti. Ég sé ekki, eins og ég sagði í upphafi, ástæðu til að ræða að öðru leyti efnislega þennan kafla um fullnustu samningsákvæðanna um Evrópskt efnahagssvæði sem hér er á ferðinni. Ég vek athygli manna á þessu þannig að öllum sé ljóst að hér eru þau umdeildu atriði á ferðinni þar sem er valdaframsalið til hinna erlendu stofnana. Það verður nokkurn veginn eins skýrt og orðið getur af lestri þessara greina frv. hvað þar er á ferðinni.
    Þá vil ég, hæstv. forseti, koma lítillega að þeim atriðum þar sem ég tel að þessu frv. sé sérstaklega áfátt, þ.e. hvað varðar samkeppnislöggjöfina sjálfa sem ég er mikill áhugamaður um að verði lögð mikil vinna í og vandlega að því staðið af hálfu Alþingis á allan hátt að afgreiða þetta frv. Ég vil láta það sjónarmið mitt koma fram strax að ég tel að ef hæstv. ráðherra eða ríkisstjórn leggur á það mikla áherslu að fá afgreiddan kaflann um hið Evrópska efnahagssvæði sérstaklega fyrir áramót þá geti verið ráðlegt að stefna að því þegar í stað að skipta afgreiðslu frv. þannig upp að sá kafli fái sérstaka meðhöndlun og komi til afgreiðslu á undan. Ég vil í öllu falli ekki sjá að efh.- og viðskn., sem væntanlega fær þetta mál til umfjöllunar, þurfi að vinna að því í einhverri tímaþröng að setja þessa mikilvægu löggjöf sem er ný heildarlöggjöf á sviði samkeppnisreglna. Ég áskil mér a.m.k. fyrir mitt leyti allan rétt til þess að krefjast tíma í þetta vandasama verkefni og held að það eigi að vera verkefnið sjálft sem ráði því hve mikinn tíma þarf til þess en ekki einhverjar settar skorður vegna þess að ákveðinn kafli frv. þetta tengist að litlu leyti samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Ef svo er að sérstaklega þurfi að hraða því verki teldi ég eðlilegt að 11. kafli frv. yrði einfaldlega tekinn út úr og afgreiddur sérstaklega en nefndin fengi tíma til að vinna að hinu í ró og næði.
    Hæstv. forseti. Ég hef gripið til þess ráðs vegna aðstæðna í þessu máli að leggja fram við 1. umr. frv. hugmyndir að breytingartillögum á þessu frv. Mér er að sjálfsögðu ljóst að samkvæmt þingsköpum koma þær tillögur ekki á dagskrá við 1. umr. en ég held að í ljósi þess að þingið starfar í einni málstofu og aðeins þrjár umræður gefast til að fjalla um mál, þá sé að mörgu leyti eðlilegt og æskilegt ef menn hafa mótaðar hugmyndir um breytingar á frumvörpum sem fyrir liggja að þær breytingar séu settar fram og kynntar við 1. umr. um málið og gangi síðan til þeirrar nefndar sem um þau fjallar. Það liggur í hlutarins eðli að ef slíkt birtist mönnum ekki fyrr en við 2. umr. að aflokinni umfjöllun nefndar, þá verður minni tími til stefnu en æskilegt er að taka tillit til og skoða slík ólík sjónarmið sem þá eru fram sett.
    Ég vil þess vegna leyfa mér að vitna nokkuð til þessara brtt. á þskj. 49. sem liggja fyrir á þinginu við 1. umr. málsins. Þar er því í raun og veru svarað í veigamiklum atriðum hvað ég tel að fyrst og fremst vanti upp á til að gera frv. nægjanlega vel úr garði.
    Í fyrsta lagi tel ég að markmiðslýsing laganna og gildissvið þeirra eins og það er sett fram í 1. gr.

sé of takmarkað. Ég tel að beinlínis þurfi að taka þar fram að það sé eitt af markmiðum laganna að vinna gegn því að einstaklingar eða fyrirtæki, samtök eða samstæður fyrirtækja, komist í, viðhaldi eða hagnýti sér hvers konar yfirburða- eða einokunaraðstöðu á markaði sem hér eftir yrði þá nefnd einu nafni markaðsráðandi aðstaða. Ég tel það galla að ekki skuli beinlínis tekið fram í lögunum að hluti af markmiðssetningu þeirra sé að vinna gegn slíkum samkeppnishömlum. Menn geta út af fyrir sig sagt að þetta felist í fyrsta staflið markmiðssetningarinnar þar sem segir að markmiðið sé að vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri og þetta er tiltölulega vítt og opið en mér finnst full ástæða til að hnykkja á þessu með því að taka sérstaklega fram að fákeppnis- eða einokunaraðstaða eða markaðsráðandi aðstaða sé skilgreind í markmiðssetningu laganna sem óæskileg.
    Í framhaldi af þessu þyrfti í kafla 2 og 4. gr., þar sem orðskýringar eru fram færðar, að skilgreina hugtakið ,,markaðsráðandi aðstaða``. Ég tel mikla brotalöm í frumvarpinu að engin tilraun er gerð til þess að ná utan um það, skilgreina það hvað skal teljast markaðsráðandi aðstaða eins aðila á markaði. Ég spyr hæstv. viðskrh.: Hvernig á samkeppnisráð að vinna í ljósi þess að í frv., eins og það er fram sett, er engin tilraun gerð til þess að skilgreina við hvað skuli miða í þessum efnum? Er þá hugsun hæstv. ráðherra að samkeppnisráð sjálft búi sér til einhverjar vinnureglur í þessum efnum? Er það skynsamleg nálgun? Ég svara því neitandi. Ég held að löggjafinn eigi að gefa vissa leiðbeiningu í þessum efnum. Það er sú leið sem er víða valin í öðrum löndum, þó ekki sé nema til þess að gera ekki það viðfangsefni samkeppnisráðsins einfaldlega óleysanlega erfitt að sitja í því dómarasæti að eiga að búa sér til reglur, og jafnvel breytilegar reglur, um það hvenær staða eins aðila á markaði er orðin markaðsráðandi.
    Ég tel að þarna ætti að innleiða skilgreiningu og í þeirri brtt. sem ég hef flutt á þskj. 49 er sú nálgun valin að orða þetta svo, með leyfi forseta:
    ,,Markaðsráðandi aðstaða er samkvæmt lögum þessum hver sú aðstaða sem veitir fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæðu möguleika til að vera í krafti markaðshlutdeildar, stærðar eða annarra aðstæðna ráðandi um verð eða viðskiptahætti tiltekinnar vöru eða þjónustu á markaði. Samkeppnisráð skal sjálft setja sér nánari reglur í þessu sambandi, en skal þó jafnan miða við að staða eins aðila eða fleiri tengdra aðila sé markaðsráðandi ef markaðshlutdeild viðkomandi nær 33% eða meira í viðskiptum með tiltekna vöru eða þjónustu, þar með talið á sviði samgangna.``
    Ég er kominn að þeirri niðurstöðu að ekki sé nokkur leið önnur en að setja inn í lög eða reglur sem starfað er eftir í þessum efnum einhverja viðmiðun af þessu tagi. Með þessu er að sjálfsögðu ekki verið að segja að sá aðili sem yfirstígur þessi mörk og nær til sín meira en 1 / 3 af markaðshlutdeild á tilteknu sviði viðskipta sé þar með farinn að misnota þá aðstöðu. Og það er ekki heldur verið að segja að þó svo að slíkur aðili fari yfir slík viðmiðunarmörk sé það sjálfkrafa orðið brot á löggjöfinni. Það sem væri verið að segja er að þetta eru viðmiðunarmörk sem ráða því að viðkomandi aðili færist undir tiltekið eftirlit og honum er veitt aukið og sérstakt aðhald um leið og stærð hans í viðskiptunum er orðin svo mikil.
    Í bresku samkeppnislöggjöfinni, sem um margt er athyglisverð í þessu sambandi, er þetta hlutfall 25%. Ég er þeirrar skoðunar að þó að margt sé vitlaust hjá Bretum og ýmislegt sé ekki til eftirbreytni í þeirra stefnu, sérstaklega eins og hún hefur verið rekin á undanförnum síðustu árum, þá megi þó um margt líta til hinnar bresku viðskiptalöggjafar og sækja þangað fordæmi. Sú löggjöf hefur verið tekin til gagngerðrar endurskoðunar á síðustu árum og eru bæði fyrirtækjalöggjöf og samkeppnislöggjöf tiltölulega nýlegar í Bretlandi og hvað sem um einkavæðingaræfingar þar má segja verður því ekki á móti mælt, og það mun ég a.m.k. ekki gera og þykir kannski ýmsum skrýtið að heyra það úr mínum munni, að ég tel að Bretar hafi í sinni löggjöf reynt að tryggja að með sæmilega sanngjörnum hætti væru samkeppnisforsendur tryggðar þrátt fyrir þá einkavæðingarlotu sem þar var tekin. Þetta hafa þeir m.a. gert með því að breyta ýmsum ákvæðum í sinni grundvallarlöggjöf á síðustu árum til að reyna að hindra að einkavæðing, einokunarstarfsemi eða fákeppnisstarfsemi leiddi þá út í ógöngur. Það hefur hins vegar ekki tekist og það er svo önnur saga sem verður ekki sérstaklega rædd hér en segir mönnum samt að það þarf að ganga hægt um gleðinnar dyr í þessum efnum.
    Bretar eru sem sagt þetta harðir af sér að þeir skilgreina það sem markaðsráðandi aðstöðu að fyrirtæki hafi náð til sín fjórðungi eða 25% markaðshlutdeild á einu sviði viðskipta. Ég hef valið þá leið að hafa þessi viðmiðunarmörk nokkru hærri hér með tilliti til sérstakra aðstæðna á hinum íslenska markaði. Auðvitað má deila um það hvort þriðjungur eða helmingur eða hvað sé eðlileg viðmiðun í þessum efnum, en ég segi bara þetta: Ég held að það sé óvinnandi vegur fyrir eina nefnd úti í bæ að ætla sér að setjast í dómarasæti og skilgreina það og ákveða sjálf hvenær einhver mörk af þessu tagi eru yfirstigin. Ég held að það eigi að vera almenn viðmiðun í löggjöfinni sem síðan sé unnið eftir.
    Það er fróðlegt að nefna það svona í framhjáhlaupi, vegna þeirra hræringa sem urðu í smásöluverslun hér á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sumri, að einmitt við þær eignabreytingar sem urðu þegar fyrirtækið Hagkaup hf. keypti sig inn í ráðandi stærð á fyrirtækinu Bónus eða þeim rekstri, hvað sem það fyrirtæki heitir, þá mun að fróðra mati sú samsteypa einmitt hafa farið yfir þessi mörk, náð til sín meira en þriðjungi eða a.m.k. þriðjungi allrar smásöluverslunar á höfuðborgarsvæðinu. Væri í gildi ákvæði af því tagi sem hér er verið að leggja til í mínum brtt. hefði það þýtt að þessi nýja samsteypa, Hagkaup-Bónus hf., hefði færst undir sérstakt og aukið eftirlit samkeppnisstofnunar. Samruninn hefði væntanlega ekki verið stöðvaður og það væri í sjálfu sér ekkert lögbrot að eiga sér stað eða árekstrar við samkeppnislöggjöfina

sem slíka að öðru leyti en því að staða hinnar nýju samsteypu yrði skilgreind í þessu ljósi og aukið eftirlit tekið upp varðandi viðskiptahætti og verðlagningu þessara aðila.
    Í þriðja lagi, hæstv. forseti, tel ég að styrkja þurfi ákvæði 4. kafla þar sem fjallað er um bann við samkeppnishömlum til þess að lögin nái tilgangi sínum og við 10. gr. þurfi að bæta efni af því tagi sem um er rætt í 3. tölul. brtt. minna. Þar segir að við 10. gr. skuli bætast ný málsgrein. 10. gr. hljóðar á þessa leið: ,,Samningar og samþykktir, hvort heldur þær eru bindandi eða leiðbeinandi, og samstilltar aðgerðir milli fyrirtækja á sama sölustigi eru bannaðar þegar þær lúta að eða er ætlað að hafa áhrif á:
    a. verð, afslætti eða álagningu,
    b. skiptingu markaða eftir svæðum, eftir viðskiptum eða eftir sölu og magni,
    c. gerð tilboða.
    Samvinna á sama sölustigi um leiðsögn við útreikning á verði, afslætti og álagningu er bönnuð.``
    Síðan mundi bætast við að bönnuð yrði kaup eða yfirtaka fyrirtækja eða fyrirtækjasamstæðu á öðrum fyrirtækjum eða hvers kyns aðgerðir aðrar sem eru gagngert í því skyni að komast í markaðsráðandi aðstöðu og til að nýta sér hana.
    Ég held að þó svo að í framkvæmd sé auðvitað augljóslega erfitt að sjá fyrir hvort í vændum er brot af þessu tagi gagnvart anda samkeppnislaganna sé eftir sem áður rétt að hafa slíkt jákvætt ákvæði í lögunum þannig að það liggi fyrir að þetta sé bannað og m.a. hægt að vísa til þess ef samkeppnisráð hefur rökstuddan grun um að í vændum sé yfirtaka eins aðila á viðskiptum af þessu tagi og þar með sé í raun og veru hægt að styrkja stöðu samkeppnisráðs til þess að grípa inn í fyrirhugaða yfirtöku fyrirtækis á öðru eða aðgerðir á markaði sem gætu haft það sama í för með sér.
    Hvers vegna er ég að tala fyrir þessu sjónarmiði? Það er ósköp einfaldlega vegna þess að ég er nokkuð sannfærður um, því miður, að á grundvelli óbreyttra ákvæða laganna muni samkeppnisráð í fæstum tilvikum treysta sér til að grípa inn í kaup eða yfirtöku fyrirtækja við þær aðstæður sem það gæti þó verið nauðsynlegt. Ég held ósköp einfaldlega að staðan sé of veik eins og frv. leggur hlutina upp. Þó svo að kaflinn sem slíkur fjallli um það að samkeppnishömlur af þessum toga séu bannaðar o.s.frv., þá sé í raun og veru ekki með nægjanlega skörpum hætti tekið á þessu eða skilgreiningin sé ekki þannig úr garði gerð að samkeppnisráðið mundi treysta sér til aðgerða í þeim tilvikum þar sem það væri þó nauðsynlegt.
    Í fjórða lagi, hæstv. forseti, er í brtt. mínum lagt til að við þennan sama 4. kafla frv. bætist ný grein, sem gæti eftir atvikum nr. 17 eða færst undir kaflann einhvers staðar aftarlega í honum, og þar kæmi inn alveg nýr efnisþáttur sem lyti að því að tryggja samkeppni og eðlilega, óháða þróun einstakra samgönguþátta á samgöngusviðinu. Ef við frv. bættist ný grein af því tagi að fyrirtæki sem telst markaðsráðandi á einu sviði samgangna væri óheimilt að vera ráðandi aðili eða eiga stærri eignarhlut en 25% í öðrum fyrirtækjum sem starfa að samgöngum, hvað mundi það þýða, hæstv. forseti? Það mundi þýða að lagasetning af þessu tagi hróflaði við þeirri samstæðu á samgöngusviðinu sem mikið hefur verið um rætt á Íslandi á undanförnum árum en miklu minna, því miður, að gert til að setja eðlilegar skorður.
    Ég veit ekki hve margar ræðurnar eru orðnar um kolkrabbann en ég veit a.m.k. að bókin er a.m.k. ein sem út hefur verið gefin og helguð þessu fyrirbæri og heitir ,,Í slóð kolkrabbans`` og er hér í höndum mínum. Eins og ég reyndar vitnaði í í byrjun ræðu minnar hafa þeir alþýðuflokksmenn a.m.k. á köflum ekki dregið af sér í lýsingunum á þessu mikla bákni og formaður Alþfl., hæstv. utanrrh., talaði hann oft og mikið um þetta um miðbik síðasta áratugar, hélt heila fundaherferð undir fyrirsögninni ,,Hverjir eiga Ísland``. Ég skildi það stundum þannig að hann væri að láta að því liggja að Ísland væri að verulegu leyti í eigu fáeinna fjölskyldna sem héldu í þræðina og réðu fjármagninu í landinu og oft hefur blessaður kolkrabbinn, svo illa skilgreindur sem hann er, verið nefndur í þessu sambandi.
    Ég hef ekki tekið mikið undir þessi ræðuhöld í sjálfu sér vegna þess að ég hef ekki séð að mikið væri á bak við þau. Ég er þess vegna að reyna að nálgast þessa umræðu frá svolítið öðrum sjónarhóli, sem sagt þeim að burt séð frá þessum staðreyndum í okkar íslenska efnahags- og atvinnulífi, sem tengjast stórum eignarhlut samgöngurisanna hvers í öðrum, þá þarf auðvitað að gæta að því að þróun samgöngumála í landinu verði ekki stórkostlega bjöguð vegna þess að hagsmunir markaðsráðandi risa á einu sviði samgangna séu svo miklir í rekstri annarra ólíkra samgönguþátta að þar geti að nokkru leyti orðið um annarleg sjónarmið að ræða. Það er best að tala algerlega skýrt í þessum efnum til þess að verða sé ekki vændur um að fara með hálfkveðnar vísur. Ég ætla að taka það dæmi að Eimskipafélag Íslands er nokkurn veginn ráðandi í stykkjavöruflutningi til landsins og á sjó. Sú samkeppni sem það fær í þeim efnum er í raun og veru ekki mikil. Samkeppnin sem Eimskipafélagið fær í sjósiglingum er fyrst og fremst á öðrum sviðum þar sem um þungavöru og sérflutninga af ýmsu tagi er að ræða og eðli viðskiptanna er slíkt að raunverulegri samkeppni verður komið við. En hvað hinn almenna vöruinnflutning til landsins snertir er samkeppnin sem Eimskipafélagið á í sáralítil. Hitt aðalskipafélagið, Samskip, með fullri virðingu fyrir því, hefur auðvitað ekki burði til þess að standa því jafnfætis eða tryggja að öllu leyti þá samkeppni á öllum sviðum sjóflutninga sem nauðsynleg væri.
    Erlend skipafélög hafa ekki náð að koma sér hér fyrir þó svo þeim sé það frjálst og ástæðan er m.a. sú að skipafélögin sem fyrir eru eiga allt bryggjupláss í landinu. Það er í raun og veru hvergi hægt að binda erlent skip hér nema meira og minna upp á náð og miskunn skipafélaganna sem fyrir eru. Danskt fyrirtæki sem hugðist hefja hingað siglingar fyrir nokkru síðan rak sig fyrst og fremst á þann vegg að það

gat hvergi kastað spotta í land því að viðleguplássin á suðvesturhorni landsins eru meira og minna öll í eigu skipafélaganna sem fyrir eru og þau eru auðvitað ekki sólgin í að lána væntanlegum samkeppnisaðilum bryggjupláss, eða hvað? Þess vegna var það að þetta danska fyrirtæki leitaði til Ríkisskipa sálugu og spurðist fyrir um það hvort þar væri hægt að fá að binda skip og koma upp vörum því að þröngt var fyrir dyrum í Sundahöfn eða í Hafnarfirði þar sem Eimskipafélag Íslands átti að mestu leyti allt bryggjupláss sem til greina gat komið.
    Þegar þessi staða blasir við okkur í flutningamálunum til landsins, er það þá skynsamlegt að sama fyrirtæki sé ráðandi í eina millilandaflugfélagi landsmanna því að það er Eimskipafélag Íslands auðvitað. Það er ráðandi aðili í Flugleiðum hf. Það á meira en 33,3% og getur þar með stöðvað breytingar á stofnsamþykktum Flugleiða. Það hefur stjórnarformanninn og það hefur undirtökin að mínu mati í stjórn þess fyrirtækis. Er það skynsamleg eða æskileg staða? Svar mitt er nei. Hún er óæskileg, ekki bara vegna þess, sem menn ræða í almennu samhengi, að þarna sé óeðlileg samþjöppun fjármagns og valds í íslensku viðskiptalífi á ferðinni. Hún er að mínu mati sérstaklega varhugaverð vegna þess að hún getur hindrað eðlilega og innbyrðis óháða þróun þessara mismunandi samgönguþátta, flutninga á sjó og flutninga í lofti.
    Því hefur verið haldið fram að stjórnendur Flugleiða hafi verið undarlega áhugalausir um það á undanförnu árum að byggja upp fraktflutninga í lofti til og frá landinu. Því hefur verið haldið fram. Og það er allt í lagi að segja það hér. Þær raddir hafa heyrst og ættu ekki að koma mönnum á óvart. Spurningin er auðvitað þessi: Bíður ekki staða af þessu tagi þessum hættum heim? Ég óttast það.
    Það er mjög mikilvægt að mínu mati að aðstæður af þessu tagi hindri ekki eðlilega þróun og uppbyggingu hinna ólíku samgönguþátta og þess vegna eru full rök til að taka sérstaklega á þessu sviði og innleiða strangari takmörk hvað varðar mögulegar samsteypur eða samstæður fyrirtækja í samgönguþættinum.
    Það er vel þekkt úr viðskiptalöggjöf nágrannalandanna að til viðbótar hinum almennu takmörkunum sem gilda gagnvart markaðsráðandi fyrirtækjum og gilda um yfirtöku fyrirtækja á öðrum o.s.frv., til að hindra hringamyndun, fákeppni og einokun séu ákveðin svið tekin út úr og sérstaklega kveðið á um þau. Ég nefni aftur í bresku löggjöfinni ákvæði sem eiga við um bankastarfsemi og fjölmiðla. Þá er væntanlega hugsun manna þessi: Til viðbótar hinum almennu takmörkunum er skynsamlegt að tryggja alveg sérstaklega að um óeðlilega samþjöppun eða fákeppni verði ekki að ræða á viðkvæmum sviðum eins og í fjölmiðlum. Það hefur gerst í nokkur skipti á undanförnum missirum að ýmist breska löggjöfin eða EB-rétturinn, þær greinar Rómarsáttmálans sem um þessa hluti fjalla, og eru númer sextíu og eitthvað ef ég man rétt, hefur verið beitt til að hindra yfirtöku eins fjölmiðlarisa á öðrum. Sama hefur gerst í bankastarfsemi og sama hefur gerst í flugsamgöngum eins og þeir þekkja væntanlega sem fylgst hafa með hugmyndum evrópskra flugfélaga, franskra, belgískra, hollenskra og breskra, um að kaupa upp hvert annað á þennan veginn eða hinn. Nokkur slík áform hafa verið stöðvuð ýmist á grundvelli samkeppnislöggjafar viðkomandi landa eða á grundvelli hinna almennu ákvæða Rómarsáttmálans.
    En hér uppi á Íslandi, þrátt fyrir allt talið um aðstæðurnar í þessum efnum hvað varðar samgöngurnar --- og hef ég þó ekki nefnt það að auðvitað er sú samstaða miklu meiri því að til viðbótar sjósiglingunum og flugsamgöngunum kemur rekstur ferðaskrifstofa, hótela, bílaleiga, bókunarkerfis og fleiri þátta sem allt samtvinnað myndar auðvitað eina mjög magnaða samstæðu --- er í íslenska frv., sem hæstv. viðskrh. og ráðherra Alþfl. leggur fram, ekki eitt einasta atriði sem tekur á þessari stöðu. Samþykkt þessa frv. eins og það er flutt af hæstv. ríkisstjórn mun engu breyta um samstæðuna Eimskip, Flugleiðir, Úrval/Útsýn, hótel, bílaleiga, bókunarkerfi o.s.frv., af því að ákvæði frv. eru of almennt orðuð og taka ekki með neinum beinum hætti á þessari stöðu sem uppi er.
    Grein af því tagi sem hér er lögð til mundi knýja Eimskipafélag Íslands til að minnka eignarhlut sinn í Flugleiðum niður fyrir eða niður í fjórðung. Þar með réði Eimskipafélagið ekki lengur stofnsamþykktum fyrirtækisins, gæti ekki eitt og sér komið í veg fyrir breytingar á samþykktum þess né haft þar undirtökin í stjórn eins og það gerir við núverandi aðstæður.
    Ég vona, hæstv. forseti, að enginn misskilji mig svo, enda er ekki nokkur ástæða til þess, að ég sé að tala um þessa hluti eða rekja þá hér af einhverri andúð á viðkomandi fyrirtækjum. Það er ekki svo. Þetta eru að sjálfsögðu hin mætustu og þörfustu fyrirtæki og mikilvægt að þeim vegni vel. En það breytir ekki hinu að við verðum að þora að kalla hlutina réttum nöfnum og þessar aðstæður eru uppi í íslensku atvinnulífi og hafa verið mikið milli tannanna á mönnum undanfarin ár og ég held að það sé miklu heiðarlegra að ræða þetta hreint út heldur en í einhverjum hálfkveðnum vísum.
    Ég vil taka það fram að yrði ákvæði af þessu tagi lögfest væri að sjálfsögðu rétt og sanngjarnt að veita þeim sem fyrir því yrðu ákveðinn aðlögunartíma. Ég tel þess vegna að það kæmi til greina, eins og reyndar er lagt til í breytingartillögu minni, að láta gildistöku þessa ákvæðis vera nokkru síðar en frv. í heild eða veita því með bráðabirgðaákvæði ákveðinn aðlögunartíma. Það er oftast aðferðin þegar slíkum breytingum er hrint í framkvæmd að fyrirtækin fá tiltekinn aðlögunartíma til að minnka eignarhlut sinn og selja hann á almennum markaði. Ég tel að það mundi ekki gera mönnum annað en gott að Eimskipafélagið fengi ákveðinn aðlögunartíma til þess að minnka eignarhlut sinn í Flugleiðum niður í það sem hæfilegt getur talist svo ljóst væri að það væri ekki eitt og sér ráðandi aðili í rekstri þessa samkeppnisaðila sem ætti að vera ef allt væri með felldu. Auðvitað ættu eina millilandaflugfélag landsmanna og aðalmillilandasiglingafélag landsmanna að vera í samkeppni ef allt væri með felldu, helst bæði með farþega og vörur

þannig að það ríkti eiginleg samkeppni milli þessara ólíku samgönguforma til og frá landinu. Það er ekki hægt að segja að svo sé í dag. Það er alls ekki hægt að halda því fram. Og það er mjög bagalegt.
    Nokkrar fleiri breytingar er að finna í mínum tillögum, hæstv. forseti, en ég tel að ég hafi hér gert grein fyrir þeim helstu þeirra og ætla því tímans vegna ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég vil þó taka fram að ég tel að einnig í 18. gr., 5. kafla, þar sem fjallað er um eftirlit með samkeppnishömlum væri rétt að gera breytingar. 18. gr. gengur út á það að samkeppnisstofnun hefur heimild til að skylda fyrirtæki til að tilkynna um samruna fyrirtækja. Ég hef þá skoðun að eðlilegra væri að snúa þessu við þegar um er að ræða kaup eða yfirtöku á fyrirtækjum sem haft gætu varanleg áhrif á samkeppnisaðstæður þegar markaðsráðandi aðili á í hlut. Það væri í raun og veru í samræmi við það að ákveðin viðmiðunarmörk yrðu sett inn í lögin sem kvæðu á um það hvenær aðili skuli teljast markaðsráðandi, að jafnframt skuli þeir aðilar sem hefðu stærri markaðshlutdeild en 33% í hverju tilviki tilkynna til samkeppnisstofnunar ef þeir væru að yfirtaka fyrirtæki með starfsemi á skyldu sviði. Ég held að það væri að mörgu leyti eðlilegra að í þeim tilvikum snerist skyldan við, að það hvíldi á fyrirtækjunum að tilkynna stofnuninni þetta en ekki öfugt og að þetta væri heimild stofnunarinnar til að leggja þessa kvöð á fyrirtækin. Mönnum kann að finnast þetta léttvægt og það er það svo sem, þetta skiptir ekki miklu máli. Ég skil vel þá hugsun að vera ekki að plaga samkeppnisstofnun með endalausum tilkynningum án þess að það þjóni einhverjum tilgangi. Þess vegna á þetta auðvitað ekki að vera einhver allsherjarskylda. Ég er sammála því. En ég tel að þarna, eins og í fleiri tilvikum, eigi að greina á milli þeirra fyrirtækja sem hafa markaðsráðandi aðstöðu og þurfa að vera undir sérstöku eftirliti, fá sérstakt aðhald og svo annarra fyrirtækja. Það er þarft að minna þau á, mér liggur við að segja daglega, að þau hafi þessa viðkvæmu stöðu, að vera vegna stærðar, efnahagslegs styrks eða markaðshlutdeildar ráðandi aðilar um verð og viðskiptahætti á sínu sviði. Þá mundi það gerast sjálfkrafa að þau tilkynntu samkeppnisstofnun það ef þau hygðust kaupa upp fyrirtæki eða með öðrum hætti beita sér á þessum markaði.
    Ég er þeirrar skoðunar, hæstv. forseti, að við Íslendingar þurfum auðvitað að gera okkur með mjög raunsæjum hætti grein fyrir því að við hinar sérstöku aðstæður í okkar örsmáa efnahagskerfi eru því auðvitað veruleg landfræðileg og efnisleg takmörk sett að óheft samkeppni fyrirtækja geti alls staðar um allt land í öllum tilvikum og á öllum sviðum viðskipta tryggt okkur eðlilega verðmyndun. Við vitum auðvitað öll að þær aðstæður eru til að mynda ekki fyrir hendi í mörgum fámennari eða afskekktari byggðarlögum landsins. Þar eru ósköp einfaldlega ekki forsendur fyrir samkeppni margra aðila sem tryggja mönnum eðlilega verðmyndun og viðskiptahætti án eftirlits eða íhlutunar opinberra aðila. Reyndar er það svo þegar farið er yfir það hvaða þættir viðskipta á Íslandi séu í raun nægjanlega fjölbreyttir og fjölgreindir til að um eðlilega og fullnægjandi samkeppni sé að ræða, þá er það ekki margt, fyrir utan smásöluverslun á höfuðborgarsvæðinu, sem kannski strangt tekið fullnægir þessum kröfum. Það má færa fyrir því rök að bankastarfsemin í heild sinni, tryggingastarfsemin, samgöngurnar og verslunin úti um landið fullnægi í raun ekki þeim skilyrðum sem gera þarf til samkeppni eigi hún að vera þess umkomin að sjá um og tryggja ein og sér eðlilega verðlagningu og eðlilega viðskiptahætti. Það er þess vegna nauðsynlegt að mínu mati að vera mjög raunsær á möguleika þess að láta samkeppnina stjórna verðlagningunni. Ég er þeirrar skoðunar að heppilegast sé og rétt að gera það þar sem aðstæður eru fyrir hendi en það sé mjög háskalegt að láta blekkja sig þannig að fákeppni eða samningsbundin markaðsskipting tveggja, þriggja stórra fyrirtækja sem skipta á milli sín innanlandsmarkaði sé í raun og veru sú fjrálsa samkeppni sem dugar mönnum til eðlilegrar verðlagningar og eðlilegra viðskiptahátta. Ég held að það sé oft og tíðum versta tilhögunin sem til er, dulin fákeppni eða einokun sem að nafninu til er samkeppni en er það ekki í reynd. Af tvennu illu er þá betra að hlutast til um verðlagningu og viðskiptahætti með opinberum aðgerðum en að láta plata sig eins og því miður er raunin oft og tíðum í hinni duldu einokun eða duldu fákeppni sem allt of víða er fyrir hendi.
    Svo ég vitni aftur til Breta, þá held ég að það væri fróðlegt, og e.t.v. gerir efh.- og viðskn. það þegar hún fer að vinna að þessu máli, að kynna sér reynslu Breta af því að einkavæða einokunarstarfsemi. Það er mjög fróðleg lexía sem má verða mönnum umhugsunarefni. Hvort hefðu Bretar nú verið betur staddir með sitt gamla símafélag og járnbrautir eða þá okurstarfsemi í skjóli einokunar sem nú er rekin á þessum sviðum í Bretlandi og sópar óheyrilegum gróða til þeirra sem fengu þessi fyrirtæki á silfurfati fyrir lítið þegar einkavæðingarsýkin heltók menn svo í Bretlandi að þeir veigruðu sér ekki við að einkavæða einokunarstarfsemi með þeim skelfilegu afleiðingum sem öllum eru kunnar? Jafnvel harðsvíruðustu íhaldsmenn þar viðurkenna nú í dag að þeir gengu allt of langt. Þessi stefna gekk út í hreinar öfgar og hefur leitt yfir þá ýmiss konar bölvun.
    Ég held að það sama geti að nokkru leyti átt við eða sömu vítin sé að varast í vissum tilvikum þegar menn ætla að láta samkeppni sjá alfarið um að stjórna verðlagi og viðskiptaháttum þar sem sú samkeppni er í raun ekki fyrir hendi. Það væri auðvitað fróðlegt í þessu sambandi að ræða t.d. um það hversu mikil samkeppni er milli íslensku olíufélaganna. Eru menn t.d. þeirrar skoðunar, eins og hugmyndir hafa verið um, að sleppa verðlagningu þar algerlega frjálsri, að fullnægjandi samkeppni verði í Árneshreppi á Ströndum til að verðleggja bensínið með sanngjörnum hætti þar? Eða í smásöluverslun á Súðavík, Suðureyri? Eru menn þeirrar tilfinningar? Ég er ekki viss um að hlutirnir gangi þannig upp þó að hitt sé jafnljóst að hér á höfuðborgarsvæðinu væru nokkurn veginn örugglega fullnægjandi forsendur til þess að ætla

að nægjanleg samkeppni ríkti í smásöluverslun til að afnema hér öll opinber afskipti.
    Ég vil þess vegna í framhaldi af þessu, hæstv. forseti, gera þá athugasemd að ég hef efasemdir um að það sé rétt, þrátt fyrir allt, að nema með öllu úr lögunum almennar heimildir Verðlagsstofnunar sem nú heitir, samkeppnisráðs sem verður, til að hlutast til um verðlagningu vöru með einhverjum hætti á afmörkuðum sviðum viðskipta eða á afmörkuðum landsvæðum ef rökstuddar ástæður mæla með því að nauðsynlegt sé að grípa þar inn í.
    Því var fleygt hér í sumar og var reyndar fullyrt, m.a. í könnun í framhaldi af verðkönnun Verðlagsstofnunar, að í vissum tilvikum væru heildsalar að niðurgreiða kostnaðinn af samkeppninni hér á höfuðborgarsvæðinu með hærri álagningu til viðskiptavina sinna úti um landið, þ.e. hin harða samkeppni sem ríkti um viðskiptasamböndin hér á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hún er fyrir hendi og mjög grimm, leiddi til þess að menn notuðu sér á hinn bóginn fákeppnisaðstöðu sína úti um landið til þess að hækka þar álagningu og ná þannig upp því sem þeir gæfu með sér í samkeppninni hér á höfuðborgarsvæðinu. Að minnsta kosti komu mjög óhugnanlegar vísbendingar út úr verðkönnun Verðlagsstofnunar á síðasta sumri hvað þetta snertir. Það væri fróðlegt að heyra hæstv. viðskrh. fjalla aðeins um þessi sérstöku vandamál sem leiða af aðstæðum í okkar landi vegna þess að veruleikinn er stundum svolítið leiðinlegri viðfangs en hann birtist mönnum á pappírnum. Þetta er þrátt fyrir allt þannig að landið er jafnstrjálbýlt og fámennt og raun ber vitni. Það eru ósköp einfaldlega aðstæður sem við búum við og verðum að horfast í augu við þegar við smíðum okkur löggjöf af þessu tagi. Ísland er örsmá efnahagseining og hér geta því þurft að gilda að nokkru leyti nokkuð aðrar reglur eða a.m.k. þurfa að vera öryggishemlar í löggjöf sem taka tillit til þessara sérstöku aðstæðna. Mér finnst þess vegna þær heimildir sem samkeppnisráð hefur samkvæmt 17. gr. frv. í raun og veru of þröngt skilgreindar og það gæti verið ástæða til að athuga þar að gera að einhverju leyti íhlutunarheimildir samkeppnisráðs almennari við tilteknar aðstæður. Ég á þá t.d. við afmörkuð svið viðskipta eða viðskipti á tilteknum svæðum landsins þar sem hlutirnir hefðu bersýnilega farið úr böndunum og verðlagning úr öllu korti.
    2. mgr. 17. gr. er á þá leið að íhlutun geti falið í sér bann, fyrirmæli eða heimild með ákveðnum skilyrðum. Hún geti falið í sér að samkeppnisráð grípi til ákvörðunar um verð og viðskiptakjör einstakra fyrirtækja eða fyrirtækjahópa. Formálinn er sá að til slíkra aðgerða sé hægt að grípa gegn samningum, skilmálum og athöfnum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Síðan er talið upp í hverju hin skaðlegu áhrif geti falist. Ég er að segja að í vissum tilvikum getur svo farið að þessi skilyrði séu í raun og veru ekki uppfyllt en samt ríki óeðlilegt ástand hvað verð og viðskiptahætti snertir. Smásöluverslun á Vestfjörðum eða viðskipti með tilteknar vörur á tilteknu sviði úti um landið þarf ekki endilega að vera með þeim hætti vegna einhverra tiltekinna samninga milli fyrirtækja eða sérstakra athafna sem hægt er að benda á hjá viðkomandi fyrirtækjum. Ég held ósköp einfaldlega að almennar aðstæður geti leitt til þess að nauðsynlegt sé að yfirvöld samkeppnismála hafi heimildir til að beita sér til íhlutunar og þá eigi að orða það með þeim hætti í lögunum. Það er að sjálfsögðu ekki nokkur vandi að búa þannig um hnútana að ekki misskiljist að með því sé verið að veita samkeppnisráði eða samkeppnisstofnun opnar almennar heimildir til að beita eins og þeim sýnist. Að sjálfsögðu er hægt að afmarka og skilyrða það þannig að það misskiljist ekki. Þar væri eingöngu verið að tala um möguleika við tilteknar, skilgreindar aðstæður.
    Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi þá lokið við að gera grein fyrir helstu sjónarmiðum mínum í þessum efnum. Ég vil að lokum endurtaka það sem ég sagði í upphafi að ég tel að margt í frv. sé í rétta átt en það þarf hins vegar að taka á ýmsu og betrumbæta annað sem er ekki nógu gott. Ég hef mikinn vilja til að leggja mitt af mörkum til að reyna að ná samstöðu um afgreiðslu þessa mikilvæga málaflokks hér á þinginu. Ég vænti þess að sambærilegum vilja sé að mæta af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, þar sé vilji til þess að taka mark á ábendingum, athugasemdum og brtt. sem einstakir þingmenn eða þingflokkar hafa fram að færa. Ég held að það væri mjög æskilegt og mikilvægt ef þingið gæti náð góðri samstöðu um afgreiðslu þessa máls. Það mun ekki gerast nema menn gefi sér allgóðan tíma til að skoða það í nefnd og fara rækilega yfir þau sjónarmið sem þar eru uppi og þær ábendingar sem án efa koma úr ýmsum áttum til efh.- og viðskn. þegar mál þetta, eins og væntanlega verður, hefur farið til umsagnar hinna ólíku aðila í þjóðfélaginu sem þarna eiga hagsmuna að gæta. Ég held að það megi ekki á milli sjá hvor er mikilvægari þáttur þessa máls, sá sem lýtur að starfsskilyrðum og starfsumhverfi fyrirtækjanna sem er að sjálfsögðu mikilvægur eða hinn sem lýtur að því að tryggja neytendum eðlilega réttarstöðu og eðlilega vörn gagnvart því að þeir séu ekki saklaus fórnarlömb dulinna samkeppnishindrana eða óeðlilegra viðskiptahátta sem í krafti fákeppni eða dulinnar einokunar eigi sér stað í þjóðfélagi eða fyrirkomulagi sem að nafninu til á að stjórnast af frjálsri samkeppni. Til þess að svo geti orðið verður sú samkeppni að vera fyrir hendi og það er verkefni þessarar löggjafar númer eitt að tryggja að svo sé. Þar sem samkeppnin á að sjá um að tryggja eðlilega verðlagningu, eðlilega verðmyndun og eðlilega viðskiptahætti verður hún að vera fyrir hendi. Annars fer illa.